30.1.2018 13:09

Chelsea Manning skráir kosningasíðu sína á Íslandi

Það vekur athygli í Bandaríkjunum að Chelsea

Manning skráði vefsíðu sína á Íslandi þegar hún opnaði kosningasíðu vegna framboðs síns á vegum demókrata til öldungadeildar Bandaríkjaþings.

Það vekur athygli í Bandaríkjunum að Chelsea Manning skráði vefsíðu sína á Íslandi þegar hún opnaði kosningasíðu vegna framboðs síns á vegum demókrata til öldungadeildar Bandaríkjaþings fyrir Maryland-ríki. Hún sat í fangelsi vegna miðlunar á bandarískum trúnaðarupplýsingum til Wikileaks.  

Patrick Tucker skrifar um þetta á vefsíðuna Defense One föstudaginn 26. janúar. Hann segir að ein skýring kunni að vera tilraun til að fela vefsíðuna fyrir bandarískum yfirvöldum. Kosningastjórn Manning skráði framboð hennar hjá bandarísku landskjörstjórninni 16. janúar 2018 og sagði opinbera vefsíðu framboðsins vera xyChelsea.is. Tucker segir lénið tengjast vef- og póstþjóni með ip-tölunni IP 82.221.131.165 á Íslandi. Hann segir ekkert ólöglegt við þetta en skráningin kunni að skipta máli reyni Manning að komast hjá því að bregðast við beiðni yfirvalda um gögn sem geymd eru á tölvunni. 

Chelsea Manning

Tucker segir að Manning hafi ekki brugðist við ítrekuðum beiðnum um að skýra hvað búi að baki þessari skráningu á Íslandi. Hann minnir á að í fyrra komst bandarískur áfrýjunarréttur að þeirri niðurstöðu að gögn í tölvum utan Bandaríkjanna falli ekki undir leitarheimildir bandarískrar lögreglu. 

Um var að ræða fíkniefnamál frá árinu 2013 og þar vildu bandarísk stjórnvöld heimild til að leita í tölvubréfum í vörslu Microsofts. Fyrirtækið varðist með þeim rökum að viðkomandi netþjónar væru á Írlandi og gögn í þeim utan bandarískrar lögsögu. Áfrýjunardómstóll féllst á sjónarmið Microsofts en hann klofnaði í afstöðu sinni, fjórir voru með en fjórir á móti. Hæstiréttur Bandaríkjanna tilkynnti í október 2017 að hann mundi taka málið fyrir og verður málflutningur í næsta mánuði. 

Tucker veltir fyrir sér hvort einhverjir frambjóðendur til bandarísku öldungadeildarinnar hafi áður farið sömu leið og Manning að velja lén fyrir kosningavefsíðu sína erlendis. Hann segist ekki hafa séð nein dæmi þess. Á það reynir á næstunni fyrir hæstarétti Bandaríkjanna hver er réttarstaða þessarar is.-vefsíðu Chelsea Manning gagnvart bandaríska réttarvörslukerfinu. 

Íslenska lénskráningarfyrirtækið ISNIC getur lokað léni á grundvelli rangrar skráningar  og slíkt gerist annað veifið má þar nefna lén hryðjuverkasamtakanna ISIS og  nasistasamtakanna The Daily Stormer. Meginreglan er að hver sem er getur opnað is-lén. Ekkert efni er hýst á léni. Allt efni á internetinu er hýst á einum eða fleiri vef- og póstþjónum og til að tengjast þeim þarf svokallaðar ip-tölur. 

Chelsea Elizabeth Manning er 30 ára gömul. Hún var í bandaríska hernum en hlaut í júlí 2013 dóm fyrir að brotið lög um meðferð trúnaðarmála hersins eftir að hafa sent WikiLeaks nálægt 750.000 skjölum, sat hún í fangelsi frá 2010 til 2017.