28.5.2021

Gullmoli Blinkens til Lavrovs

Morgunblaðið, föstudagur 28. mai 2021.

Það var ann­ar brag­ur yfir Ant­ony Blin­ken, ut­an­rík­is­ráðherra Banda­ríkj­anna, dag­inn fyr­ir ut­an­rík­is­ráðherra­fund norður­skauts­ráðsins 20. maí 2021 í Reykja­vík en for­vera hans Mike Pom­peo fyr­ir ráðsfund­inn í Rovaniemi í Finn­landi í maí 2019.

Pom­peo flutti eld­heita bar­átturæðu gegn hernaðar­um­svif­um Rússa á norður­slóðum og sagði Kín­verja ekki eiga neitt er­indi þangað. Var þetta magnaðasta ræða af hálfu banda­rísks ráðamanns í tengsl­um við fundi ráðsins frá því að það var stofnað árið 1996. Ákaf­inn var svo mik­ill í Rovaniemi að ekki náðist sam­komu­lag um loka­yf­ir­lýs­ingu ráðherra­fund­ar­ins.

LAntony Blinken og Sergeij Lavrov í Hörpu 19. mai 2021.

Nú notaði Ant­ony Blin­ken dag­inn fyr­ir fund­inn til að eiga í fyrsta sinn sem ut­an­rík­is­ráðherra tví­hliða fund með Ser­geij Lavr­ov, ut­an­rík­is­ráðherra Rússa. Var fund­ur­inn friðsam­ur og nýtt­ist til að ákveða fyrsta fund for­set­anna Joes Bidens og Vla­dimirs Pút­ins. Hann verður í Genf um miðjan júní í tengsl­um við ferð Bidens á rík­is­odd­vita­fund NATO-ríkj­anna í Brus­sel.

Ut­an­rík­is­ráðherr­ar ríkj­anna átta í norður­skauts­ráðinu rituðu í Hörpu und­ir Reykja­vík­uryf­ir­lýs­ing­una. Á ell­efu blaðsíðum árétta þeir skuld­bind­ingu ráðsins um „að viðhalda friði, stöðug­leika og upp­byggi­legri sam­vinnu á norður­slóðum“ eins og seg­ir í til­kynn­ingu ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins. Lögð er áhersla „á ein­staka stöðu norður­skauts­ríkj­anna til að stuðla að ábyrg­um stjórn­un­ar­hátt­um á svæðinu“ og „mik­il­vægi þess að tak­ast þegar í stað á við lofts­lags­breyt­ing­ar á norður­slóðum“. Andstaða stjórn­ar Don­alds Trumps Banda­ríkja­for­seta við Par­ís­ar­sam­komu­lagið gegn lofts­lags­breyt­ing­um réð miklu um enga yf­ir­lýs­ingu frá Rovaniemi 2019.

Í til­efni af 25 ára af­mæli norður­skauts­ráðsins samþykktu ráðherr­arn­ir einnig fyrstu stefnu­yf­ir­lýs­ingu þess. Verður hún höfð að leiðarljósi á kom­andi ára­tug.

Rúss­ar tóku við for­mennsku í ráðinu af Íslend­ing­um. For­ysta Guðlaugs Þórs Þórðar­son­ar ut­an­rík­is­ráðherra og ís­lensku ut­an­rík­isþjón­ust­unn­ar hlaut al­mennt lof, op­in­ber­lega og í einka­sam­töl­um.

Á hita­fund­in­um í Rovaniemi og eft­ir hann reyndi veru­lega á innviði norður­skauts­ráðsins. Und­ir ís­lenskri for­ystu var skút­unni siglt á kyrr­ari sjó og lögð áhersla á að halda starf­inu inn­an marka samþykkta ráðsins. Þar skipt­ir veru­legu máli að nor­rænu rík­in, fimm af átta aðild­ar­ríkj­um, fylgja mark­visst stefnu um að fjölþjóðlegt sam­starf sé í krafti laga og reglu.

Hernaðar­mál falla utan starfsramma ráðsins. Rúss­ar liggja hins veg­ar ekki á óánægju sinni yfir að nor­rænu rík­in hafa und­an­far­in tvö ár enn eflt sam­stöðu sína í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um með NATO og Banda­ríkj­un­um. Beina rúss­nesk stjórn­völd spjót­um sín­um einkum að Norðmönn­um sem stofna nú til end­ur­bóta á fjór­um flug­völl­um, Ryg­ge, Sola, Evenes og Ramsund, í sam­vinnu við Banda­ríkja­stjórn til að auðvelda banda­rísk­um hervél­um að at­hafna sig frá Nor­egi. Að túlka þessa þróun á þann veg að hún sé reist á þrýst­ingi frá Banda­ríkja­mönn­um er rangt. Að baki henni býr sam­eig­in­legt hættumat eft­ir árás Rússa á Úkraínu árið 2014. Hún varð til dæm­is til að gjör­breyta stefnu Svía í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um.

Vik­urn­ar fyr­ir Reykja­vík­ur­fund­inn hömpuðu Rúss­ar eig­in her­væðingu á norður­slóðum. Þeir efndu til dæm­is í fyrsta sinn til kynn­is­ferðar fyr­ir er­lenda blaðamenn til Al­ex­and­er-eyju í Franz Jos­ef Land-klas­an­um lengst í norðri til að sýna þeim nýja her­stöð sína þar og hreykja sér af því að hafa nú aðgang að 19 herflug­völl­um á og við norður­strönd Rúss­lands. Á þeim slóðum ætla þeir að vinna olíu og gas fyr­ir utan að stór­auka sigl­ing­ar um norður­leiðina milli Atlants­hafs og Kyrra­hafs.

