2.10.2017 9:28

Framboðslistar fæðast

Mikið gerist á bakvið tjöldin í mörgum flokkum þessa sólarhringana. Kosningarnar eru 28. október og ekki seinna vænna að sýna hvað er í boði, menn og málefni. Á meðan það er ekki gert eru allar kannanir frekar haldlitlar.

Á forsíðu Morgunblaðsins í dag, mánudaginn 2. október segir:

„Nú tefla stjórnmálaflokkarnir fram framboðslistum sínum í hverju kjördæminu á fætur öðru í aðdraganda alþingiskosninga. Píratar einir flokka efndu til prófkjörs í öllum kjördæmum til að skipa fólk á lista en kosningarnar fóru fram í gegnum rafrænt kosningakerfi Pírata. [...]

Sjálfstæðisflokkurinn hefur samþykkt lista í fimm kjördæmum af sex en listi í Suðvesturkjördæmi verður lagður fram til samþykktar í kvöld. Talsverð nýliðun er á listum Samfylkingarinnar en þegar liggja fyrir listar flokksins í fjórum kjördæmum af sex. Aðeins einn framboðslisti er tilbúinn hjá Vinstri grænum en búist er við baráttu um efstu sætin á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi. Þá fer landsfundur flokksins fram um helgina. Flokkur fólksins hefur kynnt oddvita sína í öllum kjördæmum. Aðrir flokkar hafa ekki birt lista að svo stöddu.“

Þetta sýnir að mikið gerist á bakvið tjöldin í mörgum flokkum þessa sólarhringana. Kosningarnar eru 28. október og ekki seinna vænna að sýna hvað er í boði, menn og málefni. Á meðan það er ekki gert eru allar kannanir frekar haldlitlar.

Framsóknarmenn þurfa að gera upp við sig hvort þeir ætla að halda áfram í 100 ára gamla flokknum eða fylgja Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.

Kannanir sýna að stuðningur við Viðreisn og Bjarta framtíð laðar líklega ekki neina til framboðs fyrir flokkana, hvorugur þeirra nær manni á þing fari fram sem horfir.

Vinstri grænir mælast með mikið fylgi í könnunum en innan dyra í flokknum eru mikil átök á milli þeirra sem hér hafa verið nefndir VG-101 og fylgja Svandísi Svavarsdóttur þingflokksformanni að málum og hinna sem teljast til landsbyggðarvina innan flokksins og halla sér að Steingrími J. Sigfússyni. Yfir vötnunum svífur svo Katrín Jakobsdóttir formaður.

Eins og fram kemur í frétt Morgunblaðsins valdi Flokkur fólksins oddvita á lista sína og boðaði til fundar sem virtist fámennur í stóra salnum í Háskólabíói. Í oddvitasætum flokksins eru ýmsir sem hafa verið virkir í flokksstarfi Sjálfstæðismanna. Verður forvitnilegt að sjá hvaða stefnu og skírskotun flokkurinn hefur.