17.7.2022 12:36

Fitty segir frá Fishrot

Fitty er sakaður um að hafa kynnt fulltrúa Samherja fyrir gerendum í sjávarútvegi Namibíu og síðan hannað kerfi sem gerði Samherja kleift að komast yfir veiðiheimildir í Nambíu.

TAMSON 'Fitty' Hatuikulipi er einn aðalmannanna í Fishrot-málinu í Namibíu, hér á landi er kallað Samherjamálið. Það má rekja má til viðskiptasambanda sem Jóhannes Stefánsson, þáv. starfsmaður Samherja, stofnaði til með Fittys árið 2011. Bernhard Esau, tengdafaðir Fittys, var sjávarútvegsráðherra og situr nú í fangelsi ákærður í Fishrot-málinu.

Fitty kom fyrir dómara í yfirrétti í Windhoek, höfuðborg Namibíu, um miðja vikuna til að rökstyðja að hann yrði leystur úr haldi (þar sem hann hefur setið síðan í lok nóvember 2019) gegn tryggingu. Nú eru liðin næstum tvö ár síðan hann reyndi árangurslaust að fá frelsi gegn tryggingu fyrir héraðsdómi í Windhoek.

Fitty (41 árs) gerði nú í fyrsta sinn opinberlega grein fyrir aðild sinni að Fishrot og færði rök fyrir að sér yrði sleppt gegn tryggingu.

Fitty er sakaður um að hafa kynnt fulltrúa Samherja fyrir gerendum í sjávarútvegi Namibíu og síðan hannað kerfi sem gerði Samherja kleift að komast yfir veiðiheimildir í Nambíu. Á þessu hefði fyrirtækið og þeir sem ákærðir eru í Fishrot-málinu hagnast.

Nefndar eru háar fjárhæðir sem runnið hafi persónulega til Fittys en einnig til fyrirtækja sem hann tengdist. Sér til varnar segist Fitty hafa tekið að sér ráðgjafarstörf fyrir Samherja og stofnað til kynna fulltrúa fyrirtækisins við þá sem réðu yfir veiðiheimildum í Namibíu og hugsanlega kaupendur á fiski sem Samherji kynni að afla í lögsögu Namibíu. Fyrrverandi skólafélagi hefði kynnt sig fyrir Jóhannesi Stefánssyni, fulltrúa Samherja, árið 2011. Greiðslur til sín hefðu verið fyrir ráðgjöf.

Segir blaðið The Namibian að Jóhannes verði vitni ákæruvaldsins þegar málflutningur í Fishrot-málinu hefjist. Fyrir rétti 14. júlí lýsti Fitty samskiptum sínum við Jóhannes, gaf honum falleinkunn og sagði ekki unnt að treysta honum.

TAmson

Tamson Fitty Hatuikulipi

Fitty er ákærður fyrir svindl, fjársvik, peningaþvætti, skattsvik og brot gegn spillingarlögum. Hann segist saklaus og ætli sér að standa fyrir máli sínu frammi fyrir dómara:

„Ég hef enga ástæðu til að hlaupa vegna þess að ég er saklaus. Ég vil ljúka þessu máli og hreinsa nafn mitt,“ sagði hann.

Segist Fitty ekki búa við nógu góðar aðstæður í fangelsinu til að undirbúa vörn sína. Líti hann á málatilbúnað gegn sér og þeim sem ákærðir eru með honum sé líklegt að 10 til 15 ár líði þar til málinu ljúki.

Allt sem snertir þessi málaferli vekur mikla athygli í Namibíu vegna pólitískra hliða málsins sem eiga rætur innan stjórnarflokks landsins.

Hér á landi hefur málið einnig dregið dilk á eftir sér einkum í fjölmiðlaheiminum vegna þess hve hátt var reist til höggs gegn Samherja í nóvember 2019. Það var gert í sjónvarpsþættinum Kveik á vefsíðunni Stundinni og upplýsingaveitunni Wikileaks og fréttastöðinni Al Jazeera.

Þeir sem stóðu að málinu í Kveik eru nú starfsmenn Stundarinnar. Samhliða því sem héraðssaksóknari rannsakar hlut Íslendinga í málinu er ólokið rannsókn lögreglunnar á NA-landi vegna þjófnaðar á farsíma sem sagt er að setja megi í samband við þetta mál allt.