Ser­gei Lavr­ov sagði við blaðamenn skömmu fyr­ir Reykja­vík­ur­fund­inn: „Öllum varð það full­kom­lega ljóst fyr­ir löngu að þetta er okk­ar svæði, okk­ar land. Við ber­um ábyrgð á því að tryggja ör­yggi norður­strand­ar okk­ar. Leyfið mér að árétta enn einu sinni – þetta er okk­ar land og okk­ar haf.“

Þegar Ant­ony Blin­ken hitti Lavr­ov í fyrsta sinn hefði hann getað lagt höfuðáherslu á að mót­mæla þess­um um­mæl­um og sagt þau ögr­andi. Blin­ken tók hins veg­ar ann­an pól í hæðina og sagði Lavr­ov að ráðuneyti sitt hefði sama dag og þeir hitt­ust til­kynnt Banda­ríkjaþingi að end­ur­skoðun á refsiaðgerðum gegn lagn­ingu á Nord Stream 2, gas­leiðslu Rússa til Þýska­lands, væri lokið. Felld­ar yrðu niður aðgerðir gegn fyr­ir­tæk­inu Nord Stream 2 AG og for­stjóra þess Matt­hi­as Warnig, fyrr­ver­andi aust­urþýsk­um njósna­for­ingja, vini Pút­ins.

Lavr­ov tók þessu fagn­andi og einnig Heiko Maas, ut­an­rík­is­ráðherra Þýska­lands, sem sagði ákvörðun­ina til marks um að Þjóðverj­ar væru mik­il­væg­ir sam­starfsaðilar Banda­ríkja­manna og þeim mætti treysta í framtíðinni.

Nord Stream 2 gas­leiðslan er á botni Eystra­salts og teng­ir Vy­borg í Rússlandi og Greifswald í Þýskalandi. Lagn­ingu henn­ar er næst­um lokið (95%) en harðar refsiaðgerðir Trump-stjórn­ar­inn­ar, sem tóku gildi 19. janú­ar 2021, dag­inn fyr­ir for­seta­skipt­in, settu lokafram­kvæmd­um við leiðsluna skorður. Enn eru í gildi refsiaðgerðir gegn fjór­um rúss­nesk­um skip­um.

Leiðslan er deilu­mál til margra ára. Utan Rúss­lands og stjórn­ar­flokk­anna í Þýskalandi á gas­leiðslan fáa mál­svara. Joe Biden, Ant­ony Blin­ken, báðir flokk­ar á Banda­ríkjaþingi, ESB-þingið og fram­kvæmda­stjórn ESB hafa lýst and­stöðu og efa­semd­um um rétt­mæti þess að leiðslan sé lögð.

Nú fyrr í maí sagði Blin­ken við BBC:

„Við telj­um gas­leiðsluna slæma hug­mynd. Hún þjón­ar hags­mun­um Rússa og gref­ur und­an hags­mun­um Evr­ópu­manna og okk­ar eig­in. Hún geng­ur í raun þvert á grund­vall­ar­sjón­ar­miðin sem ESB hef­ur kynnt að því er varðar orku­ör­yggi og að forðast beri að verða of háður ein­hverri ann­arri þjóð, í þessu til­viki á þetta við um Rússa.“

Banda­ríski diplómat­inn og blaðamaður­inn Daniel Benjam­in, for­stjóri American Aca­demy í Berlín, sagði ný­lega á vefsíðunni Politico: „Það kann að vera fylli­lega rétt­mætt að refsa Rúss­um en það skipt­ir ekki máli hve miklu tjóni ný bylgja refs­inga kann að valda Rúss­um, það tjón verður ávallt hlut­falls­lega minna en skaðinn á tví­hliða sam­skipt­um Banda­ríkja­manna og Þjóðverja á raun­veru­lega viðkvæmu augna­bliki.“

Don­ald Trump deildi hart á Ang­elu Merkel og stjórn henn­ar, ekki aðeins vegna samn­ings­ins um Nord Stream 2 held­ur einnig vegna fram­lags Þjóðverja til NATO, þeir ættu að leggja meira fé af mörk­um til varn­ar­mála. Joe Biden vel­ur ann­an kost sem hann tel­ur að bæti and­rúms­loft inn­an NATO, sporni gegn viðleitni Rússa til að hlutast til um innri mál­efni banda­lags­ins og styrki sam­stöðu gegn þrýst­ingi Kín­verja á Evr­ópu­ríki.

Daniel Benjam­in lýk­ur grein sinni á þess­um orðum:

„Hver er til­gang­ur­inn með því að styðja átak Banda­ríkja­manna til að hafa hem­il á slæmri hegðun Kín­verja ef ekki er unnt að treysta Banda­ríkja­mönn­um til að líta á Atlants­hafs­banda­lagið sem tví­stefnu-vett­vang?“

Norður­slóðir setja sí­fellt meiri svip á þessa stóru mynd vegna þess að Pút­in og stjórn hans líta á hags­muni sína í norðri sem lyk­il­inn að áhrif­um á alþjóðavett­vangi. Rúss­neskt gas selt um leiðslu til Þýska­lands kem­ur að norðan og án markaðar fyr­ir það þrengdi fjár­hags­lega að Kreml­verj­um.

Blin­ken rétti Lavr­ov gull­mola í Hörpu. Biden og Blin­ken hafa meiri trú á friðmæl­um en stór­yrðum í anda Trumps og Pom­peos. Viðskipti Þjóðverja og Rússa eru reist á tví­stefnu. Þjóðverj­ar geta hert að Rúss­um með því að skrúfa fyr­ir gasið í leiðslunni. Mik­il hætta felst í að kasta trúnni á frjáls viðskipti og áhrif þeirra í þágu friðar.