9.3.2000

Sinfóníuhljómsveit Íslands 50 ára

Sinfóníuhljómsveit Íslands 50 ára
9. mars 2000.

Þegar dr. Páll Ísólfsson var tónlistarstjóri Ríkisútvarpsins undir lok fimmta áratugarins og vann að því með Jóni Þórarinssyni, tónskáldi og samstarfsmanni sínum, að hvetja til þess að sinfóníuhljómsveit yrði stofnuð, var nauðsynlegt að halda vel á málinu og láta ekki deigan síga.
Dr. Páll sagði frá því í Útvarpstíðindum árið 1948, að hann hefði á fyrstu árum útvarpsins tekið sig til og lesið um fimm hundruð hlustendabréf. Segir hann, að eftir lestur bréfanna hafi lengi lagst 6martröð á sál hans &, slíkri óvild, jafnvel hatri, í garð góðrar tónlistar stafaði af bréfunum. Um skeið sagðist Páll hafa verið efins um 6að list listanna ætti nokkurt erindi til þjóðarinnar. Því dásamlegri sem tónlistin var, því meiri skammir fékk hún, því stærri meistarar, því lengra voru þeir sendir út í hin yztu myrkur fordæmingarinnar &.

Fræg er sú saga af umræðum um Sinfóníuhljómsveit Íslands á alþingi, þegar ræðumaður spurði, hvort nauðsynlegt væri að fjölga í hljómsveitinni, einfaldast væri að menn léku bara á fleiri en eitt hljóðfæri ) þeir sætu hvort sem er svo oft og biðu eftir að röðin kæmi að þeim.

Viðhorf af þessu tagi í garð Sinfóníuhljómsveitar Íslands setur ekki lengur svip sinn á umræður alþingismanna um hljómsveitina. Tvö síðustu ár hafa þingmenn þvert á móti samþykkt að fjölga í sveitinni. Á afmælisárinu verða 80 fastráðnir hljóðfæraleikarar í hljómsveitinni og þar með er langþráðu markmiði náð.

Á undanförnum 50 árum hefur það ræst, sem frumkvöðlar sinfóníuhljómsveitarinnar sáu fyrir, að hún yrði styrkasta stoð undir heilbrigt og vaxandi tónlistarlíf í landinu og í raun grundvallarskilyrði þess, að tónlistarlífið þróaðist. Hljómsveitin hefur stuðlað að eflingu tónmenntar og tónsmíða.

Raunar er erfitt fyrir okkur, sem höfum vaxið úr grasi með hljómsveitinni frá því að íslenska lýðveldið var stofnað, að ímynda okkur þjóðfélag okkar án þeirrar víddar sem hljómsveitin hefur skapað. Nú á tímum sívaxandi alþjóðlegrar samkeppni, þegar þjóðfélög keppast við að draga að sér þekkingu og vel menntað fólk, er öflugt tónlistarlíf undir forystu góðrar sinfóníuhljómsveitar mikilvægur liður í að standa vel að vígi.

Fráleitt er að taka mark á úrtölumönnum, sem sjá eftir þeim tiltölulega litla hluta útgjalda ríkis eða sveitarfélaga, sem rennur til Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Á fimmtíu ára ferli sínum hefur hljómsveitin verið rekin undir mismunandi formerkjum. Hún hefði ekki komið til sögunnar fyrir 50 árum nema í skjóli Ríkisútvarpsins og alla tíð hefur leið þessara tveggja menningarstofnana legið saman. Um miðjan sjötta áratuginn, á fimm ára afmælinu, var efnahagurinn orðinn þröngur og þá kom ríkissjóður fyrst beint að rekstrinum og nafnið Sinfóníuhljómsveit Íslands til sögunnar.

Þegar frumvarp til laga um Sinfóníuhljómsveit Íslands var til umræðu á alþingi 1982 komst einn þingmanna svo að orði, að í raun og sannleika væri athyglisvert, að í 32 ár skyldi vera eingöngu munnlegt samkomulag um rekstur sinfóníuhljómsveitarinnar. Það væri enginn skriflegur samningur til að baki hljómsveitinni og hann hefði aldrei verið gerður.

