23.10.2021 10:12

Viðvörun frá Skotlandi

Skotinn leggur áherslu á að innlendar tegundir og vinna með náttúrunni séu í aðalhlutverki við að takast á við loftslagsbreytingar og vernda líffræðilega fjölbreytni.

Skotinn Roger Crofts, sjálfstæður ráðgjafi í umhverfisvernd, blandar sér í umræðurnar um skógrækt og útbreiðslu sitkagrenis og stafafuru hér á landi í grein í Morgunblaðinu í dag (23. okt.) og segir meðal annars:

„Það er hægt að draga lærdóm af ráðgjöf og reynslu annarra. Í Skotlandi hafa t.d. mörg mistök verið gerð, og eru enn að eiga sér stað. Í áratugi hefur gróðursetning framandi tegunda í kolefnisríkan jarðveg, samfara framræslu, leitt til mikillar rýrnunar á kolefni. Við plægingu og aðra röskun landsins leitar koldíoxíð úr jarðveginum út í andrúmsloftið, sem vinnur svo sannarlega gegn bindimarkmiðum. Þetta rask getur einnig valdið margvíslegum öðrum umhverfisáhrifum sem ná langt út fyrir svæðin þar sem unnið hefur verið að þessari tegund skógræktar. Fróðlegt væri fyrir íslensk skógræktarfólk að kynna sér hörmulegar afleiðingar ríkisstyrktrar gróðursetningar sitkagrenis og stafafuru í framræstar og frjósamar mýrar í The flow country sem eru víðáttumikil mýrasvæði í Caithness and Sutherland í Norður-Skotlandi.

Hvað Ísland varðar, þá er niðurstaða mín sú að takmarka þarf eða banna gróðursetningu sitkagrenis og stafafuru þar til óháð hlutlægt mat á kostum og göllum þessara tegunda til skógræktar liggur fyrir. Slíkur úttektarlisti þarf að innifela áhrifavalda um raunverulega kolefnisbindingu, áhrif skógarins á landslag, jarðveg og vistkerfi og kosti þess að nota frekar innlendar tegundir og endurheimta raskað votlendi.“

Hann leggur áherslu á að innlendar tegundir og vinna með náttúrunni séu í aðalhlutverki við að takast á við loftslagsbreytingar og vernda líffræðilega fjölbreytni.

6215.Sophie-Gerrard_Flow-Country-1.jpg-800x400x2The flow country í Skotlandi.

Það er samhljómur milli þessara orða um nauðsyn þess að nýta náttúruna og líffræðilega fjölbreytni. og þess sem Halldór Þorgeirsson, formaður loftslagsráðs, sagði á Arctic Circle í Hörpu fyrir viku um nauðsyn þess að nýta jörðina og líffræðilegan fjölbreytileika til að binda kolefni og stuðla að fæðuöryggi.

Hér var bent á grein eftir landgræðslumennina Svein Runólfsson og Andrés Arnalds um gildi þess að standa vörð gegn þeim tegundum sem Roger Crofts nefnir hér að ofan. Vakti undrun hve mikill hiti hljóp í þá sem telja gagnrýni á útbreiðslu sitkagrenis og stafafuru án hlutlægs mats á kostum og göllum tegundanna aðför að skógrækt almennt.

Brynjólfur Jónsson, skógræktarfræðingur og framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands, kynnti þessa reiði í garð efasemdarmanna vegna stafafuru í Morgunblaðinu 21. október þegar hann sakaði þá Svein og Andrés um að vega að einhverjum úr launsátri með „gífuryrðum“ þar sem þeir notuðu orðið „umhverfisslys“. Skoski greinarhöfundurinn nefnir dæmi um slíkt ríkisstyrkt slys í Skotlandi.

Skilja má grein Brynjólfs á þann veg að það sæmi ekki að Skógræktin sæti gagnrýni af því að hún sé ríkisstofnun sem sé skylt að gera landsáætlun í skógrækt. Einmitt þess vegna er það réttur almennra borgara að veita ríkisstofnuninni aðhald.