8.6.2023 10:02

Af eldhúsdegi þingmanna

Þingsalurinn er vissulega ekki stór. Þar hafa menn þó í áranna rás horft til stöðu þjóðarinnar af hærri sjónarhóli og meira víðsýni en birtist í ræðunum í gær. 

Ræðurnar sem fluttar voru í eldhúsdagsumræðunum á alþingi í gærkvöldi (7. júní) eru nú allar aðgengilegar til aflestrar á vefsíðu alþingis. Af fljótum yfirlestri kemur á óvart að enginn ræddi um breytingarnar sem eru að verða í öryggisumhverfi okkar Íslendinga. Það var minnst á stríðið í Úkraínu af umhyggju fyrir örlögum barna þar og vegna áhuga beggja ræðumanna Viðreisnar á að áfram verði unnt að flytja tollfrjálsar kjúklingabringur inn frá Úkraínu.

Því má velta fyrir sér hvort enginn almennur þingmaður á Alþingi Íslendinga stríðsárið 2023 í Evrópu treysti sér til að reifa og kynna áhrif stríðsins á stöðu þjóðar sinnar og á hvaða aðgerðir það kallar. Fyrir áhrif gesta sem komu fyrir utanríkismálanefnd alþingis í desember 2022 var unnt að koma orði um landvarnir inn í uppfærða þjóðaröryggisstefnu.

Ea8fba47-0241-4591-ab64-10cd0154c4a3Þingalurinn (mynd; mbl.is/Eggert).

Þingsalurinn er vissulega ekki stór. Þar hafa menn þó í áranna rás horft til stöðu þjóðarinnar af hærri sjónarhóli og meira víðsýni en birtist í ræðunum í gær. Það er til marks um hvernig mál þróast að ræðumaður Pírata, þeir telja sig í besta takti við samtímann, vísaði ekki til þingmanna í ræðu sinni heldur þingfólks. Hér var ofar talað um ræðumenn, til að vera í réttum takti hefði átt að segja ræðufólk. Hverjum er verið að þóknast með þessari afskræmingu?

Píratinn, Andrés Ingi Jónsson, hafði sig mjög í frammi gegn útlendingafrumvarpi dómsmálaráðherra sem flutt var margsinnis og lenti í málþófskvörninni þar til hún var farin að mala píratana sjálfa. Nú beita þeir tafaaðferðinni gegn öðru máli sem snýr að öryggi landsmanna.

Andrés Ingi sagði í ræðu sinni að pírötum hefði nú í vikunni tekist að bregða fæti fyrir frumvarp um afbrotavarnir og hindra að það yrði afgreitt fyrir sumarhlé alþingis.

Frumvarpið er meðal annars rökstutt með vísan til vaxandi ólöglegrar upplýsingaöflunar rússneskra stjórnvalda á Norðurlöndunum. Annars staðar líta stjórnvöld á slíka starfsemi sem ógn við þjóðaröryggi. Hér snýst píratinn gegn því að varnir gegn slíkri starfsemi séu auknar með heimild í lögum af því að þar með sé verið að „lögfesta draum Sjálfstæðisflokksins“!

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra Sjálfstæðisflokksins, benti á að útlendingastefnan sem hér hefur verið fylgt undanfarin ár, stefnan sem pírötum finnst of þröng, hafi á sex árum leitt til flutnings 39.000 manns til landsins og stefni enn í fjölgun um 20.000 manns á næstu fjórum árum. „Við þurfum að horfast í augu við að innviðir okkar eru komnir að þolmörkum,“ sagði Áslaug Arna réttilega.

Líklega kalla píratar það „draum Sjálfstæðisflokksins“ að taka verði mið af þessari þróun og stemma stigu við henni. Píratar vilja opna meira. Píratar vilja bæði opna landamærin og veikja löggæsluna. Hver er raunverulegi tilgangurinn?

Eins einkennilega og það hljómar eru píratar þarna í einhvers konar vinsældakeppni við Vinstri-græna, flokk forsætisráðherrans, þjóðaröryggisráðherrans.