Gullmoli Blinkens til Lavrovs
Morgunblaðið, föstudagur 28. mai 2021.
Það var annar bragur yfir Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, daginn fyrir utanríkisráðherrafund norðurskautsráðsins 20. maí 2021 í Reykjavík en forvera hans Mike Pompeo fyrir ráðsfundinn í Rovaniemi í Finnlandi í maí 2019.
Pompeo flutti eldheita barátturæðu gegn hernaðarumsvifum Rússa á norðurslóðum og sagði Kínverja ekki eiga neitt erindi þangað. Var þetta magnaðasta ræða af hálfu bandarísks ráðamanns í tengslum við fundi ráðsins frá því að það var stofnað árið 1996. Ákafinn var svo mikill í Rovaniemi að ekki náðist samkomulag um lokayfirlýsingu ráðherrafundarins.
Antony Blinken og Sergeij Lavrov í Hörpu 19. mai 2021.
Nú notaði Antony Blinken daginn fyrir fundinn til að eiga í fyrsta sinn sem utanríkisráðherra tvíhliða fund með Sergeij Lavrov, utanríkisráðherra Rússa. Var fundurinn friðsamur og nýttist til að ákveða fyrsta fund forsetanna Joes Bidens og Vladimirs Pútins. Hann verður í Genf um miðjan júní í tengslum við ferð Bidens á ríkisoddvitafund NATO-ríkjanna í Brussel.
Utanríkisráðherrar ríkjanna átta í norðurskautsráðinu rituðu í Hörpu undir Reykjavíkuryfirlýsinguna. Á ellefu blaðsíðum árétta þeir skuldbindingu ráðsins um „að viðhalda friði, stöðugleika og uppbyggilegri samvinnu á norðurslóðum“ eins og segir í tilkynningu utanríkisráðuneytisins. Lögð er áhersla „á einstaka stöðu norðurskautsríkjanna til að stuðla að ábyrgum stjórnunarháttum á svæðinu“ og „mikilvægi þess að takast þegar í stað á við loftslagsbreytingar á norðurslóðum“. Andstaða stjórnar Donalds Trumps Bandaríkjaforseta við Parísarsamkomulagið gegn loftslagsbreytingum réð miklu um enga yfirlýsingu frá Rovaniemi 2019.
Í tilefni af 25 ára afmæli norðurskautsráðsins samþykktu ráðherrarnir einnig fyrstu stefnuyfirlýsingu þess. Verður hún höfð að leiðarljósi á komandi áratug.
Rússar tóku við formennsku í ráðinu af Íslendingum. Forysta Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og íslensku utanríkisþjónustunnar hlaut almennt lof, opinberlega og í einkasamtölum.
Á hitafundinum í Rovaniemi og eftir hann reyndi verulega á innviði norðurskautsráðsins. Undir íslenskri forystu var skútunni siglt á kyrrari sjó og lögð áhersla á að halda starfinu innan marka samþykkta ráðsins. Þar skiptir verulegu máli að norrænu ríkin, fimm af átta aðildarríkjum, fylgja markvisst stefnu um að fjölþjóðlegt samstarf sé í krafti laga og reglu.
Hernaðarmál falla utan starfsramma ráðsins. Rússar liggja hins vegar ekki á óánægju sinni yfir að norrænu ríkin hafa undanfarin tvö ár enn eflt samstöðu sína í öryggis- og varnarmálum með NATO og Bandaríkjunum. Beina rússnesk stjórnvöld spjótum sínum einkum að Norðmönnum sem stofna nú til endurbóta á fjórum flugvöllum, Rygge, Sola, Evenes og Ramsund, í samvinnu við Bandaríkjastjórn til að auðvelda bandarískum hervélum að athafna sig frá Noregi. Að túlka þessa þróun á þann veg að hún sé reist á þrýstingi frá Bandaríkjamönnum er rangt. Að baki henni býr sameiginlegt hættumat eftir árás Rússa á Úkraínu árið 2014. Hún varð til dæmis til að gjörbreyta stefnu Svía í öryggis- og varnarmálum.
Vikurnar fyrir Reykjavíkurfundinn hömpuðu Rússar eigin hervæðingu á norðurslóðum. Þeir efndu til dæmis í fyrsta sinn til kynnisferðar fyrir erlenda blaðamenn til Alexander-eyju í Franz Josef Land-klasanum lengst í norðri til að sýna þeim nýja herstöð sína þar og hreykja sér af því að hafa nú aðgang að 19 herflugvöllum á og við norðurströnd Rússlands. Á þeim slóðum ætla þeir að vinna olíu og gas fyrir utan að stórauka siglingar um norðurleiðina milli Atlantshafs og Kyrrahafs.
