16.3.2018 9:29

Pútín-Rússlandi mætt af meiri hörku

Stjórn Donalds Trumps hefur ekki fyrr gripið til svo harkalegra aðgerða gegn stjórnvöldum í Moskvu.

Það hefur verið undarlegt að lesa fullyrðingar hér á landi og annars staðar um að ekkert hafi komið fram sem sýni að Rússar höfðu ólögmæt afskipti af bandarísku forsetakosningunum á árinu 2016. Nefndi ég þetta í grein í Morgunblaðinu á dögunum sem má lesa hér .

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur hamrað á því að rannsókn Roberts Muellers, sérstaks saksóknara, sýni að ekki hafi verið neitt leynimakk milli kosningastjórnar sinnar og Rússa. Mueller hefur einfaldlega ekki lokið rannsókn á þessum þætti málsins.

Mueller ákærði hins vegar 13 Rússa í febrúar. Nú hefur Bandaríkjastjórn ákveðið að grípa til sérstakra refsiaðgerða gegn þeim og sex Rússum að auki. Steven Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, sakaði Rússana fimmtudaginn 15. mars um „eyðileggjandi tölvuárásir og fyrir að ryðjast inn í mikilvæga innviði“. Með aðgerðunum væri snúist gegn „stöðugum glæpsamlegum árásum“ Rússa.

Robert Mueller, sérstakur saksóknari Bandaríkjastjórnar vegna glæpaverka Rússa.

Stjórn Donalds Trumps hefur ekki fyrr gripið til svo harkalegra aðgerða gegn stjórnvöldum í Moskvu.

Þá hefur nettröllasmiðjan Internet Research Agency í St. Pétursborg einnig verið sett á svartan lista Bandaríkjastjórnar. Auðmaðurinn Jevgeníj Prigozhin, kallaður „kokkur Pútíns“ og eigandi smiðjunnar og 12 starfsmenn hennar eru á bannlistanum.

Í The New York Times var skýrt frá því fimmtudaginn 15. mars að Mueller hefði óskað eftir því við Trump-stofnunina að hún léti sér í té gögn vegna viðskipta Donalds Trumps, þar á meðal við Rússa. Þetta eru fyrstu fréttir um að Mueller og menn hans hafi snúið sér sérstaklega að umsvifum forsetans á viðskiptasviðinu. Þar er meðal annars um að ræða ferð Trumps til Moskvu árið 2013 til að vera við Miss Universe-keppnina, fyrir þátttökuna fékk Trump greiddar 20 milljónir dollara.

Þá grobbaði Trump sig af því að hafa hitt Vladimir Pútín Rússlandsforseta og fór lofsamlegum orðum um „undraverða“ forystuhæfileika hans og sagði sigri hrósandi: „Ég hef stofnað til sambands við hann.“ Síðan hefur Trump hvað eftir neitað að þeir hafi hist. Um rannsókn Muellers hefur Trump sagt að hann dragi „rauða línu“ um viðskiptaumsvif sín án þess að tilgreina hvað gerist ef Mueller fer yfir línuna.

*

Á sínum tíma sagðist Barack Obama draga „rauða línu“ gegn efna- og eiturvopnum í Sýrlandi og gerði svo ekkert þegar Sýrlendingar fóru yfir hana. Bretar brugðust einnig við á tiltölulega léttvægan hátt árið 2006 þegar Rússar drápu Alexander Litvinenko, fyrrv. rússneskan njósnara, með eitri í London. Breskir stjórnmálamenn fóru undan í flæmingi og efndu ekki til sjálfstæðrar rannsóknar í málinu fyrr en árið 2014 eftir að farþegavélinni MH17 hafði verið grandað með rússnesku flugskeyti yfir austurhluta Úkraínu.

Rússar hafa komist upp með eiturefnaárásir og tölvuárásir án þess að þeim sé refsað.  Viðbrögð bresku stjórnarinnar nú við eiturárásinni í Salisbury sýna að breyting hefur orðið. Nýr kafli er hafinn í samskiptasögunni við Pútín-Rússland.