8.7.2019 8:18

Þingmaður boðar sáttaleið um orkupakkann

Sameinist stjórnarflokkarnir um hugmyndina sem Haraldur hreyfir hér ætti það að leggja grunn að víðtækari sátt á þingi og meðal þjóðarinnar allrar.

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í NV-kjördæmi, birtir gagnmerka grein í Morgunblaðinu í dag (7. júlí). Grein Haralds einkennist af viðleitni til að upplýsa og finn lausn á langvinnum ágreiningi um þriðja orkupakkann.

„Umræða um orkupakka snertir þá grundvallarþætti sem tengja okkur saman sem þjóð. Rétt eins og landhelgin og sjálfbær nýting hennar, eignarhald á landi, bújörðum og náttúruperlum landsins. Yfirráð yfir orkunni eru okkur heilög. Það er því alvörumál að vera ætlað að vilja framselja yfirráð og eignarhald á orkuauðlindum landsins. Ekkert er fjær okkur,“ segir Haraldur.

Fyrir því hafa ekki verið færð nein rök að í innleiðingu þriðja orkupakkans felist það framsal sem Haraldur nefnir í grein sinni. Það er einfaldlega ekki á dagskrá.

7DM_4898_raw_1972.width-720Haraldur Benediktsson,

Af umræðum nú mætti halda að einhver launung hefði hvílt yfir innleiðingu orkupakka 1. og 2. Við sem sátum á þingi á þeim tíma vitum að svo var ekki. Í umræðunum um þriðja orkupakkann hefur verið vitnað í varnaðarorð mín frá 2002 þegar rætt var um breytinguna á raforkulögunum sem varð árið 2003. Í grein sinni segir Haraldur Benediktsson réttilega:

„Aðskilnaður á flutningi og framleiðslu orku varð hér á árunum eftir 2003. Þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Guðjón Guðmundsson, var einn þeirra sem vöruðu við þeirri vegferð. Segja má að flest hans viðvörunarorð hafi ræst. Þannig er veruleikinn sá að flutningur rafmagns hefur stórhækkað í verði. Leiða má líkur að því að við höfum áður verið lítt meðvituð um kostnað um uppbyggingu dreifikerfis og rekstur þess. Greiddum bara einn orkureikning. Veruleikinn er sagna bestur og reynslan. Dreifbýlisnotandi rafmagns hjá Rarik hefur séð reikning vegna flutnings á rafmagni frá árinu 2005-2018 hækka um 108% meðan almennt verðlag hækkaði um 45%. Þrátt fyrir að á sama tíma hafi niðurgreiðslur til jöfnunar á flutningskostnaði úr ríkissjóði hækkað um liðlega 300%.“

Gegnsæið sem varð með breytingunni á raforkulögunum hefði átt að kalla á meiri umræður um ástæður þessara gífurlegu hækkana á flutningskostnaði. Stenst sá opinberi rekstur gagnrýni? Hve stóran þátt eiga til dæmis flutningstöp á orku í þessari verðmyndun?

Haraldur segir að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðarráðherra láti nú kanna leiðir til „að vinda ofan af því misrétti á milli landsmanna sem innleiðing á orkupakka 1 og 2 var“. Þetta er brýnt verkefni þar sem velta verður hverjum steini.

Til að stuðla að sáttum í deilunni sem nú er vegna þriðja orkupakkans segir Haraldur:

„Sú hugmynd er hér sett fram að áskilja það í innleiðingu orkupakka 3 að setja lagaákvæði um að slík tenging [við raforkukerfi annarra landa] verði aðeins með samþykki þjóðarinnar í sérstakri atkvæðagreiðslu. Sæstrengur og bygging grunntengivirkja fyrir slíka tengingu verði því aðeins að meirihluti landsmanna samþykki það í atkvæðagreiðslu.“

Sameinist stjórnarflokkarnir um hugmyndina sem Haraldur hreyfir hér ætti það að leggja grunn að víðtækari sátt á þingi og meðal þjóðarinnar allrar. Þá yrði í fyrsta sinn lögfestur skýr og einfaldur rammi um ferli sem yrði að virða kæmi fram ósk um að hér yrðu reist grunnvirki vegna sæstrengs. Slík íslensk skilyrði stæðust EES-samninginn og ekkert í honum knýr stofnanir EFTA til að gera athugasemdir við íslensk lög í þessa veru.