19.2.2022 11:30

Rétt skref forseta Íslands

Undarlegt er hve grunnt er á þörf fyrir að kyssa á vöndinn þegar Rússar eru annars vegar. Þar vega fjárhagslegir hagsmunir þungt hjá sumum.

Úkraínuforseti hvatti þjóð sína til staðfesta einhug sinn og varðstöðu um þjóðmenningu sína, sjálfstæði og fullveldi miðvikudaginn 16. febrúar. Í tilefni dagsins setti Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, kveðju til Úkraínuforseta og allra Úkraínumanna á Twitter og minnti á Ísland stæði með bandalagsríkjum sínum innan NATO og hvatti Rússa til að rifa seglin og virða fullveldi og friðhelgi landamæra Úkraínu. Á vefsíðunni forseti.is má sjá þakkir forseta Úkraínu.

Vinarkveðja forseta Íslands varð rússneska sendiráðinu í Reykjavík tilefni mótmæla. Sendiráðið fór einnig gagnrýnisorðum um skoðun Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra á umsátri Rússa um Úkraínu.

Í Fréttablaðinu í dag (19. febrúar) er rifjað upp að kveðja Guðna til Úkraínumanna sýni allt annað viðhorf en birtist hjá Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, snemma árs 2014 þegar Rússar innlimuðu Krímskaga og hófu hernað í austurhluta Úkraínu sem síðan hefur kostað um 15.000 manns lífið.

Í blaðinu er rætt við Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við HÍ, sem segir að árið 2014 hafi Ólafur Ragnar veigrað sér við að gagnrýna Rússa til þess, að sögn, að halda góðu talsambandi við Kreml.

Rifjað er upp að á ráðstefnu Nordland-háskóla í Bodø í Noregi, í mars 2014, þegar Rússar hernámu Krímskaga, hafi Ólafur Ragnar sett ofan í við Ingvild Næss Stub, aðstoðarutanríkisráðherra Noregs, fyrir að nota ráðstefnuna til að gagnrýna athafnir Rússa í Úkraínu. Um þetta atvik var rætt hér á síðunni í mars 2014 sjá :

Baldur segir að Guðni taki allt annan pól í hæðina en Ólafur Ragnar. Núverandi forseti hafi sagt að „hann fylgi stefnu íslenskra stjórnvalda í utanríkismálum og sýnir í verki að hann gerir það,“ segir prófessorinn. Ólafur Ragnar hafi á hinn bóginn farið eigin leiðir.

„Það sem gerist hins vegar þegar hann [Guðni] stígur inn með þessum hætti, er að Ísland öðlast meiri vigt í bandalagi vestrænna þjóða, en Guðni hefði ekkert þurft að gera þetta. En þetta sýnir vel að það skiptir máli hvað forseti Íslands gerir og segir,“ segir Baldur Þórhallsson réttilega.

220113_Jones_UkraineRussia_Map1_0Kort frá bandarísku hugveitunni CSIS sýnir hvernig rússneska hernum kann að verða beitt við innrás í Úkraínu.

Undarlegt er hve grunnt er á þörf fyrir að kyssa á vöndinn þegar Rússar eru annars vegar. Þar vega fjárhagslegir hagsmunir þungt hjá sumum. Horft er fram hjá því hvílíkt pólitískt, efnahagslegt og sálrænt tjón hlýst af yfirgangsstefnu Pútins. Að þegja um skaðann af henni til að tryggja talsamband er fyrirsláttur.

Á Facebook-síðu sinni í dag segir Baldur Þórhallsson:

„Það gæti stefnt í svo hræðilega atburði i Úkraínu að mig undrar að fleiri íslenskir stjórnmálamenn skuli ekki fjalla um ástandið og taka þátt í umræðunni hér á landi sem og erlendis. Ef rússneski herinn ræðst inn í Úkraínu gætum við horft upp á mestu hörmungar í Evrópu frá því í seinni heimsstyrjöldinni. Þúsundir almennra borgara og hermanna gætu fallið. Hundruð þúsunda flóttamanna gætu streymt til Vestur Evrópu. Ísland myndi ekki fara varhluta af því.“

Orð í tíma töluð!