13.8.2025 10:11

ESB-umsókn um undanþágur er dauðadæmd

Sé diplómatíska umbúnaðinum sleppt þýddi þessi boðskapur ESB og þýðir enn þann dag í dag: það er ekki unnt að semja um varanlega undanþágu frá neinu.

Í Morgunblaðinu í dag (13. ágúst) minnir Jens Garðar Helgason varaformaður Sjálfstæðisflokksins á söguleg orðaskipti Össurar Skarphéðinssonar, þáv. utanríkisráðherra, og Stefans Füle, þáv. stækkunarstjóra ESB, í Brussel 27. júlí 2010.

Þá voru 40 dagar liðnir frá því að leiðtogaráð ESB samþykkti Ísland sem aðildarkandídat (umsóknarríki á öðru stigi) og ráðherrann efndi til sameiginlegs blaðamannafundar með stækkunarstjóranum til að boða það sem við tæki.

Össuri fannst ástæða til að taka sérstaklega fram hve ESB væri „lausnamiðað“, það kynni „að finna skapandi lausnir fyrir hvern og einn án þess að brjóta gegn meginreglunni.“

Vegna þessara orða sagðist Stefan Füle vissulega vona að þeir kæmu auga á „nauðsynlega sköpunargáfu en innan ramma núverandi stofnsáttmála“. Hann sagðist einnig „mjög innilega“ vona að í viðræðunum yrði þeirri „almennu meginreglu“ fylgt að það væri „ekki hægt að fá neinar varanlegar undanþágur frá stofnsáttmála ESB“.

Skýrar verður ekki orðað á diplómatískum blaðamannafundi þar sem fagnað er nýjum aðildarkandídat, að honum beri að virða allar meginreglur ESB, stofnsáttmála þess. Frá honum verði ekki vikið með neinum varanlegum undanþágum.

668413Stefan Füle og Össur Skarphéðinsson í Brussel 8. apríl 2013.

Sé diplómatíska umbúnaðinum sleppt þýddi þessi boðskapur ESB og þýðir enn þann dag í dag: það er ekki unnt að semja um varanlega undanþágu frá neinu.

Í þessu ljósi er rétt að tala um aðlögunarviðræður að ESB. Orðið er hins vegar eitur í beinum ESB-aðildarsinna. Málflutningur þeirra er reistur á því að sótt sé um ESB til að fá undanþágur frá því sem þeir vita að brýtur gegn þjóðarhagsmunum. Þeir benda ekki á neinn augljósan hag af aðild.

Fiskimiðin, hafsvæðin og landgrunnið umhverfis Ísland skipta höfuðmáli þegar rætt er um aðild að ESB. Íslensk stjórnvöld yrðu að framselja ráðin yfir þessum svæðum og auðlindum þeirra til Brusselmanna.

Maltverjar eru undir sameiginlegri sjávarútvegsstefnu ESB en fengu veiðivernd fyrir smábáta sína innan 12 mílna í stað almennu reglunnar um stjórn ESB á veiðum að 6 mílum. Að nota þetta sem fordæmi er grátbroslegt.

ESB-aðildarsinni, Benedikt Jóhannesson, sagði á Facebook-síðu sinni 12. ágúst:

„Eftir stendur að Ísland innleiðir, sem EES ríki, megnið af þeim gerðum sem snerta innri markað Evrópusambandsins og við erum sem slík í þeirri stöðu að þurfa að taka upp reglur sem við höfum ekki komið að því að búa til. Það er óþolandi staða fyrir fullvalda ríki.“

Að sjálfsögðu innleiðum við gerðir sem snerta innri markaðinn vegna aðildar okkar að honum, skárra væri það. Hitt er alrangt að okkur sé haldið frá smíði þessara reglna. Staða okkar til að koma að henni hefur styrkst ár frá ári eins og lesa má í skýrslum til ríkisstjórnar og alþingis. Stjórnskipulag okkar hefur markvisst verið lagað til að gæta íslenskra hagsmuna á mótunarstigi þessara reglna. Fullveldi Íslands er ekki skert með aðild að EES, stjórnarskránni yrði hins vegar að breyta til að framselja fullveldi með aðild að ESB.