2.9.2020 9:49

Bíllaus lífsstíll gegn Sundabraut

Vandi borgarstjórnar vegna Sundabrautar er að meirihluti hennar lýtur í skipulags- og umferðarmálum stjórn Pírata sem aðhyllist bíllausan lífsstíl.

Í ítarlegu viðtali Andrésar Magnússonar við Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, í Morgunblaðinu í dag (2. sept) er vikið að Sundabraut og sáttmála um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu sem ritað var undir í fyrra.

Bjarni segir að sér sé óskiljanlegt að Reykjavíkurborg hafi ekki leyst skipulagsmál vegna Sundabrautar: „Ég bara skil það ekki,“ segir hann. Það er skiljanlegt vegna þess að í 23 ára hafa yfirvöld borgarinnar haft þetta mál á stefnuskrá sem skipulagsverkefni. Þá segir fjármálaráðherra einnig:

„Þegar samgöngusáttmálinn var í undirbúningi var það alveg tært af hálfu ríkisins að það þyrfti að leysa úr umferðarhnútum og klára skipulagsmál vegna nokkurra lykilsamgöngumannvirkja, sem þar eru tiltekin vegna þess að þau hafa of lengi setið á hakanum. Gagnvart ríkinu eru þetta samhangandi mál. Ef þau af einhverjum ástæðum stranda, til dæmis vegna ágreinings um skipulagsmál, þá mun það hafa beinar afleiðingar á aðrar efndir í samkomulaginu. Og ef það gerist ekki á vettvangi þeirrar stjórnar, sem verður komið á fót um þetta verkefni og fjármálaráðherra skipar formann í, þá mun það gerast í gegnum þingið. Þingið mun ekki samþykkja fjárheimildir ef það er ekki jafnvægi í efndum verkefna samningsins. Ég held að það sé of mikið sagt að slíkar vanefndir séu þegar fram komnar að varði riftun, en punkturinn er réttur [um að vanefndir leiði til riftunar sáttmálans]. Það getur ekki verið þannig að menn velji sér einstök verkefni eins og upp úr konfektkassa en hirði ekki um önnur.“

Ekki verður veitt fé úr ríkissjóði til neinna verkefna í þessum sáttmála, þar á meðal borgarlínunnar, án þess að fundin verði lausn á tengingu Sundabrautar vestan Elliðaárvogs.

Vandi borgarstjórnar vegna Sundabrautar er að meirihluti hennar lýtur í skipulags- og umferðarmálum stjórn Pírata sem aðhyllist bíllausan lífsstíl. Öll umferðarmannvirki fyrir bíla eitur í beinum Pírata. Þetta birtist til dæmis greinilega nýlega þegar Pírati sagði „galið“ að seðlabankastjóri teldi Sundabraut þjóðhagslega mikilvæga framkvæmd. Bíllausastefnan á einnig hljómgrunn í Samfylkingunni. Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi sagði tilgangslaust að reisa umferðarmannvirki, þau fylltust strax af bílum!

BgetFile.phpÍ borgarstjórn Reykjavikur voru óundirbúnar fyrirspurnir leyfðar í fyrsta sinn 1. september 2020. Hér býr Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna, sig undir að spyrja Dag B. Eggertsson borgarstjóra (mbl.is).

Á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í gær (1. sept.) kom nýr dagskrárliður til sögunnar í fyrsta sinn: óundirbúnar fyrirspurnir. Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna, reið á vaðið og spurði Dag B. Eggertsson borgarstjóra um Sundabraut. „Nú er liðið ár síðan borgarstjóri skrifaði undir samgöngusáttmála og ekkert hefur verið gert til að efna þessar skyldur borgarinnar,“ sagði Eyþór.

Borgarstjóri viðurkenndi í svari sínu að samgöngusáttmálinn „kveður á um að tryggja tengingar“ við Sundabraut.

Að sögn borgarstjóra eru nú fulltrúar ríkis og borgar „að skoða Sundabraut í göngum og samanburð við Sundabraut á lágbrú á svæðinu til móts við Holtaveg“. Borgarstjóri sagði ekkert um hver væri stefna sín eða meirihlutans.

Skýrar pólitískar línur hafa verið dregnar vegna Sundabrautar. Fjármögnun er ekki vandamálið. Málið er í fanginu á meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur þar sem Píratar ráða ferðinni í skipulags- og umferðarmálum.