5.3.2022 11:11

Vatnaskil í öryggismálum Evrópu

Í anda friðmælastefnunnar og hugmynda um að með viðskiptum við Rússa töldu þýskir stjórnmálamenn að þeir gætu haldið aftur af Pútin. Þetta reyndist röng stefna.

Í umræðum á Vesturlöndum um viðbrögðin við innrás Pútins í Úkraínu beinist athyglin mjög að Þýskalandi sem öflugasta ríki Evrópu í efnahagslegu tilliti án þess að þar hafi, af sögulegum ástæðum, verið lögð áhersla á herbúnað eða íhlutun í hernaðarátök.

Allt frá því í upphafi sjötta áratugarins þegar efnahagsundrið svonefnda varð í vesturhluta Þýskalands vegna skynsamlegra ákvarðana í krafti bandarísku Marshall-aðstoðarinnar hafa þýskir ráðamenn lagt áherslu á að styrkur þjóðar þeirra fælist í nánu samstarfi við aðra: fyrst Kola- og stálsambandinu og síðan Evrópusamstarfinu sem við þekkjum nú sem Evrópusambandið þar sem Þjóðverjar og Frakkar eru forystuþjóðir.

Það var vegna áhuga Úkraínumanna í lok árs 2013 á að ganga til samstarfs við ESB og höfnunar stjórnvalda landsins þá, leppa Rússa, sem leppunum var vikið til hliðar snemma árs 2014 og til valda komust stjórnmálamenn og flokkar sem vildu halda sig sem lengst frá Pútin. Síðan má segja að hann hafi reynt að sölsa Úkraínu undir sig í sneiðum með hervaldi og stefni nú að því að ná nú landinu öllu í rúst sé því að skipta.

ScJafnaðarmaðurinn Gerhard Schröder, fyrrv, kanslari, gerðist málaliði viðskipta- og herveldis Pútins. Schröder er nú fordæmdur og settur til hliðar í flokki sínum og hvar sem verða má.

Í anda friðmælastefnunnar og hugmynda um að með viðskiptum við Rússa töldu þýskir stjórnmálamenn að þeir gætu haldið aftur af Pútin. Þetta reyndist röng stefna og undir forystu jafnaðarmannsins Olafs Scholz kanslara sneri þýska stjórnin við blaðinu, ákvað að hervæðast, leggja nýja gasleiðslu frá Rússlandi til Þýskalands til hliðar og halla sér að endurnýjanlegum orkugjöfum í stað þess að kaupa til frambúðar gas af Rússum.

Í maí 2021 þegar Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, tilkynnti Sergeij Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, á fundi í Hörpu í tengslum við ráðherrafund Norðurskautsráðsins, að Biden-stjórnin félli frá andstöðu við Nord Stream 2 gasleiðsluna frá Rússlandi til Þýskalands, var það álíka mikil stefnubreyting í Washington og ákvörðunin nú í Berlín um að leggja leiðsluna til hliðar.

Ég orðaði það svo að Blinken hefði gefið Lavrov gullmola og þar með lagt grunn að fundi Bidens og Pútins í Genf um mánuði eftir Hörpufundinn. Nú telja andstæðingar Bidens að með gullmolanum hafi hann sýnt veikleika sem espaði upp þrá Pútins eftir að ná Úkraínu á sitt vald. Biden sýndi enga andstöðu

Í stuttu máli sagt blasir við að friðmæli í sinn garð túlkaði Pútin aðeins sem merki um veikleika sem hann yrði að nýta sér.

Þetta er óhugnanleg niðurstaða þegar allt frá því kalda stríðinu lauk hefur verið látið eins og enginn þyrfti að búa sig undir hernaðarátök í Evrópu, aðeins biluðum einræðisherra dytti í hug að stofna til þeirra. Þannig er staðan þó í dag. Stríðið hófst og enginn veit hvenær eða hvernig því lýkur.

Þjóðverjar eru og verða lykilþjóð Evrópu gagnvart Rússum hvort sem um er að ræða viðskipti eða andstöðu. Nú hefur þýska stjórnin ákveðið að sýna andstöðu og nýtur stuðnings 78% þjóðarinnar. Vatnaskil hafa orðið í öryggismálum Evrópu.