31.5.2020 11:16

VG færist til hægri

Í Fabian Society tók Katrín þátt í hringborðsumræðum með Ed Miliband, þingmanni og fyrrv. formanni Verkamannaflokksins.

Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur tók þátt í samtali við Ævar Kjartansson og Sigurjón Árna Eyjólfsson á rás 1 í morgun, hvítasunnudag 31. maí. Ræddu þau afstöðu og afstöðuleysi í stjórnmálum. Kristrún taldi að sósíal-demókratar og vinstrisinnaðir flokkar klofnuðu í sífellu vegna þess hve mönnum þar væri tamt að reka rýtinginn í bakið hver á öðrum. Mátti skilja á Ævari að þetta mætti rekja til þess að þeir væru svo miklir móralistar.

Þegar þessi orð féllu hvarflaði hugurinn til 20 ára sögu vinstri grænna sem Pétur Hrafn Árnason skrifaði fyrir flokkinn í fyrra. Hún snýst að verulegu leyti um átök og illindi innan flokksins og brotthlaup fólks úr honum. Sjá umsögn mína um bókina hér.

Kristrún vakti sérstaklega máls á því sem markverðum atburði í sögu vinstrimennsku hér á landi að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, formaður VG, skyldi fyrir rúmu ári hafa talað á fundi Fabian Socitety London og í London School of Economics þegar hún fór í heimsókn til Bretlands (30. apríl til 3. maí 2019).

6A6D58DD7BA2707AEC84BEB1B5CD0DCEF05D30DB7FF4BD9F4C0D2296410EC5CB_1600x900Katrín Jakobsdóttir og Ed Miliband á 20 ára afmælisfundi VG í febrúar 2019 (mynd: visir.is).

Í Fabian Society tók Katrín þátt í hringborðsumræðum með Ed Miliband, þingmanni og fyrrv. formanni Verkamannaflokksins. Hann kom hingað til lands í febrúar 2019 og talað á afmælisfundi VG. Hér á þessari síðu var það talið til marks um að VG fikraði sig inn fyrir pólitísk vébönd Samfylkingarinnar.

Um fundinn í Fabian Society sagði Katrín á vef stjórnarráðsins:

„Við áttum afar áhugaverðar umræður um framtíð vinnunnar og þær áskoranir sem ný tækni hefur í för með sér. Ég ræddi meðal annars um þær breytingar sem geta orðið á íslenskum vinnumarkaði og hefur verið fjallað um í stefnumótunarvinnu stjórnvalda um fjórðu iðnbyltinguna.“

Í hugveitunni Fabian Society eru nú rúmlega 7.000 félagar og úr röðum félagsins hafa í seinni tíð komið forystumenn innan Verkamannaflokksins eins og Shirley Williams, Tony Blair, Gordon Brown, Gordon Marsden og Ed Balls.

Þegar þess var minnst í fyrra að 70 ár væru liðin frá því að Atlantshafsbandalagið kom til sögunnar skrifaði Madeleine Moon, þingmaður Verkamannaflokksins og þáv. forseti NATO-þingsins, grein á vefsíðu Fabian Society og sagði meðal annars:

„Nýir valdapólar birtast. Aðrar hættur en hernaðarlegar eins og loftslagsbreytingar, upplýsingafalsanir og tilraunir til að grafa undan kosningum og lýðræðislegum stofnunum í löndum okkar valda líklega vaxandi vanda. Það reynir æ meira á samræmdar gagnaðgerðir sem munu sækja viðbótarstyrk til NATO og Evrópusambandsins.

Nýjar kynslóðir stjórnmálamanna sem hafa enga beina reynslu af kalda stríðinu munu takast á við þennan vanda, það verður að sannfæra þá eins og marga af samlöndum okkar um að NATO og Atlantshafstengslin séu hornsteinar öryggis okkar.“

Þetta er eins og talað til forystusveitar vinstri-grænna. Tækju þeir mark á þessum góðu ráðum hefði orðið raunveruleg breyting á flokki þeirra.