Sinfóníuhljómsveitin 75 ára
Harpa er sýnilegt tákn um áhrif hljómsveitarinnar í menningar- og þjóðlífi okkar Íslendinga. Óáþreifanleg áhrif hljómsveitarinnar eru ekki minni þótt þau verði ekki mæld í gleri og steinsteypu.
Þess var minnst með tvennum tónleikum nú í vikunni að 75 ár eru liðin frá því að Sinfóníuhljómsveit Íslands var stofnuð. Níunda mars árið 2000 kom það í minn hlut sem menntamálaráðherra að flytja ávarp í 50 ára afmælishófi hljómsveitarinnar. Þá sagði ég meðal annars:
„Þegar tekið var á málum hljómsveitarinnar um miðjan sjötta áratuginn var Ragnar Jónsson í Smára kallaður á vettvang með ýmsum öðrum góðum mönnum.
Ragnar var einn af forvígismönnum Tónlistarfélagsins, en félagið stóð eins og klettur með hljómsveitinni. Strax árið 1943 gaf félagið út Passíusálma Hallgríms Péturssonar í hátíðarútgáfu í eitt þúsund tölusettum eintökum og skyldi ágóðinn af útgáfunni renna í byggingarsjóð væntanlegrar Tónlistarhallar í Reykjavík og voru nöfn kaupenda færð í sérstaka bók, ásamt nöfnum þeirra, er á annan hátt styrktu þetta málefni.
Já, góðir áheyrendur, það var þegar árið 1943, sem framsýnir menn voru farnir að safna fé fyrir Tónlistarhöll í Reykjavík, þó gerðist það ekki fyrr en í janúar árið 1999 að ríkisstjórn Íslands og borgarstjórn Reykjavíkur lýstu í fyrsta sinn þeim sameiginlega ásetningi sínum að reisa slíka höll í Reykjavík. Síðan hefur verið unnið markvisst að málinu undir forystu fulltrúa þriggja ráðuneyta og borgarstjórnar. Hefur húsinu verið valinn fagur staður í miðborg Reykjavíkur og nú hefur hafnarstjórn afmarkað hann með samþykkt, sem kynnt er í dag. Enn finnast þeir þó, sem skammast með fordæmingu, þegar rætt er um góðan og viðunandi samastað fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ég lít á það sem eitt mikilvægasta hlutverk mitt í þágu hljómsveitarinnar um þessar mundir að fylgja eftir kröfunni um tónlistarhöllina.“
Hljómsveitinni fagnað að loknum afmælistónleikunum.
Í hófi sem haldið var í Norðurljósasal Hörpu að loknum síðari tónleikum sveitarinnar að kvöldi föstudagsins 7. mars sagði Svanhildur Konráðsdóttir forstjóri Hörpu réttilega að sú glæsilega höll hefði aldrei verið reist ef Sinfóníuhljómsveit Íslands hefði ekki áunnið sér þann sess sem hún gerði strax á fyrstu starfsárum sínum.
Harpa er sýnilegt tákn um áhrif hljómsveitarinnar í menningar- og þjóðlífi okkar Íslendinga. Óáþreifanleg áhrif hljómsveitarinnar eru ekki minni þótt þau verði ekki mæld í gleri og steinsteypu.
Víkingi Heiðari þakkað.
Hrifningin sem braust fram meðal áheyrenda eftir að Víkingur Heiðar Ólafsson lauk einleik í 5. píanókonsert Beethovens með hljómsveitinni undir stjórn Evu Ollikainen var í senn þakklæti til allra flytjenda og aðdáun á listamanni sem fékk sín fyrstu tækifæri með sinfóníuhljómsveitinni en blómstrar nú í tónlistarhöllum um heim allan og er heiðraður með alþjóðlegum verðlaunum og viðurkenningu.
Það er ekki sjálfgefið að fámennt samfélag eins og hér á landi búi tónlistarflutningi þá hágæðaumgjörð sem Eldborgin er. Harpan er hins vegar hér og er ekki aðeins heimili sinfóníuhljómsveitarinnar heldur svo margs annars. Því ber hins vegar að halda á loft um ókomna tíð að Harpan var reist af því að þjóðin sameinaðist um að tryggja list listanna heimili við hæfi.