2.10.2021 11:51

Vegið að vistkerfum

Við blasir að við skilgreiningu verkefnisstjórnar um landsáætlun í skógrækt er enn einu sinni búið til viðmið til heimabrúks í stað þess að líta til þess sem er og alþjóðlegra viðmiða.

Tveir áhugamenn um náttúruvernd og fyrrverandi forystumenn Landgræðslu Íslands, Sveinn Runólfsson og Andrés Arnalds, birtu grein í Morgunblaðinu þriðjudaginn 28. september og veltu fyrir sér hvort ekki væri löngu tímabært að stöðva gróðursetningu stafafuru hér á landi. Undarlega þversögn felist í því, við upphaf áratugar um endurheimt vistkerfa, að í drögum að landsáætlun í skógrækt, sem enn er á vinnslustigi, sé áhersla lögð á ræktun framandi tegunda eins og stafafuru og þar með boðuð „stórfelld röskun á vistkerfum Íslands“ eins og þeir orða það.

Hjörleifur Guttormsson, fyrrv. ráðherra, segir í Morgunblaðinu 1. október að þeir Sveinn og Andrés bendi „réttilega á að stafafura, sitkagreni og fleiri innfluttar trjátegundir séu „farnar að sá sér af miklu afli út frá skógarreitum“ og séu augljóslega ágengar „samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu“. Nú verði opinberir aðilar að stöðva „handahófsflanið“ sem önnur ríkisstofnun, Skógræktin, hafi of lengi staðið fyrir „oft þvert á alþjóðlegar viðmiðanir og reynslu“.

Þetta eru alvarleg viðvörunarorð reynslumikilla manna af landgræðslu og náttúruvernd. Þeir Sveinn og Andrés segja að drögin að landsáætlun í skógrækt boði eitt stærsta náttúruverndarmál okkar tíma. Óvissuþættirnir séu óviðunandi og varði mikilvæga hagsmuni þjóðarinnar eins og varðveislu náttúrunnar, aðdráttarafl landsins fyrir ferðamenn og matvælaframleiðslu í framtíðinni.

Sjalfsanar-stafafuru-i-GrahelluhrauniSjálfsáð stafafura í hrauni (mynd Gróðrastöðin).

Við blasir að við skilgreiningu verkefnisstjórnarinnar um landsáætlunina er enn einu sinni farin sú leið að búa til viðmið til heimabrúks í stað þess að líta til þess sem er og alþjóðlegra viðmiða. Meirihluti verkefnisstjórnarinnar lætur eins og skráning íslenskra stjórnvalda á heimatilbúin lista ráði hvort innfluttar tegundir séu ágengar eða ekki.

„Sá veruleiki blasir hins vegar við, þegar horft er opnum augum á þróun náttúru landsins, að stafafura, sitkagreni og fleiri tegundir eru farnar að sá sér af miklu afli út frá skógarreitum,“ segja þeir Sveinn og Andrés réttilega og rekja síðan dæmi máli sínu til staðfestingar.

Forsendur landsáætlunarinnar miði við að gróðursetja sitkagreni og stafafuru í 20.000 hektara vel gróins þurrlendis, rússalerki í 5.000 ha. rýrlendis og alaskaösp í 5.000 ha. frjósams lands, eða um 30.000 hektara í allt, þetta samsvari stærð allra uppistöðulóna vegna vatnsaflsvirkjana frá upphafi.

„Við hljótum að sjá að það standa til boða aðrar lausnir vegna loftslagsmála en svo róttæk endursköpun vistkerfa,“ segja Sveinn og Andrés.

Nú þegar setið er yfir stjórnarmyndun og lagt er á ráðin um stefnu og störf næstu fjögur ár ber þau mál hátt sem snerta notkun lands í þágu loftslagsstefnu. Þar má ekki flana að neinu heldur ber að leita jafnvægis. Að ætla sér að raska vistkerfinu á þann hátt sem lýst er í drögum að landsáætlun í skógrækt er ekki í anda meðalhófs sem stjórnvöldum ber að gæta. Þá þarf að liggja fyrir alþjóðlega vottuð trygging fyrir að ekki sé vegið óbærilega að líffræðilegum fjölbreytileika með þessum hugmyndum hvað sem líður götóttum heimatilbúnum listum.