Gegn ESB-skrímslinu
Sá sem sendi mér greinina er gjörkunnugur þýskum stjórnmálum og sagði það tímanna tákn um stjórnmálaumræður í Þýskalandi að jafnöflugt stuðningsblað ESB og Die Welt hefði birt grein af þessum toga.
Vinur sendi mér fyrir nokkrum dögum grein undir fyrirsögninni: ESB er orðið að skrímsli. Hún birtist um miðjan október í þýska blaðinu Die Welt. Höfundurinn er Norbert Bolz (f. 1953). Að loknu doktorsprófi í heimspeki var hann til ársins 1992 lektor við Frjálsa háskólann í Berlín og frá 1992 til 2002 prófessor í samskiptafræði við Stofnun lista- og hönnunarfræða við Háskólann í Essen, með áherslu á fjölmiðlafræði, samskiptafræði og hönnunarvísindi. Frá 2002 þar til hann fór á eftirlaun í september 2018 var Norbert Bolz prófessor við Tækniháskólann í Berlín, við Stofnun tungumála og samskipta á deild fjölmiðlafræði/fjölmiðlaráðgjafar.
Nobert Bolz.
Sá sem sendi mér greinina er gjörkunnugur þýskum stjórnmálum og sagði það tímanna tákn um stjórnmálaumræður í Þýskalandi að jafnöflugt stuðningsblað ESB og Die Welt hefði birt grein af þessum toga. Hér eru nokkrir kaflar úr henni:
„ESB er skrímsli, við verðum að verja frelsi okkar gegn því. Komið er að endastöð þróunar sem hófst með stórri hugsjón. Áfall heimsstyrjaldarinnar sameinaði Evrópubúa í óskinni: Aldrei aftur stríð! og fæddi af sér verkefnið um pólitíska einingu Evrópu. Eftir fyrstu skref Kola- og stálbandalagsins færði Efnahagsbandalag Evrópu okkur fyrst frjáls viðskipti og síðan ferðafrelsi. …
Nú á tímum stöndum við frammi fyrir andhverfu Evrópuhugsjónarinnar. ESB er vél sem framleiðir stöðugt boð og bönn. Það starfar í anda handrits sem er blanda af Kafka og Orwell. …
Maður getur kannski enn hlegið að banni við plaströrum og kröfunni um fasta tappa á einnota plastflöskum. Hláturinn hlýtur þó að þagna í síðasta lagi með lögum um stafræna þjónustu og fyrirhuguðu spjalleftirliti. Þar er um að ræða aðferðir stjórnenda alræðisríkis sem lesa einkasamskipti og eyðileggja þar með friðhelgi einkalífs og tjáningarfrelsi …
ESB er ógagnsætt, valdboðssinnað og án nokkurs lögmætis. Þar er engin aðgreining valds og ekkert lýðræði. Framkvæmdastjórnin er ekki undir eftirliti þingsins …
Fullveldisafsal þjóðríkjanna fellur beinlínis að vilja hugmyndafræðinga ESB. En andstaðan gegn þessu fer vaxandi, ekki aðeins í Ungverjalandi … Nú er ESB það sem mikli þýski félagsfræðingurinn Max Weber sá fyrir með þessum dapurlegu orðum: „híbýli nýrrar ánauðar“.
Grein sinni lýkur Nobeet Bolz á þessum orðum:
„Vaxandi ólögmæti Evrópusambandsins, valdboðstilburðir, regluvaldsæði, úthugsað ábyrgðarleysi, ágangur á tjáningarfrelsið, áætlanir um alræðislegt fjöldaeftirlit – þegar þetta er skoðað verður ljóst að hér er ekkert minna í húfi en örlög frelsisins sjálfs. Saga frelsisins er í grundvallaratriðum evrópsk saga. Beina verður athygli að sögu og menningu Evrópu.
Það er einstakt í sögunni að almennir borgarar njóti frelsis eins og lengi hefur verið bundið við Evrópu. Í sögulegu ljósi er einstakt að í vestrænum heimi skyldi takast að vinna svo ólíklegt afrek sem á sér hvorki stoð í öðrum menningarheimum né í mannlegu eðli. Þessi ótvíræða sérstaða frelsis á Vesturlöndum hefur þróast við einstakar aðstæður. Vísindalegum og tæknilegum framförum fylgdi hagvöxtur og frjáls markaður. Lýðræði og réttarríki tryggðu einkaeignarrétt og einstaklingshyggju. Hver sá sem berst gegn skrímslinu Brussel í nafni þessa frelsis er ekki and-evrópskur heldur góður Evrópubúi.“