12.12.2017 10:23

Upplýsingafölsun vegna lögbannsmáls

Þegar kemur að lögbannsmáli Glitnis á hendur Stundinni verður fréttastofu ríkisútvarpsins fótaskortur enn á ný.

Í hádegisfréttum ríkisútvarpsins mánudaginn 11. desember fór Alma Ómarsdóttir með langan pistil vegna þess að hún taldi að lögbannskrafa Glitnis á fréttaflutning Stundarinnar, sem reistur var á gögnum sem lekið var úr fallna bankanum, yrði tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur eftir hádegi þann sama dag. Sýslumaðurinn í Reykjavík féllst á lögbannskröfu Glitnis í byrjun október og stöðvaði frekari fréttaflutning Stundarinnar og Reykjavík Media upp úr gögnunum.

Síðar þennan sama dag sagði fréttastofa ríkisútvarpsins (FRÚ) að fyrirtöku lögbannskröfunnar hefði verið frestað um viku að ósk lögmanns Glitnis um lengri tíma til gagnaöflunar.

Þegar Glitnir fór fram á lögbannið var baráttan vegna þingkosninganna 28. október að nálgast hápunkt. Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins létu eins og lögbannið væri sett til að stöðva fréttir Stundarinnar af því að þær snerust nær eingöngu um Bjarna Benediktsson forsætisráðherra og menn nákomna honum.

Viku fyrir kjördag birtist undarleg frétt úr skjölum Glitnis á FRÚ eins og ég rakti á þeim tíma.

Margítrekað var af hálfu Glitnis að lögbannskrafan snerist ekki um Bjarna Benediktsson heldur væri markmið hennar að verja þúsundir einstaklinga sem nafngreindir væru sem viðskiptamenn fallna bankans í þessum skjölum. Ættu þeir rétt á að njóta bankaleyndar þótt bankinn væri fallinn.

Um réttmæti þessa sjónarmiðs Glitnis snýst málið sem tekið verður fyrir í næstu viku verði ekki enn óskað eftir fresti í því. Að til þess sé stofnað sérstaklega til að vernda Bjarna Benediktsson er einfaldlega rangt.

Á FRÚ viðurkenna menn ekki að almenn sjónarmið búi að baki lögbannskröfunni eins og heyra mátti á málflutningi Ölmu Ómarsdóttur í hádegisfréttunum 11. desember þegar hún notaði tækifærið til að fara með alla þuluna reista á því sem birst hafði á Stundinni um fjármálasviptingar í kringum Bjarna Benediktsson. Almennur hlustandi var aldrei upplýstur um að lögbannskrafan snerist ekki um birtingu á þessum gögnum sérstaklega, að tíunda efni þeirra var hins vegar í takt við annan málatilbúnað FRÚ gegn Bjarna.

Fjármálaeftirlitinu var í tengslum við lögbannið tilkynnt um hugsanlegt brot á bankaleynd með fréttaflutningi Stundarinnar. Fjármálaeftirlitið kærði gagnalekann til embættis héraðssaksóknara nokkrum dögum síðar. Er málið enn til meðferðar hjá embættinu. Ástæða er til að velta fyrir sér hvort FRÚ falli einnig undir þá rannsókn.

Vegna undarlegrar hádegisfréttar Ölmu Ómarsdóttur 11. desember vaknar enn einu sinni spurning um hvaða gæðastaðlar ráða þegar tekin er ákvörðun um efni í fréttatíma. Hafi tilgangurinn verið að segja hlustendum frá hvers vegna lögbannsmálið er nú komið til dómstóla hefði átt að gera það á þann veg að allar hliðar þess væru kynntar en ekki tíunduð einungis gögn sem snerta Bjarna Benediktsson til að gera hann og viðskiptin tortryggileg í þessu ljósi. Nú er meira að segja látið að því liggja í fréttum sem sendar voru til útlanda að Bjarni hafi staðið á bakvið lögbannið.

Vilji menn ræða innlent mál þar sem disinformation – upplýsingafölsun – kemur við sögu er þetta gott dæmi um það.