1.2.2019 9:36

EFTA opnar EES-kynningarvef

Í öllum æsingnum líta til dæmis alþingismenn ekki lengur til þess sem þeir hafa áður samþykkt varðandi þetta EES-samstarfið.

Skrifstofa EFTA, Fríverslunarsamtaka Evrópu, með aðild Íslands, Liechtenstein, Noregs og Sviss kynnti fimmtudaginn 31. janúar veftól sem sýnir feril mála frá ESB-löggjöf til EES-löggjafar.

Hér má nálgast þetta efni sem er vel úr garði gert og að hluta á tungumálum aðildarríkjanna. Þetta er liður í upplýsinga- og kynningarstarfi sem tengist 25 ára afmæli EES-samningsins. Allir sem áhuga hafa á staðreyndum varðandi EES-samstarfið ættu að kynna sér efnið sem þarna er að finna.

Einkennilegt er að þeir sem leggja sig fram um að lýsa þessu samstarfi eins og það er mega sæta gagnrýni sem er í senn ómálefnaleg og mannskemmandi. Þetta birtist á stjórnmálavettvangi á þann veg að veist er að kjörnum fulltrúum sem halda fram rétti og skyldum Íslands samkvæmt samningnum.

Cataluna-EFTAÍ öllum æsingnum líta til dæmis alþingismenn ekki lengur til þess sem þeir hafa áður samþykkt varðandi þetta samstarf. Umræðurnar um þriðja orkupakkann eru skýrt dæmi um þetta. Nefndir alþingis tóku málið fyrir innan þess ramma sem lýst er á nýju síðu EFTA-skrifstofunnar. Á þeim grundvelli varð þriðji orkupakkinn gerður að EES-máli af Íslands hálfu. Það var ekki fyrr en eftir þá ákvörðun sem minnihlutahópur í Noregi tók að beita sér gagnvart Íslendingum í því skyni að spilla framgangi málsins hér á landi. Hleypt var stokkunum áróðursherferð sem reist er á skipulegum upplýsingafölsunum.

Kallaður var til prófessor frá Tromsø, félagi í samtökum gegn ESB og EES, fyrrv. varaþingmaður norska Miðflokksins, til að flytja hér erindi sem síðan hefur verið lagt til grundvallar, til dæmis í áróðri Bændablaðsins. Í Noregi hefur málflutningi prófessorsins verið mótmælt sem staðlausum. Hér er honum enn hampað af ýmsum.

Vegna áhuga míns á að draga fram staðreyndir málsins er ég sakaður um að gæta hagsmuna tengdasonar míns sem ritaði um raf-sæstreng í bók sem hann skrifaði um norðurslóðir. Hann kannaði árið 2010 áhuga fjárfesta á raf-streng. Hefur hann ekki sinnt því máli síðan heldur beinir athygli sinni að gagnastrengjum. Sá sem stendur fyrir þessum rógi um mig í netheimum kallar mig „kvikindi“ þegar hann vill laða fólk til fylgis við málstaðinn. Verði þeim að góðu sem skipa sér í lið með honum!