14.10.2024 15:10

Frumkvæði Bjarna - fáviska Kristrúnar

Skilur Kristrún hugtakið starfstjórn? Nei, ekki ef hún heldur að forseti geti falið einhverjum að mynda hana. Feli forseti einhverjum að mynda ríkisstjórn núna yrði það líklega minnihlutastjórn eða utanþingsstjórn.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, tók af skarið síðdegis í gær (sunnudaginn 13. október) og sagði málefnalega vegferð ríkisstjórnar sinnar á enda. Það yrði ekki lengra komist með samþykki allra flokka sem þýddi að mikilvæg málefni lægju óhreyfanleg, nefndi hann orkumálin sérstaklega.
Í bréfi sem Bjarni sendi flokksmönnum sínum að kvöldi sunnudagsins sagði hann meðal annars:
„Tryggja þarf áframhaldandi aðhald í ríkisfjármálum til að verðbólga og vextir haldi áfram að lækka. Styrkja þarf landamærin enn frekar. Stórauka þarf græna orkuframleiðslu. Setja þarf skýran ramma um nýjar og vaxandi greinar, þar sem atvinna og afkoma heilu samfélaganna er undir. Við höfum tækifæri til að stórauka verðmætasköpun og hagsæld í landinu, við megum ekki láta þau úr greipum ganga. Auka þarf frelsi fólks í leik og starfi og hverfa frá þeirri hugsanavillu að ríkisstarfsmenn einir geti veitt tiltekna þjónustu eða afgreitt löglegar neysluvörur. Áfram mætti lengi telja.“

Þarna nefnir hann mál sem hann vill að setji svip á kosningabaráttuna af hálfu sjálfstæðismanna, mál sem hann telur að ekki takist að leiða til farsælla lykta í núverandi samstarfi þriggja flokka sem staðið hefur í sjö ár.
Vissulega hefur mikill árangur náðst á mörgum sviðum en undanfarin misseri hefur sigið á ógæfuhliðina.
Á því er enginn vafi að dapurlegt fylgi stjórnarflokkanna í skoðanakönnunum er ákall um að þeir hætti að starfa saman. Þetta virðast allir stjórnmálaforingjarnir skynja nema Svandís Svavarsdóttir. Hún er að vísu nýkjörinn formaður í flokki sem vill ekki að stjórnin hætti fyrr en VG ákveður það!
Halla Tómasdóttir forseti Íslands þarf ekki langan tíma til að átta sig á að formenn allra flokka nema kannski Svandís vilja kosningar.
Þær verða innan 45 daga frá því að þing er rofið en þingmenn halda umboði sínu fram á kjördag sem ekki var áður. Þegar umboð þingmanna féll niður með þingrofsbréfi að tillögu forsætisráðherra fór forseti Íslands að tillögunni en hóf ekkert samráðsferli. Því minni ástæða er fyrir forseta að hefja slíkt ferli núna – til hvers?Screenshot-2024-10-14-at-14.20.41Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, vill kosningar sem fyrst en þó flýta sér hægt segir hún við mbl.is og „kanna þurfi möguleika á starfstjórn þangað til kosningar fari fram“. Starfstjórn er jafnan ríkisstjórn sem beðist hefur lausnar en falið er að starfa þar til önnur ríkisstjórn hefur verið mynduð t.d. að loknum kosningum.

Skilur Kristrún hugtakið starfstjórn? Nei, ekki ef hún heldur að forseti geti falið einhverjum að mynda hana. Feli forseti einhverjum að mynda ríkisstjórn núna yrði það líklega minnihlutastjórn eða utanþingsstjórn.
Það lofar ekki góðu um framhald umræðna um farsæla stjórn og stjórnarhætti ef þeir flokksformenn sem taka þátt í þeim eru ekki betur að sér en formaður Samfylkingarinnar. Því miður verður þess ekki vart að blaðamenn séu betur að sér ef þeir halla ekki undir flatt og hvá þegar vitleysan er sögð.