Borgarstjóri og innri endurskoðun
Af frétt Morgunblaðsins nú má álykta að innan meirihluta borgarstjórnar séu hugmyndir um að breyta ráðningarreglum á þann veg að það verði ekki borgarráð heldur borgarstjóri sjálfur sem ráði innri endurskoðanda.
Hjá Reykjavíkurborg lá fyrir um mitt ár 2024 að ráða þyrfti í embætti innri endurskoðanda. Eins og svo oft áður hefur málið verið látið dankast innan borgarkerfisins. Hildur Björnsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn segir í Morgunblaðinu í dag (22. ágúst) „gríðarlega mikilvægt“ að ráða sem allra fyrst innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar „eftir faglegum leiðum“.
Á fundi endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar fyrr í vikunni lögðu tveir af fjórum nefndarmönnum fram tillögu um að hafinn yrði undirbúningur að ráðningu innri endurskoðanda. Þetta er hlutverk nefndarinnar og síðan tekur borgarráð ákvörðun um ráðningu. Nefndin frestaði afgreiðslu málsins.
Ráðhúsið við Tjörnina.
Af frétt Morgunblaðsins nú má álykta að ágreiningur sé um ráðningarferlið innan meirihluta borgarstjórnar. Þar séu hugmyndir um að breyta ráðningarreglum á þann veg að það verði ekki borgarráð heldur borgarstjóri sjálfur sem ráði innri endurskoðanda.
Slík breyting væri stórhættuleg. Hún myndi grafa undan sjálfstæði eftirlitsins, veikja lýðræðislegt jafnvægi í borgarstjórninni og skaða traust almennings til þess að farið sé vel með opinbert fé.
Innri endurskoðandi hefur það hlutverk að fylgjast með því að borgin fari eftir lögum, reglum og samþykktum. Hann er eftirlitsaðili sem á að geta bent á mistök og misfellur – líka þegar þær eru pólitískt óþægilegar.
Ef borgarstjóri sjálfur fær vald til að skipa innri endurskoðanda verður þessi eftirlitsaðili háður vilja þess sem hann á að fylgjast með. Það er augljós hagsmunaárekstur sem dregur úr trúverðugleika embættisins.
Benda má á dæmi úr fortíðinni sem sýnir hversu mikilvægt óháð eftirlit er. Í svokölluðu Braggamáli árið 2018 benti innri endurskoðun á alvarlega annmarka í framkvæmdum við Nauthólsveg 100. Framkvæmdin fór langt fram úr fjárheimildum og upplýsingagjöf til borgarráðs var villandi.
Dagur B. Eggertsson þáv. borgarstjóri viðurkenndi pólitíska ábyrgð en kvartaði jafnframt yfir því að réttum upplýsingum hefði ekki verið miðlað til sín eða borgarráðs. Hann var því ósáttur við niðurstöður innri endurskoðunar.
Ef borgarstjóri hefði sjálfur ráðið innri endurskoðandann – hefði sá þá haft sama svigrúm til að koma með óþægilega gagnrýni? Hefði almenningur treyst niðurstöðunum?
Í fyrirtækjarekstri og opinberri stjórnsýslu gildir einföld regla: eftirlitsaðili má ekki lúta þeim sem fellur undir eftirlitið. Alþjóðleg viðmið leggja áherslu á að innri endurskoðendur séu skipaðir af stjórn eða óháðum nefndum – aldrei framkvæmdastjóranum sjálfum.
Hér var fyrirkomulagi við skipun í embætti ríkisendurskoðanda breytt og hún flutt frá ráðherra til alþingis. Núverandi fyrirkomulag í Reykjavík, þar sem endurskoðunarnefnd leggur fram tillögu og borgarráð tekur ákvörðun, tryggir einmitt slíkt sjálfstæði.
Ef borgarstjóri fær vald til að skipa innri endurskoðanda er hætta á að traust borgarbúa til eftirlitsins glatist. Líta mætti á þann sem ætti að vera óháður eftirlitsaðili sem undirmann þess sem lúta ber eftirlitinu.
Slíkt fyrirkomulag er ekki aðeins óeðlilegt – það er bein ógn við gagnsæi og trúverðugleika í stjórnsýslu borgarinnar.
Leyndin sem hvílir um margar ráðstafanir á fjármunum borgarbúa er þess eðlis að þörf er á meiri og ítarlegri miðlun upplýsinga og opnari stjórnsýslu frekar en að færa innri endurskoðanda undir borgarstjóra.