1.8.2025 10:03

Flokkur fólksins „ekki í eftirdragi“

Sigurður Helgi Pálmason segir Flokk fólksins „ekki í eftirdragi“ vegna þess að hann taki þátt í ríkisstjórn sem hyggist halda þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðildarviðræður.

Sigurður Helgi Pálmason, þingmaður Flokks fólksins, er fyrsti varaformaður utanríkismálanefndar alþingis. Hann ritar grein í Morgunblaðið í dag (1. ágúst) í tilefni af umræðunum sem borið hefur hátt undanfarna daga um aðgerðir og stefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart ESB.

Sigurður Helgi segist andvígur aðild að ESB. Hann telur hagsmunum þjóðarinnar betur borgið utan sambandsins. Það megi þó aldrei verða til þess að hann hræðist lýðræðislega umræðu og þjóðaratkvæðagreiðslu. Þvert á móti eigi hann og aðrir andstæðingar ESB „að taka þátt í umræðunni með opnum huga, af heilindum og sýna virðingu gagnvart skoðunum annarra“.

Sigurður Helgi segir að það styrki samfélagið, stuðli að aukinni sátt og auki trú almennings á stjórnvöldum að treysta þjóðinni.

Enginn forystumaður í stjórnmálum líðandi stundar hefur varað með sterkari orðum við sundrungu vegna ESB-málsins en Kristrún Frostadóttir.

Fyrsti varaformaður utanríkismálanefndar segir Flokk fólksins „ekki í eftirdragi“ vegna þess að hann taki þátt í ríkisstjórn sem hyggist halda þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðildarviðræður, þvert á móti sé verið „að fylgja eftir grundvallarstefnu flokksins um að auka við beint lýðræði í landinu“.

Screenshot-2025-08-01-at-10.00.31Þingmenn Flokks fólksins hylla Ingu Sæland undir forystu Sigurðar Helga Pálmasonar (mynd: vefsíða Flokks fólksins),

Allt er þetta gott og blessað en ýtir þó undir þann grun að á næstu vikum og mánuðum vilji Flokkur fólksins ala á þeirri skoðun að deilt sé um hvort efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu eða ekki í stað þess að ræða til hlítar efni málsins.

Umræðurnar um hvort Ísland sé „umsóknarríki“ eða ekki eru því marki brenndar að aðalatriðið á þessari stundu gleymist: Um hvað á að spyrja í þjóðaratkvæðagreiðslunni?

Að mati framkvæmdastjórnar ESB er Ísland aðildarumsækjandi, það stenst grunnkröfur Kaupmannahafnarskilyrðanna svonefndu frá 1993. Það breyttist ekki með bréfi utanríkisráðherra Íslands frá 12. mars 2015. Vegna bréfsins var Ísland hins vegar tekið af lista leiðtogaráðs ESB um umsóknarríki, sem þýðir að Ísland er ekki aðildarkandídat.

Stundum mætti ætla að nýtt bréf frá utanríkisráðherra Íslands gerði landið aftur að aðildarkandídat. Svo er ekki. Framkvæmdastjórn ESB gerir tillögu til yfirboðara sinna í leiðtogaráðinu um að færa ríki af stigi aðildarumsækjanda á stig aðildarkandidats.

Að baki þjóðaratkvæðagreiðslu um þessa tilfærslu Íslands í aðildarkerfi ESB býr mikil heimavinna á vettvangi stjórnmála og stjórnsýslu. Hún verður að hefjast strax t.d. með viðræðum fulltrúa stjórnmálaflokkanna um breytingu á stjórnarskránni til að hún heimili afsal fullveldis.

Þeir sem vilja taka þátt í upplýstri umræðu verða að ræða þessi mál af kostgæfni á komandi vikum og mánuðum. Flokkur fólksins ætlar ekki að vera „í eftirdragi“ segir fulltrúi hans í utanríkismálanefnd alþingis. Ætlar hann að beita sér fyrir því að nefndinni og þjóðinni verði kynntur gátlisti og verkefnaáætlun næstu mánaða vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar? Til að umræðurnar séu opnar og upplýstar verður að liggja fyrir í haust um hvað verður spurt árið 2027.