Þjóðaröryggi á hættutímum
Hér á landi á sá misskilningur hljómgrunn, meðal annars í flokki forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur, að fæling og friður séu andstæður.
Óli Björn Kárason, formaður þingflokks sjálfstæðismanna, segir í lok greinar í Morgunblaðinu í dag (28. desember):
„Þegar Alþingi kemur saman á nýju ári bíða mörg verkefni. Eitt þeirra er endurskoðun á þjóðaröryggisstefnu landsins. Innrásin í Úkraínu verður óhjákvæmilega ofarlega í huga þingmanna. Þátttaka Íslands í öflugu varnarsamstarfi NATO og varnarsamningurinn við Bandaríkin hafa fengið nýja og dýpri merkingu.
Þjóðaröryggisstefna sem byggist ekki á þessu tvennu er ekki miklu meira virði en orð á blaði.“
Undir þessi orð skal tekið, miklu skiptir að þjóðaröryggisstefna Íslands taki mið af því sem leiðir af stríðinu sem Pútin hóf í Úkraínu og verður æ grimmdarlegra eftir því sem lengur er barist.
Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands, birtir langan pistil á Facebook-síðu sinni 27. desember sem hefst á þessum orðum:
„Hulunni hefur verið svipt af æpandi andvaraleysi íslenskra stjórnvalda þegar kemur að varnar- og öryggismálum á árinu sem er að líða. Nýjar tillögur um breytingar á þjóðaröryggisstefnu Íslands eru í engu samræmi við að ,,hernaðarlegt mikilvægi Íslands hefur aukist“ eins og fram kemur í nýrri skýrslu þjóðaröryggisráðs.“
Í umræðum um þessar tillögur og matið að baki þeim hefur hér verið sagt : „Þegar svo kemur að því hvort styrkja eigi varnir landsins í ljósi matsins er skilað auðu. Að skapa sér þá sérstöðu er óskynsamlegt.“
Baldur Þórhallsson orðar sömu hugsun á þennan hátt:
„Ráðamenn hafa dyggilega stutt Úkraínu eftir innrás Rússlands og inngöngu Svíþjóðar og Finnlands í NATO en hafa ekki mótað stefnu um varnarviðbúnað Íslands í gjörbreyttu öryggislandslagi í Evrópu. Við höfum ekki unnið heimavinnuna okkar eins og aðrar þjóðir og horfum ekki til þess hvað við þurfum að gera heima fyrir.“
Á vefsíðunni vardberg.is birtist í dag brot af viðtali við Erik Kristoffersen, hershöfðingja, yfirmann norska hersins. Það sem hann segir um nauðsyn aukins viðbúnaðar til að koma í veg fyrir að Rússar færi sig upp á skaftið gagnvart Norðmönnum og til að hindra að barist verði á norskri jörð á jafnt við um Ísland. Höfuðatriði er að halda Rússum í skefjum með nægilega öflugum fælingarmætti.
Hér á landi á sá misskilningur hljómgrunn, meðal annars í flokki forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur, að fæling og friður séu andstæður. Sé þetta í raun stefna VG brýtur hún gegn minnst þremur fjölþjóðlegum yfirlýsingum sem forsætisráðherra hefur ritað undir á þessu ári: Grunnstefnu NATO frá 29. júní 2022, varnarmálayfirlýsingu forsætisráðherra Norðurlanda 15. ágúst 2022 og yfirlýsingu leiðtogafundar JEF , Sameiginlegu viðbragðssveitarinnar, 19. desember 2022.
Þjóðaröryggisstefna Íslands verður að endurspegla vilja og getu íslenskra stjórnvalda til að verja land sitt í samræmi við þessar hátíðlegu skuldbindingar.