24.11.2021 9:08

Vottun í þágu loftslags

Um leið og lögð er áhersla á að virkja almenning og fyrirtæki í markvissu átaki í loftslagsmálum verður að tryggja að ekki séu stundaðar blekkingar til að hafa fé af fólki.

Hér hefur áður verið rætt um nauðsyn þess að huga að alþjóðlegum vottunarkröfum þegar rætt er um kolefnisbindingu. Heimatilbúin vottun sé ómarktæk og til þess fallin að blekkja þá sem vilja vinna að því að ná árangri í loftslagsmálum.

Í Fréttablaðinu í dag (24. nóv) segir frá því að Jón Gunnar Ottósson, fyrrverandi forstjóri Náttúrufræðistofnunar, telji það galla á vottunarferlum við kolefnisjöfnun hér á landi að reglurnar séu heimatilbúnar. Hann segir að þetta eigi til dæmis við um skógrækt. Í blaðinu segir Jón Gunnar:

„Hér í skógræktinni er öllu sleppt er varðar vernd líffræðilegrar fjölbreytni og framandi ágengar tegundir. Reglur, viðmið og staðla varðandi þessa mikilvægu þætti vantar í íslensku vottunarkerfin. Skilyrði um slíkt er hins vegar að finna í öllum viðurkenndum alþjóðlegum verkferlum.“

Þetta er alvarleg ábending. Hún er í sama anda og fram kom í grein landgræðslumannanna Sveins Runólfssonar og Andrésar Arnalds í Morgunblaðinu fyrir skömmu og að ný í Bændablaðinu 4. nóvember þar sem þeir lýsa hve illa stafafuran hefur leikið Nýja-Sjáland vegna andvaraleysis þar og ljúka grein sinni á þessum orðum:

„Áríðandi er að óháðir aðilar leggi hlutlaust mat á langtímaáhrif skógræktar með innfluttum trjátegundum á náttúru Íslands og fjölmargt annað. Jafnframt að meta hve vel er staðið við alþjóðlega samninga sem þessu tengjast. Mikilvægt er að horfa þar til mun lengri tíma en Íslendingar eru vanir, t.d. til næstu 200 ára.

Mótun nýrrar stefnu í notkun innfluttra tegunda í skógrækt hér á landi þarf að byggja á slíkum grunni. Ef upp koma álitamál þarf að hafa varúðarregluna í heiðri og láta náttúru Íslands njóta vafans.“

Mynd-2-50Þessi mynd birtist með grein Sveins Runólfssonar og Andrésar Arnalds í Bændablaðinu. Á Nýja-Sjálandi vinna stjórnvöld markvisst gegn því að illgresi takist að spilla náttúru landsins.

Í Fréttablaðinu segir Jón Gunnar Ottósson:

„Við erum að nota heimatilbúnar vottunarreglur sem ekki fullnægja kröfum í stað þess að horfa til alþjóðlegra vottunarkerfa. Þannig er stafafura, ein algengasta tegundin í skógrækt hér á landi, víðast talin ágeng og framandi og bönnuð af því að hún þykir ógn við líffræðilegan fjölbreytileika en í íslenskum verkefnum er hún talin góð og gild hér eins og aðrar ágengar framandi tegundir.“

Jón Gunnar segir óeðlilegt að umhverfisráðuneytið og loftslagsráð hafi ekki unnið að reglum um þessi mál því að með heimatilbúnum reglum hagsmunaaðila sé „viðhorf almennings“ til loftslagsmála misnotað til „fjárplógsstarfi“. Hann varar við því að kolefnisjöfnun verði „eins og aflátsbréf miðaldanna“.

Um leið og lögð er áhersla á að virkja almenning og fyrirtæki í markvissu átaki í loftslagsmálum verður að tryggja að ekki séu stundaðar blekkingar til að hafa fé af fólki. Krafan um skráningu á grundvelli alþjóðlegrar vottunar er sjálfsögð og óverjandi fyrir þá sem vilja njóta trausts á kolefnismarkaðnum að reyna að skjóta sér undan henni.