17.3.2023 10:03

Byrlunarmál á lokastigi

Lesendum til glöggvunar skal tekið fram að það sem hér er nefnt byrlunarmál er gjarnan kennt við svonefnda „skæruliðadeild“ Samherja.

Fréttir eru um að byrlunarmálið svonefnda sé á lokastigi. Bloggarinn Páll Vilhjálmsson hefur sagt af því á bloggi sínu. Hann lýsti málavöxtum þannig fimmtudaginn 16. mars:

„Páli [Steingrímssyni] skipstjóra [hjá Samherja] var byrlað að 3. maí 2021 og lá milli heims og helju í rúma þrjá sólarhringa. Á meðan var síma hans stolið og hann afritaður á RÚV. Símanum var skilað á sjúkrabeð Páls á meðan hann var enn rænulaus. Tæpum þrem vikum síðar, 21. maí, birtist efni úr símanum í Kjarnanum og Stundinni. Framkvæmdin gerði ráð fyrir að skipstjórinn yrði grunlaus um að gögnin kæmu úr síma hans. Varaáætlunin var að ekki yrði hægt að sanna að sími skipstjórans hefði verið afritaður.“

Skrif Páls Vilhjálmssonar um málið hafa orðið til þess að Þórður Snær Júlíusson, nú ritstjóri Heimildarinnar [áður Kjarnans], og Arnar Þór Ingólfsson, blaðamaður Heimildarinnar, hafa stefnt Páli Vilhjálmssyni fyrir ærumeiðingar. Lögmaður þeirra er Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, bróðir Finns Þórs saksóknara og Inga Freys, blaðamanns Heimildarinnar, sem nú er einnig meðal sakborninga í byrlunarmálinu.

1276775Páll Steingrímsson, skipstjóri hjá Samherja, fórnarlamb byrlunar 3. maí 2021. Fjölmiðlanenn eru meðal sakborninga við rannsókn byrlunarmálsins (mynd: mbl.is).

Allt tengist þetta Namibíumálinu (einnig kallað Samherjamálið) en þar er meðal sakborninga hér á landi lögmaður Samherja, Arna McClure. Hún hefur viljað fá aflétt stöðu sinni sem sakborningi í Namibíumálinu enda verið í stöðu sakbornings í um þrjú ár. Finnur Þór er saksóknari í því máli en Ingi Freyr hefur skrifað mikið um það. Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði 16. mars kröfu Örnu McClure um að stöðu hennar sem sakbornings yrði aflétt.

Arna McClure er brotaþoli í byrlunarmálinu. Halldór Brynjólfsson lögmaður hennar hyggst kæra úrskurð héraðsdóms um stöðu hennar sem sakbornings í Namibíumálinu til landsréttar. Hann segir að staða Inga Freys sem sakbornings í byrlunarmálinu breyti forsendum, ekki sé unnt að líta á hann sem óhlutdrægan blaðamann:

„Hann hefur réttarstöðu sakbornings í rannsókn þar sem skjólstæðingur minn hefur stöðu brotaþola. Með öðrum orðum, hann liggur undir grun um refsivert afbrot í garð skjólstæðings míns. Persónulegri verða hagsmunirnir vart.“

Halldóri finnst raunar umhugsunarvert að héraðssaksóknari skuli ekki taka málið gegn Örnu úr höndum Finns Þórs og fella niður rannsóknina á hendur henni að eigin frumkvæði, rannsóknin geti „með engu móti haft nokkurs konar yfirbragð eða ásýnd hlutleysis við þessar aðstæður“.

Lesendum til glöggvunar skal tekið fram að það sem hér er nefnt byrlunarmál er gjarnan kennt við svonefnda „skæruliðadeild“ Samherja og er það orð notað af fjölmiðlamönnum sem telja sig sæta ofsóknum af hálfu Samherja. Orðin „skæruliðadeild Samherja“ má rekja til greinar á Kjarnanum sem Þórður Snær og Arnar Þór rituðu 21. maí 2021 og vitnuðu í gögn úr síma Páls Steingrímssonar.

Útgáfa fjölmiðlamannanna sem sæta stöðu sakbornings í byrlunarmálinu á þessum málum öllum birtist í tímariti Aftenposten í Noregi í febrúar. Í næsta tölublaði tímaritsins baðst ritstjóri Aftenposten í löngu máli afsökunar á vinnubrögðum við skrifin og rangfærslunum sem birtust.