18.1.2019 16:33

Dóra Björt í skjóli borgarritara

Í ljósi þess að meginrök Dóru Bjartar voru uppspuni hennar sjálfrar í skjóli borgarritara er seilst langt þegar hún telur Pírata á hærra plani en aðra.

Hallur Símonarson, innri endurskoðandi Reykjavíkurborgar, segir í minnisblaði dags. 17. janúar „ljóst  að  útsendum  tölvupóstum [hafi]  verið  eytt úr pósthólfi“ Hrólfs Jónssonar, þáv. skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg. Í minnisblaðinu áréttar innri endurskoðandi það sem fram kemur í skýrslu hans um braggann dýra í Nauthólsvík. Hún birtist skömmu fyrir jól. Þá hefur tölvupósti verkefnastjóra endurreisnar braggans einnig verið eytt.

Dóra Björt Guðjónsdóttir (DBG), oddviti Pírata og forseti borgarstjórnar, sagði í Silfrinu í sjónvarpinu sunnudaginn 13. janúar að henni þætti mikilvægt að úrvinnsla braggamálsins tæki mið af staðreyndum en ekki rangfærslum minnihlutans í borgarstjórn. Alvarlegustu rangfærsluna taldi hún fullyrðingar um að tölvupósti Hrólfs Jónssonar hefði verið eytt. Þá sagði hún í þættinum:

„Það hefur komið margoft fram að það sé rangt [að tölvupóstinum hafi verið eytt]. Ég hef sjálf talað við borgarritara sem hefur sagt að þetta er rangt, það var aldrei gert og það var gefið leyfi fyrir því að [innri endurskoðandi] myndi skoða þessa tölvupósta og þeir voru allir skoðaðir. Þannig að þetta sem var verið að gefa hér í skyn er hreinlega rangt. [Frammíkall frá Eyþóri Arnalds, oddvita sjálfstæðismanna: Þeim var eytt!] Það er líka rangt...“

Þetta eru alvarleg orð forseta borgarstjórnar, ekki síst að hún reisi þau á samtali við borgarritara. Vissi borgarritari ekki betur eftir allt það sem á undan var gengið? Fór hann með rangt mál í samtali við forseta borgarstjórnar? Er þetta uppspuni frá rótum hjá Dóru Björt?

1070650Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Dóra Björt Guðjónsdóttir, forseti borgarstjórnar.(mbl.is)

Svör verða á fást við þessum spurningum. Þær snerta þann kjarna braggamálsins að stjórnsýsla borgarinnar sé í molum en kostnaður vegna þess leggst á borgarbúa t.d. með fokdýrri endurgerð bragga þar sem farið er á svig allar reglur og höfuðkapp lagt á að borgarstjóri viti ekki neitt enda sé ekki unnt að sanna að hann og Hrólfur Jónsson hafi rætt málið þrátt fyrir dagleg samtöl og samtöl oft á dag.

Í Silfrinu sagði Dóra Björt einnig:

„Nei, skýrslan stendur en það er verið að fara hérna með rangfærslur, það er verið að afvegaleiða umræðuna og veistu, borgarbúar eiga hreinlega betra skilið en þessi umræða sé á þessu plani. Og við í Pírötum erum hreinlega komin til þess að tala um málefnin.“

Í ljósi þess að meginrök Dóru Bjartar voru uppspuni hennar sjálfrar í skjóli borgarritara er seilst langt þegar hún telur Pírata á hærra plani en aðra í umræðum um braggamálið. Sjálfumgleði Pírata er takmarkalaus.