Þjóðaröryggismat í skugga Pútins
Morgunblaðið, laugardagur 10. desember 2022
Þegar þjóðaröryggisstefnan fyrir Ísland var samþykkt árið 2016 lá fyrir áhættumatsskýrsla fyrir Ísland frá árinu 2009. Matsskýrsla sem íslensk stjórnvöld létu vinna eftir að Bandaríkjaher hvarf héðan árið 2006. Þá töldu Bandaríkjamenn að líta bæri á Rússa sem samstarfsmenn en ekki andstæðinga.
Skýrslan frá 2009 var höfð til hliðsjónar þegar frá þjóðaröryggisstefnunni var gengið með samþykkt þingsályktunartillögu 13. apríl 2016. Síðar sama ár samþykkti þingið lög um þjóðaröryggisráð.
Í maí 2018 samþykkti þjóðaröryggisráð að lagt skyldi mat á ástand og horfur í þjóðaröryggismálum. Matið skyldi liggja stefnumótun og áætlanagerð í málaflokknum til grundvallar. Það ætti að „endurspegla þá breiðu sýn á þjóðaröryggi“ sem lægi að baki þjóðaröryggisstefnunni og skýrslunni frá 2009.
Stýrihópur við skýrslugerðina kallaði eftir áhættumatsskýrslum 18 greiningaraðila innan stjórnkerfisins og bárust þær frá lokum árs 2018 til ársbyrjunar 2020. Var tillaga að matsskýrslu á þessum grunni samþykkt á fundi þjóðaröryggisráðs 7. febrúar 2020.
Í byrjun mars 2020 var öllu skellt í lás hér og annars staðar
vegna COVID-19 faraldursins. Þá lagði skýrsluhópur
þjóðaröryggisráðs til að útgáfu matsins yrði frestað og ráðist í
endurmat vegna faraldursins. Gekk það eftir og er matsskýrslan
dagsett í febrúar 2021. Fyrstu blaðsíður hennar snúast um
farsóttir og áhrif COVID-19-faraldursins.
Nú þriðjudaginn 6. desember 2022 lagði forsætisráðherra, formaður þjóðaröryggisráðs, fyrir alþingi nýja matsskýrslu um þjóðaröryggi. Þar hefur mat á áhrifum COVID-19 vikið fyrir fyrir upphafsköflum sem heita: Ný staða í öryggismálum Evrópu. – Áfallaþol samfélagsins. – Hernaðarlegir þættir, fjölþáttaógnir og varnarmannvirki. – Öryggi landhelgi og landamæra. – Gæsla hafsins umhverfis Ísland. – Landamæragæsla.
Nýjasta matsskýrslan tekur með öðrum orðum mið af áhrifum innrásar Rússa í Úkraínu eins og þau voru orðin 28. október 2022, átta mánuðum eftir að Vladimir Pútin hóf styrjöldina. Hún hafði þá breyst í tortímingarstríð gegn grunnvirkjunum sem skapa íbúum Úkraínu ljós og yl í vetrarkuldunum.
Enginn veit hve lengi stríðið varir. Nú fyrir jólin kom í íslenskri þýðingu út bókin Kóreustríðið eftir Max Hastings. Það hófst að tilefnislausu vegna valdafíknar einræðisherra Norður-Kóreu sumarið 1950. Hart var barist í eitt ár en síðan háð þreytistríð í tvö ár. Því lauk með vopnahléi án friðarsamninga árið 1953. Er friður þar enn brothættur eins og fréttir herma.
Áhrifa Kóreustríðsins á þróun alþjóðamála gætir enn á mörgum sviðum. Hér leiddi stríðið til þess að gerður var varnarsamningur við Bandaríkin í maí 1951 að tilmælum NATO.
Enginn veit á þessu stigi hver verða varanleg áhrif innrásar Pútins í Úkraínu eða hvenær stríðinu lýkur. Í Norður-Kóreu bjó stríðsherrann þannig um hnúta að alræðisvaldið og stríðsvélin er enn í höndum erfingja hans. Pútin eru meiri skorður settar en Kim-ættinni í Norður-Kóreu hvort sem brotthvarf hans af valdastóli leiðir til friðar eða ekki. Arfleifð Úkraínustríðsins verður vafalaust sú að mun meiri varkárni gæti í samskiptum nágranna Rússa við þá en varð eftir hrun Sovétríkjanna.
Mat þjóðaröryggisráðs er að innrásin í Úkraínu hafi skapað „eitt alvarlegasta hættuástand í öryggismálum Evrópu frá lokum síðari heimsstyrjaldar“.
Erfitt er þó að benda á alvarlegra hættuástand í Evrópu frá 1945. Í Kóreustríðinu urðu til óskráðar samskiptareglur milli frjálsra ríkja og kommúnistaríkjanna sem drógu úr líkum á beitingu kjarnavopna á vígvellinum. Í Úkraínustríðinu hafa vaknað spurningar um hvort Pútin kunni í neyð sinni að grípa til kjarnavopna. Enginn veit svarið. Rússneski einræðisherrann er óútreiknanlegur en sagðist þó í vikunni ekki geggjaður þegar hann kæmi að kjarnavopnum.
Þjóðaröryggismatið er að rússnesk stjórnvöld séu „reiðubúin að beita öllum hernaðarmætti sínum til að ná pólitískum og hernaðarlegum markmiðum“.
Engu skipti hvort um sé að ræða „árásir á hernaðarleg eða borgaraleg skotmörk eða ofbeldi gegn almennum borgunum“. Þá hafi stríðið „valdið verulegum efnahagsskaða, eins og eyðileggingu grunninnviða, orkuskorti, röskun á aðfangakeðjum og leitt til mikillar spennu í alþjóðasamskiptum“.
Þá segir að „grimmilegt landvinningastríð Rússa gegn fullvalda ríki í trássi við alþjóðalög“ hafi kippt grundvellinum „undan því öryggiskerfi sem hefur verið í gildi í Evrópu frá lokum kalda stríðsins“.
Minnt er á að NATO hafi á ný „beint sjónum að hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Bretlands, svonefnds GIUK-hliðs, eins og á dögum kalda stríðsins vegna aukins flotastyrks Rússlands“. Aðstaða hér á landi hafi „lykilþýðingu vegna liðsflutninga yfir Atlantshafið, bæði á friðartímum og á hættu- og ófriðartímum“. Regluleg tímabundin viðvera liðsafla Bandaríkjanna á Íslandi hafi farið vaxandi á síðustu árum og tengist einkum eftirliti þeirra með rússneskum kafbátum á Norður-Atlantshafi.
Réttilega er sagt að varnarmannvirki í landinu séu „mikilvæg öryggishagsmunum Íslands og bandalagsríkja í tengslum við rekstur ratsjárkerfis og gistiríkisstuðning“. Áréttað er mikilvægi þess að tryggja að innviðir og sérfræðiþekking sé fyrir hendi til að taka þátt í starfsemi NATO og uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar sem því fylgja.
Þegar svo kemur að því hvort styrkja eigi varnir landsins í ljósi matsins er skilað auðu. Að skapa sér þá sérstöðu er óskynsamlegt.