1.9.2020 9:13

Heilsulind án umhirðu

Í tímabærri Morgunblaðsgrein vekur Sigurður Sigurðarson máls á hnignun Laugardalslaugar.

Fyrir nokkru var umræða um opinbera þjónustu á Facebook og gerði ég þá athugasemd að reynsla mín af opinbera þjónustufyrirtækinu Laugardalslauginni sannfærði mig að rekstur hennar væri betur kominn í höndum einkaaðila. Þegar ég fékk tölvubréf með ósk um skýringar á þessum orðum svaraði ég og þar stóð meðal annars:

„Fyrir nokkrum vikum var bréfmiði límdur á varðklefann inni á karlabaðinu þar sem stóð á íslensku og ensku að vildu menn kvarta undan einhverju tæknilegu ættu þeir að senda boð á netfang sem birt var á miðanum. Þetta sýnir að starfsmenn í klefanum urðu fyrir miklu áreiti án þess að hafa svör.

Engin vissa er fyrir að heitt vatn sé í sturtum fyrst á morgnana og þess á milli eru miðar límdir upp um að of heitt vatn í sturtum geti verið hættulegt. Þessi upplímdu skilaboð um hitt og þetta setja ótraustvekjandi svip á starfsemina. Annað hvort er hún í lagi eða ekki. Einkaaðili stæði aldrei þannig að málum eða fengi leyfi til að gera það.

Rokið var með miklum látum í vetrarmyrkri að fjarlægja efni af stéttinni við laugina. Var orðrómur um að það væri vegna athugasemda heilbrigðiseftirlitsins og fótsveppamyndunar í efninu. Þegar opnað var eftir COVID-lokunina töldum við að nýtt efni væri komið á stéttina og jafnvel hitalagnir til að spara salt á vetrum en svo var ekki. Er hálf-nöturlegt útlit á þessu nú yfir hábjargræðistímann.

Raunar finnst manni oft eins og reksturinn hangi þarna á of gömlum bláþræði. Þegar hver sem er getur stjórnað hitastigi í heitum potti með snjallsíma er furðulegt að kalla þurfi á sérfróða menn til að tryggja að hitastig sé rétt í sturtum eða t.d. steinapottinum svonefnda. Hefur sú spurning vaknað hvort menn hafi ákveðið að friða gömul kerfi til varðveislu við vatnsstjórn í laugunum eða þrýstingi í nuddpottum.“

Þetta birtist hér nú (1. september) vegna tímabærrar greinar eftir Sigurð Sigurðarson ráðgjafa í Morgunblaðinu í dag sem hefst á þessum orðum:

„Laugardalslaug er frekar sóðaleg. Það er ekki starfsmönnum að kenna, miklu frekar borgaryfirvöldum sem virðist vera nákvæmlega sama um laugina, veita ekki nægt fé til viðhalds og þrifa.“

GO415P6V3GO415P6VDGO415P6V5Sigurður nefnir mörg dæmi máli sínu til stuðnings og birtir myndirnar sem hér fylgja. Um þær segir hann:

„Myndirnar sem fylgja voru teknar eftir „þrifin“. Af þeim má ráða að enn er mikið verk óunnið. Sumir myndu orða það þannig að komin sé tími á gagngera endurnýjun á lauginni.

Myndirnar skýra sig sjálfar. Þó má vekja athygli á einni. Greina má að tvær plöntur hafa skotið rótum í tröppum ofan í heitan pott. Hugsanlega er þetta smári. Já, það er líf í laugunum, jafnvel eftir lokun.“

Grein sinni lýkur Sigurður Sigurðarson á þessum orðum:

„Hversu lengi á að bjóða gestum upp á svona sundlaug? Hvernig stendur á því að Laugardalslaug er ekki lengur besta sundlaugin í Reykjavík?

En ágæti lesandi, ekki spyrja mig hvers vegna ég fer nær daglega í þessa laug.“