28.12.2021 9:35

RÚV: stafrænt menningarminjasafn

Ráðherrann viðurkennir að starfsumhverfið sé í uppnámi vegna öflugs fjárfreks ríkismiðils og ójafnvægis í skattheimtu. Það er vissulega mikilvægt skref til lausnar en tillögur um hana skortir.

Því miður hefur hefur ekki tekist undir forystu Lilju D. Alfreðsdóttur menningarmálaráðherra að skapa neina sátt um fjölmiðlastarfsemi í landinu. Í samtali við Morgunblaðið í dag (28. desember) segir ráðherrann að hún ætli „á næstu mánuðum gera mjög ákveðna atlögu sem miðar að því að bæta rekstrarumhverfi“ fjölmiðla enda sé framtíð þeirra í húfi. þeirra. Nefnir hún breytingu á stöðu ríkisútvarpsins (RÚV) á auglýsingamarkaði, verði umsvif þess þrengd verði að bæta RÚV tapið. Þá verði að breyta skattlagningu til að „skapa jafnvægi í rekstrarumhverfi milli innlendra fjölmiðla og félagsmiðla og erendra streymisveitna“. Segist hún leggja mikla áherslu á að fjármálaráðherra bæti úr því.

Þótt fjármálaráðherra bregðist við þessu ákalli gerist ekkert raunhæft á þessum vettvangi nema ráðherra málaflokksins sjálfs móti og leggi fram heildstæða stefnu. Bútasaumur dugar ekki fyrir þessa starfsgrein frekar en aðrar. Ráðherrann viðurkennir að starfsumhverfið sé í uppnámi vegna öflugs fjárfreks ríkismiðils og ójafnvægis í skattheimtu. Það er vissulega mikilvægt skref til lausnar en tillögur um hana skortir.

Flaunt-mirror_room_26Hér var bent á þingsályktunartillögu Bergþórs Ólasonar, þingmanns Miðflokksins, um að skattgreiðendur gætu á framtali sínu valið hvort fjölmiðla-nefskatturinn rynni til RÚV eða einhvers annars miðils. Umræður urðu um tillöguna á þingi 9. desember, auk flutningsmannsins Bergþórs tók Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, fyrrv. starfsmaður RÚV, til máls.

Sigmar sagði:

„Hvort við myndum stilla Ríkisútvarpinu upp eins og það er ef við værum að stofnsetja það í dag er ég ekkert endilega viss um, en það er þá eitthvað til að taka til umræðu innan stofnunarinnar frekar en að fara þá leið sem hér er lögð til.“

Bergþór benti á að það væri einmitt hlutverk löggjafans að ræða þetta því að RÚV starfaði á grundvelli laga. Vissulega skipti máli hvað menn vildu innan dyra í RÚV en lokaákvörðun væri alþingis.

Sigmar sagði fréttahlutverk og fréttaþjónustu RÚV vissulega skipta miklu en eftir að hafa starfað í langan tíma á miðlinum vissi hann að menningarhlutverkið og miðlun á öðru en fréttaefni væri „alveg ótrúlega stór og mikill hluti af starfseminni“. Að búa til mikilvægt menningarefni, skrásetja söguna og halda utan um þetta allt fyrir komandi kynslóðir kallaði á mannafla, tæki og útgjöld. Þótt RÚV hefði yfirburðastöðu á íslenskan mælikvarða þyrfti hana til að skrásetja söguna, halda utan um menningararfinn og framleiða allt það mikla menningarefni sem þarna er framleitt.

Hér er vissulega lýst brýnu og mikilvægu verkefni. Er ekki réttmætt að takmarka hlutverk ríkisins á fjölmiðlamarkaði við það? Skylda það til að reka stafrænt menningarminjasafn með aðgengi fyrir alla? Endurvekja menningarsjóð útvarpsstöðva og hvetja sem flesta til að framleiða samtímaefni fyrir safnið?

Hér er hugmynd sem menningarmálaráðherrann ætti að skoða.