13.12.2021 9:33

Máttlaust, dýrt almannútvarp

Það er ekki að undra að stjórnendur annarra miðla í keppni við RÚV telji þennan fjáraustur „óskiljanlegan“. Raunar ættu þeir sem verða að gera sér þjónustu RÚV að góðu að vera sömu skoðunar.

Í frétt Morgunblaðsins í dag (13. desember) segir að fyrir alþingi liggi tillaga í fjárlagafrumvarpinu um að framlög til RÚV verði aukin um 430 milljónir króna milli ára. Þau námu 4,655 milljörðum króna á árinu 2021, en verði frumvarpið samþykkt óbreytt munu framlög úr ríkissjóði til RÚV árið 2022 alls nema 5,085 milljörðum króna, sem er liðlega 9% hækkun milli ára. Gert er ráð fyrir að framlögin haldi áfram að hækka á næstu árum, um 4% á ári.

Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir styrk til einkarekinna fjölmiðla, alls 384,3 milljónum króna, sem er um 2% lækkun frá því sem er í ár. Gert er ráð fyrir að sá styrkur muni áfram lækka á komandi árum.

Lilja D. Alfreðsdóttir, Framsóknarflokki, ber pólitíska ábyrgð á fjárveitingum til RÚV sem menningarmálaráðherra í núverandi og fyrrverandi ríkisstjórn. Í stjórnarsáttmálanum sem kynntur var 28. nóvember 2021 er á tveimur stöðum minnst á „öflugt almannaútvarp“ en þar er vísað til RÚV. Ekki er í sáttmálanum skilgreint hvað felst í orðinu „öflugt“ en leiða má líkum að því að þar búi að baki fyrirheit um samfelldar, árlegar hækkanir á greiðslum skattgreiðenda til RÚV samhliða því sem tekjur þess af auglýsingum séu óskertar en þær eru sagðar nema frá einum milljarði til 1600 milljarða á ári.

Það er ekki að undra að stjórnendur annarra miðla í keppni við RÚV telji þennan fjáraustur „óskiljanlegan“. Raunar ættu þeir sem verða að gera sér þjónustu RÚV að góðu að vera sömu skoðunar vegna þess hve henni hnignar þrátt fyrir óstöðvandi fjárstreymið og einkennist sífellt meira að endurteknu efni. Metnaðarleysið magnast eftir því sem minna þarf að leggja á sig til að fá greitt fyrir það.

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, hefur endurflutt tillögu til þingsályktunar um „að hverjum og einum greiðanda útvarpsgjalds skuli heimilt að ráðstafa allt að þriðjungi gjaldsins til annarra fjölmiðla en Ríkisútvarpsins eins og hann kýs“.

Index_1639387981723Gjaldið er nefskattur sem enginn skattskyldur aðili kemst undan að greiða. Skiptir þá engu hvort hann getur notað fjölmiðlaþjónustu RÚV, hvort hann sættir sig við hana eða hvort hann skilur hana yfirleitt eins og Bergþór segir í greinargerð með tillögu sinni og einnig:

„Nefskattur á borð við útvarpsgjald þekkist nú þegar í lögum um sóknargjöld. Þar er kveðið á um að þjóðkirkjusöfnuðir og skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög samkvæmt lögum um þau skuli eiga ákveðna hlutdeild í tekjuskatti sem lagður er á samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt. Er það val skattgreiðenda til hvaða safnaðar gjaldið rennur. Ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að útfæra útvarpsgjaldið á svipaðan hátt, t.d. þannig að skattskyldur aðili tilgreini á skattframtali hverju sinni hvert hann vill beina hluta útvarpsgjaldsins.“

Þarna er viðruð hugmynd sem meirihluti þingmanna ætti að styðja. Núverandi staða leiðir aðeins til dýrara og máttlausara almannaútvarps þvert á stefnu ríkisstjórnarinnar.