Lögin sem samþykkt voru 1982 eru enn í gildi óbreytt. Þau hafa meðal annars verið skýrð á þann veg, að sjálfstæði hljómsveitarinnar sé meira en venjulegra ríkisstofnana enda standa Ríkisútvarpið, Reykjavíkurborg og Setjarnarnesbær að baki henni með ríkinu. Vona ég, að sú góða samvinna megi haldast sem lengst.

Þegar tekið var á málum hljómsveitarinnar um miðjan sjötta áratuginn var Ragnar Jónsson í Smára kallaður á vettvang með ýmsum öðrum góðum mönnum.

Ragnar var einn af forvígismönnum Tónlistarfélagsins, en félagið stóð eins og klettur með hljómsveitinni. Strax árið 1943 gaf félagið út Passíusálma Hallgríms Péturssonar í hátíðarútgáfu í eitt þúsund tölusettum eintökum og skyldi ágóðinn af útgáfunni renna í byggingarsjóð væntanlegrar Tónlistarhallar í Reykjavík og voru nöfn kaupenda færð í sérstaka bók, ásamt nöfnum þeirra, er á annan hátt styrktu þetta málefni.

Já, góðir áheyrendur, það var þegar árið 1943, sem framsýnir menn voru farnir að safna fé fyrir Tónlistarhöll í Reykjavík, þó gerðist það ekki fyrr en í janúar árið 1999 að ríkisstjórn Íslands og borgarstjórn Reykjavíkur lýstu í fyrsta sinn þeim sameiginlega ásetningi sínum að reisa slíka höll í Reykjavík. Síðan hefur verið unnið markvisst að málinu undir forystu fulltrúa þriggja ráðuneyta og borgarstjórnar. Hefur húsinu verið valinn fagur staður í miðborg Reykjavíkur og nú hefur hafnarstjórn afmarkað hann með samþykkt, sem kynnt er í dag. Enn finnast þeir þó, sem skammast með fordæmingu, þegar rætt er um góðan og viðunandi samastað fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ég lít á það sem eitt mikilvægasta hlutverk mitt í þágu hljómsveitarinnar um þessar mundir að fylgja eftir kröfunni um tónlistarhöllina.

Ég hef farið fljótt yfir mikla sögu, sem lýsir glæsilegum árangri. Hann hefði aldrei náðst nema fyrir ótrúlega mikið og oft á tíðum fórnfúst starf hljóðfæraleikaranna, sem skipað hafa hljómsveitina frá öndverðu, og þeirra, sem valist hafa til forystu fyrir sveitina. Vil ég þá sérstaklega nefna Jón Þórarinsson tónskáld.

Án góðra, íslenskra hljóðfæraleikara hefði engum dottið í hug að stofna hér sinfóníuhljómsveit. Margir góðir erlendir liðsmenn hafa einnig skipt miklu fyrir hljómsveitina í áranna rás. Á þessum tímamótum stenst hljómsveitin alþjóðlegan samanburð með einstökum hætti. Minnumst þess að ekkert er sjálfgefið í þessu efni frekar en öðru.

Starf allra þeirra sem mótað hafa Sinfóníuhljómsveit Íslands í hálfa öld verður aldrei fullþakkað en ávöxt þess má ekki aðeins sjá í einstaklega blómlegu tónlistarlífi heldur hinu góða menningarlega umhverfi, sem okkur Íslendingum hefur tekist að skapa á undanförnum 50 árum.

Ég flyt Sinfóníuhljómsveit Íslands innilegar hamingjuóskir á fimmtíu ára afmælinu. Vil ég biðja viðstadda að lyfta glasi og hrópa ferfalt húrra fyrir hljómsveitinni og glæsilegri framtíð hennar.