15.7.2019 10:34

Áróður í stað fyndni

Þessi mynd Morgunblaðsins er ekki skopmynd heldur áróður reistur á upplýsingafölsunum.

Helsta uppspretta umræðna um þriðja orkupakkann er Morgunblaðið. Varla líður einn útgáfudagur þess án birtingar á einhverju efni sem tengist honum. Meðal andstæðinga orkupakkans er skopmyndateiknari í blaðsins. Vegna þess hve hann er upptekinn af andstöðu sinni við þriðja orkupakkann víkur fyndnin of oft fyrir áróðri. Hér var fyrir nokkru nefnt hvernig fagstofnun ESB um hagkvæmasta nýtingu orkudreifingarkerfis sambandsins, ACER, var teiknuð sem skrímsli gagnvart Íslandi. Stofnunin hefur þó einfaldlega ekkert um Ísland að segja.

Myndin sem birtist í blaðinu í dag (15. júlí) þjónar þeim tilgangi að gera lítið úr hugmynd sem Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kynnti í grein í blaðinu í fyrri viku og meðal annars varfjallað um hér. Tillaga Haralds er að kæmi til þess að alþingi ætlaði að taka ákvörðun um að heimila sæstreng til að flytja raforku frá Íslandi til annarra landa yrði þjóðin spurð álits á málinu í atkvæðagreiðslu.

Screenshot_2019-07-15-untitled-A2019-07-15-pdf

Tillagan er kynnt í sáttaskyni og tekur á máli sem borið hefur hátt í umræðum um þriðja orkupakkann undanfarið þótt rætt hafi verið um sæstreng til að flytja rafmagn frá Íslandi í það minnsta um 40 ár. Það þarf engan þriðja orkupakka til að ákveða sæstreng.

Vegna þessarar sáttatillögu birtir teiknari Morgunblaðsins mynd af Haraldi annars vegar og tengil á sæstreng hins vegar með spjald þar sem á stendur: Skaðabótakröfur vegna EES. Neðst á myndinni stendur: Þjóðaratkvæði um yfirvofandi skaðabótakröfur.

Þarna er haldið að lesendum þeirri kenningu að neiti íslensk stjórnvöld þeim sem lagt hefur sæstreng til Íslands að setja hann í samband við íslensk grunnvirki skapi það íslenska ríkinu skaðabótaskyldu.

Vissulega geta fjarstæðukenndar hugmyndir orðið að veruleika og lífsreynslan er oft lygilegri en skáldsaga. Að láta sér til hugar koma að einhver stofni til þeirrar fjárfestingar að leggja hingað sæstreng til þess að geta haft uppi skaðabótakröfur komi hann að lokuðum dyrum krefst mikils hugmyndaflugs um áhættufíkn fjárfesta. Að kenna þetta við EES er einnig mikil hugarleikfimi. EES leggur engar skuldbindingar í þá veru á herðar íslenska ríkinu að það beri skaðabótaskyldu gagnvart slíkum áhættufjárfestum. Að þeir kunni að kvarta til Eftirlitsstofnunar ESA segir ekkert um niðurstöðu þess máls. ESA hefur matskennt vald þegar að kvörtunum um markaðsmál kemur.

Þessi mynd Morgunblaðsins er ekki skopmynd heldur áróður reistur á upplýsingafölsunum. Teikningin er ófyndnari en hugmyndin sem einn andstæðingur þriðja orkupakkans setti fram á Facebook. Hún snerist um að fjárfestir setti upp vindraforkugarð hér á landi og heimtaði að fá að leggja sæstreng til að flytja orkuna frá honum til Bretlands. Á þennan hátt mætti skerða forræði okkar með þriðja orkupakkanum. Þetta getur einhver gert hvað sem þriðja orkupakkanum líður. Fyrsta spurningin hlýtur þó að vera: Hver er munur á vindinum hér og á Bretlandseyjum eða við þær?