Sergei Lavrov sagði við blaðamenn skömmu fyrir Reykjavíkurfundinn: „Öllum varð það fullkomlega ljóst fyrir löngu að þetta er okkar svæði, okkar land. Við berum ábyrgð á því að tryggja öryggi norðurstrandar okkar. Leyfið mér að árétta enn einu sinni – þetta er okkar land og okkar haf.“
Þegar Antony Blinken hitti Lavrov í fyrsta sinn hefði hann getað lagt höfuðáherslu á að mótmæla þessum ummælum og sagt þau ögrandi. Blinken tók hins vegar annan pól í hæðina og sagði Lavrov að ráðuneyti sitt hefði sama dag og þeir hittust tilkynnt Bandaríkjaþingi að endurskoðun á refsiaðgerðum gegn lagningu á Nord Stream 2, gasleiðslu Rússa til Þýskalands, væri lokið. Felldar yrðu niður aðgerðir gegn fyrirtækinu Nord Stream 2 AG og forstjóra þess Matthias Warnig, fyrrverandi austurþýskum njósnaforingja, vini Pútins.
Lavrov tók þessu fagnandi og einnig Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, sem sagði ákvörðunina til marks um að Þjóðverjar væru mikilvægir samstarfsaðilar Bandaríkjamanna og þeim mætti treysta í framtíðinni.
Nord Stream 2 gasleiðslan er á botni Eystrasalts og tengir Vyborg í Rússlandi og Greifswald í Þýskalandi. Lagningu hennar er næstum lokið (95%) en harðar refsiaðgerðir Trump-stjórnarinnar, sem tóku gildi 19. janúar 2021, daginn fyrir forsetaskiptin, settu lokaframkvæmdum við leiðsluna skorður. Enn eru í gildi refsiaðgerðir gegn fjórum rússneskum skipum.
Leiðslan er deilumál til margra ára. Utan Rússlands og stjórnarflokkanna í Þýskalandi á gasleiðslan fáa málsvara. Joe Biden, Antony Blinken, báðir flokkar á Bandaríkjaþingi, ESB-þingið og framkvæmdastjórn ESB hafa lýst andstöðu og efasemdum um réttmæti þess að leiðslan sé lögð.
Nú fyrr í maí sagði Blinken við BBC:
„Við teljum gasleiðsluna slæma hugmynd. Hún þjónar hagsmunum Rússa og grefur undan hagsmunum Evrópumanna og okkar eigin. Hún gengur í raun þvert á grundvallarsjónarmiðin sem ESB hefur kynnt að því er varðar orkuöryggi og að forðast beri að verða of háður einhverri annarri þjóð, í þessu tilviki á þetta við um Rússa.“
Bandaríski diplómatinn og blaðamaðurinn Daniel Benjamin, forstjóri American Academy í Berlín, sagði nýlega á vefsíðunni Politico: „Það kann að vera fyllilega réttmætt að refsa Rússum en það skiptir ekki máli hve miklu tjóni ný bylgja refsinga kann að valda Rússum, það tjón verður ávallt hlutfallslega minna en skaðinn á tvíhliða samskiptum Bandaríkjamanna og Þjóðverja á raunverulega viðkvæmu augnabliki.“
Donald Trump deildi hart á Angelu Merkel og stjórn hennar, ekki aðeins vegna samningsins um Nord Stream 2 heldur einnig vegna framlags Þjóðverja til NATO, þeir ættu að leggja meira fé af mörkum til varnarmála. Joe Biden velur annan kost sem hann telur að bæti andrúmsloft innan NATO, sporni gegn viðleitni Rússa til að hlutast til um innri málefni bandalagsins og styrki samstöðu gegn þrýstingi Kínverja á Evrópuríki.
Daniel Benjamin lýkur grein sinni á þessum orðum:
„Hver er tilgangurinn með því að styðja átak Bandaríkjamanna til að hafa hemil á slæmri hegðun Kínverja ef ekki er unnt að treysta Bandaríkjamönnum til að líta á Atlantshafsbandalagið sem tvístefnu-vettvang?“
Norðurslóðir setja sífellt meiri svip á þessa stóru mynd vegna þess að Pútin og stjórn hans líta á hagsmuni sína í norðri sem lykilinn að áhrifum á alþjóðavettvangi. Rússneskt gas selt um leiðslu til Þýskalands kemur að norðan og án markaðar fyrir það þrengdi fjárhagslega að Kremlverjum.
Blinken rétti Lavrov gullmola í Hörpu. Biden og Blinken hafa meiri trú á friðmælum en stóryrðum í anda Trumps og Pompeos. Viðskipti Þjóðverja og Rússa eru reist á tvístefnu. Þjóðverjar geta hert að Rússum með því að skrúfa fyrir gasið í leiðslunni. Mikil hætta felst í að kasta trúnni á frjáls viðskipti og áhrif þeirra í þágu friðar.