Uppfærum forritið
Áramót eru rétti tíminn til að velta fyrir sér hvort eitthvað mikilvægt hafi farið fram hjá manni og nauðsynlegt sé að uppfæra eigið forrit til að átta sig á samtímanum.
Af pistlum sem hér hafa birst á árinu hefur enginn fengið meiri og jákvæðari viðbrögð en sá þar sem vitnað var í prédikun Guðrúnar Karls Helgudóttur biskups á jóladag í Dómkirkjunni. Fyrirsögnin á pistlinum var: Biskup spyrnir við fæti og var þar vísað til þess að hún snerist til varnar gegn þeim sem hafa viljað „fjarlægja trú úr almannarými hér á landi“.
Í bréfi sem mér barst vegna pistilsins sagði meðal annars: „Ég er sjálfur sannfærður um að læsi á kristinn táknheim sé mikilvægur hluti af því læsi sem við væntum þess að börn búi að eftir sína menntun og uppeldi, rétt eins og læsi á sögu og menningu annarra menningarheima.“
Þetta er kjarni málsins. Hvað sem líður frelsi manna til að iðka þá trú sem þeir kjósa er það flónska að ætla markvisst að afmá eina stoð menningarheims okkar af fjandskap við kristna trú. Það er raunar óskiljanlegt hve víða fyrirhyggjuleysi af þeim toga hefur búið um sig og fengið að þróast.
Orð biskups og hvatning hennar til að breyta um stefnu í þessu efni falla að því sem þjóðfélagsrýnir vestan hafs sagði í grein á vefsíðunni The Free Press (svo enn sé vitnað í hana) nýlega, að eitthvað djúpstætt væri að gerast. Í stað þess að glotta þegar rætt væri um trúmál hefðu ýmsir mikilvægustu heimspekingar, rithöfundar og menningarvitar tekið til við að endurmeta lítilsvirðingu sína á þeim. Þeir veltu fyrir sér hvort eitthvað hefði farið fram hjá þeim.
Áramót eru rétti tíminn til að velta fyrir sér hvort eitthvað mikilvægt hafi farið fram hjá manni og nauðsynlegt sé að uppfæra eigið forrit til að átta sig á samtímanum.
Nútíminn þarfnast þess að við nýtum okkur það besta sem fortíðin geymir. Ég var minntur á þetta þegar netvinur minn sendi mér grein í South China Morning Post um þjálfun flugmanna á fullkomnustu sprengju- og orrustuþotum Kínverja. Markmiðið væri að ná tæknilegu og mannlegu forskoti gagnvart Bandaríkjamönnum á þessu sviði.
Hvað sem tækninni líður telja Kínverjar að með því að nota meira en 800 ára gamalt qi gong æfingakerfi, sem þeir nefna baduanjin en kallað hefur verið átta frábæru æfingarnar á íslensku, geti flugmenn þeirra náð afdrifaríku forskoti gagnvart bandarískum orrustuflugmönnum. Í fréttum segir einnig að ungir Kínverjar hafi hrifist af æfingunum til að sporna gegn kulnun í starfi.
Allar þjóðir eiga ýmislegt gott í handraðanum sem ekki má kasta á glæ heldur ber að nýta til að gefa samtímanum meira inntak og leggja sterkan grunn að framtíðinni.
Hér var þetta til dæmis gert á árinu sem kveður með því að opna í fyrsta sinn sérhannaðan aðgang að handritunum, menningarverðmætunum sem eru álíka gömul og kínversku æfingarnar sem eiga nú að gera færustu hermenn enn þá betri. Dýrgripirnir okkar eru ekki dauðir hlutir heldur eru kveikja að óteljandi sögnum og listaverkum sem lifa og hvetja til nýrra dáða. Styrkjum sjálfsmynd okkar með því að leggja rækt við þennan arf í stað þess að gera hann brottrækan úr „almannarýminu“.
Ég þakka samfylgdina á árinu 2024. Gleðilegt ár, 2025!