30.5.2022 10:46

Ræktarsemi milli frænda

Allt eru þetta brot af aldalangri samskiptasögu okkar og Norðmanna sem ber að leggja rækt við og varðveita á mörgum sviðum.

Í Morgunblaðinu í dag segir Lilja Hrund Ava Lúðvíksdóttir blaðamaður frá þvi að Aud Lise Norheim, sendiherra Noregs, hefði boðið til sín gestum síðdegis sunnudaginn 29. maí til að fagna Petter Jonny Rivedal, Ninu Kilen Rivedal, konu hans, og dóttur þeirra sem eru á leið til Siglufjarðar með það sem við köllum síðustu norsku síldartunnuna.

Norski sendiherrann og Ingibjörg Davíðsdóttir, sendiherra Íslands í Noregi, hafa unnið að því og skipulagt allt varðandi flutning tunnunnar og þar með rætast áform sem kviknuðu þegar við Petter Jonny hittumst 25. júní 2008 og hann sýndi mér tunnuna í kjallaranum hjá sér. Að loknu ávörpum sendiherranna og Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra sagði ég frá því hvernig ég kem að þessu máli og má lesa það hér og loks sagði Hallgrímur Helgason rithöfundur frá bókum sínum sem tengjast síldveiðum Norðmanna og Siglufirði. Sagði hann tvö bindi enn ókomin.

Í frásögn Lilju Hrundar segir að Petter Jonny hafi, auk þess að varðveita síðustu síldartunnuna, árum saman haft umsjón með styttunni af Ingólfi Arnarsyni og umhverfi hennar í Rivedal og flaggað fánum bæði Íslands og Noregs á hátíðisdögum. Þá segir Petter Jonny söguna af síldartunnunni:

Árið 1986 þegar flutningaskipið Suðurland, sem var síðasta skipið sem náði í tunnufarm til Íslands til tunnuverksmiðjunnar í Dale, sigldi úr höfn í Dalsfirði með fullan farm af síldartunnum féll tunna fyrir borð.

Tunnuna rak á land og tók Petter Jonny hana til handargagns. Hann telur að þetta hafi verið næstsíðasta ferð Suðurlands, en í síðustu för skipsins á jólanótt 1986 fórst það miðja vegu milli Íslands og Noregs með fullan farm af íslenskri síld. Sex skipverjar fórust en fimm var bjargað.

100_2600_1653907234558Við styttuna af Ingólfi Arnarsyni í Rivedal 25. júni 2008. Lengst til vinstri á myndinni eru hjónin Nina Kilen og Petter Jonny Rivedal.

Í frásögn blaðsins segir að Hermann Ingólfsson, þáverandi sendiherra Íslands í Noregi, hafi árið afhent 2019 Petter Jonny viðurkenningarskjal við styttuna af Ingólfi þar sem honum er þakkað framlag hans til að varðveita söguleg tengsl Íslands og Noregs. Petter Jonny hefur þó ekki komið til Íslands fyrr að þessu sinni.

Síldarminjasafnið í Siglufirði tekur við tunnunni til varðveislu við hátíðlega athöfn þriðjudaginn 31. maí. Á leið sinni norður hafa þau Petter Jonny meðal annars viðdvöl í Reykholti og kynna sér sameiginlegan menningararf okkar og Norðmanna þar sem Snorri Sturluson bjó.

Allt eru þetta brot af aldalangri samskiptasögu okkar og Norðmanna sem ber að leggja rækt við og varðveita á mörgum sviðum. Síldveiðar þeirra opnuðu augu okkar fyrir mikilli auðlind, sömu sögu er að segja um hvalveiðarnar og nú laxeldið.

Við höfum þó ekki fetað í fótspor þeirra við olíuleit og vinnslu. Þar halda þeir ótrauðir áfram og ríkisolíufyrirtæki þeirra, Equinor, vinnur nú að vinnsluheimild á Wisting-svæði nyrst í Barentshafi, þar sem vinnsla á 500 milljónum tunna gæti hafist árið 2028 og staðið í 30 ár.

Á sama tíma stendur til stendur til að leggja hér „bann við því að veita leyfi til leitar, rannsókna og vinnslu kolvetnis (olíu) í efnahagslögsögunni“ eins og segir í nýju frumvarpi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.