23.2.2018

Rússnesk nettröll gegn Hillary

Morgunblaðið 23. febrúar 2018

Ákæruskjal bandaríska dómsmálaráðuneytisins gegn Rússunum 13 og netstofunum þremur sem stóðu að baki aðför þeirra að bandarísku stjórnmálalífi á árunum 2014 til 2016 vekur undrun vegna bíræfninnar sem þar er lýst: Að svo skipulega skyldi unnið gegn Hillary Clinton, fyrst í prófskjörsbaráttu innan Demókrataflokksins við Bernie Sanders og síðan í forsetakosningabaráttunni sjálfri við Donald Trump.

Hver er skýringin? Einfalda svarið er að Vladimír Pútín Rússlandsforseti hafi einsett sér að hindra að Hillary næði kjöri vegna stuðnings hennar við mótmæli í Rússlandi árin 2011og 2012. Þá var hart sótt að Pútín á mótmælafundum með ásökunum um svik í þingkosningum árið 2011 og forsetakosningum 2012.

Rod J. Rosenstein varadómsmálaráðherra kynnti 37 bls. ákæruskjalið á stuttum blaðamannafundi í Washington föstudaginn 16. febrúar. Þar má finna dæmi um auglýsingar sem Rússar kostuðu og birtust í bandarískum samfélagsmiðlum frá apríl til október 2016. Þær eru gegn Hillary Clinton og til stuðnings Donald Trump. Þar eru textar eins og þessir: „Donald vill sigra hryðjuverkamenn ... Hillary vill styðja þá.“ „Hillary á ekki skilið að blökkumenn kjósi hana.“ „Trump er eina von okkar um betri framtíð.“ „Donald Trump er sá aleini meðal allra frambjóðenda sem getur varið lögregluna gegn hryðjuverkamönnum“ og „Hillary er Satan og glæpir hennar og lygar hafa sannað hvílíkt illmenni hún er.“

Stjórnað frá St. Pétursborg


Í ákæruskjalinu segir að aðgerðum hafi verið stjórnað frá skrifstofu í St. Pétursborg í Rússlandi sem heitir Internet Research Agency, Netrannsóknastofan. Réttnefni er þó Nettröllastofan. Nettröll eru þeir sem sigla undir fölsku flaggi í netheimum og blanda sér í umræður á samfélagsmiðlum eins og Facebook til að valda uppnámi, koma illu af stað eða einfaldlega til að flytja áróður undir dulnefni. Tröllin eru skaðræðisgripir. Í þessu tilviki komu þau frá útlöndum til að vega að lýðræðislegum stjórnarháttum. Það er refsivert í Bandaríkjunum.

Stofan í St. Pétursborg réð yfir milljónum dollara. Hún sendi ekki aðeins nettröll á vettvang heldur einnig ekta Bandaríkjamenn sem borgað var fyrir að efna til mótmæla eða ganga fram fyrir skjöldu á mannamótum. Einn þessara Bandaríkjamanna fékk það einkennilega verkefni að standa með spjald fyrir framan Hvíta húsið 29. maí 2016, á því stóð: „Til hamingju með 55 ára afmælið, kæri forstjóri.“ Var manninum sagt að spjaldið væri fyrir mann sem væri „leiðtogi hér, forstjóri okkar ... stofnandi okkar“.

Jevgjeníj Viktorovitsj Prigozhin stjórnaði stofunni í St. Pétursborg. Hann varð 55 ára 1. júní 2016. Prigozhin er gjarnan kallaður „kokkur Pútíns“ vegna þess hve oft Pútín nýtir veitingastaði hans fyrir opinbera kvöldverði. Á rússnesku fréttasíðunni Meduza er sagt að hann hafi setið níu ár í fangelsi fyrir tilraun til ráns og vændissölu. Þegar hann opnaði veitingastaðinn Staraja Tamozhnja í St. Pétursborg árið 1996, einn þeirra bestu í borginni, skapaði hann tengsl við elítuna þar. Pútín bauð árið 2001 Jacques Chirac Frakklandsforesta til kvöldverðar á  veitingastað í eigu Prigozhins, þjónaði eigandinn forsetunum til borðs.

Prigozhin varð síðar vellríkur á að elda ofan í rússneska herinn. Þeim viðskiptum lauk með lögum gegn útvistun árið 2013. Sama ár kom Nettröllastofan til sögunnar. Rússneskir fjölmiðlar vissu um tengsl Prigozhins við hana þótt annar væri skráður forstjóri. Upphaflega gegndi stofan aðeins einu hlutverki: að senda jákvæðar færslur um Pútín og ríkisstjórnina á samfélagsmiðla. Andstæðingar Pútíns fengu það óþvegið. Fjölmiðlar segja að starfsmenn í stofunni hafi orðið allt að 400.

Þaulskipulögð afskipti


Að rússnesk stjórnvöld fylgdust náið með forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2016 kemur engum á óvart. Að afskipti Rússa voru svo viðamikil og þaulskipulögð vekur undrun. Stofan í St. Pétursborg sendi til dæmis konur í ferð um Bandaríkin til að safna upplýsingum og mynda tengsl við félagslega og pólitíska aðgerðasinna. Á grundvelli upplýsinga sem þannig var aflað ákváðu Rússar að einbeita sér að „rauðfjólubláum“ ríkjum, það er ríkjum þar sem mjótt yrði á munum milli forsetaframbjóðendanna.

Í St. Pétursborg störfuðu menn í deildum innan Nettröllastofunnar sumir sinntu gagnagreiningu, aðrir hámarksnýtingu leitarvéla og enn aðrir gerð myndskeiða og útlitshönnun. Þar sátu einnig vígreifir menn við lyklaborðin og sóttu fram á vefsíðum og samfélagsmiðlum í Bandaríkjunum. Öllu er þessu lýst í ákæruskjalinu og sagt að 80 starfsmenn hafi ekki gert neitt annað en að sinna samfélagsmiðlum, allir hafi þeir þóst vera Bandaríkjamenn með aðsetur innan Bandaríkjanna. Þeir unnu á vöktum í St. Pétursborg og tók vinnutíminn mið af bandarískum tíma og frídögum. Þeir einbeittu sér að Facebook og mynduðu hópa með nöfnum sem ætlað var ýta undir sundrung í bandarísku þjóðlífi eins og Sameinaðir múslimar Ameríku og Hermenn Jesús. Þetta voru gervisamtök í þjónustu Rússa.

Trump hlífir Rússum


Árlega öryggisráðstefnan í München stóð yfir þegar bandaríska dómsmálaráðuneytið birti ákæruna. Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, hafnaði henni þar sem „blaðri“ og „hugarburði“ laugardaginn 17. febrúar. „Á meðan við sjáum ekki staðreyndirnar er allt annað blaður,“ sagði utanríkisráðherrann.

HR McMaster, þjóðaröryggisráðgjafi Trumps, var einnig í München. Hann sagði ákæruskjalið taka af allan vafa um að ásakanir í garð Rússa um afskipti af kosningunum væru sannar. Lagðar hefðu verið fram „óhrekjanlegar“ sannanir um athafnir Rússa. Þá hefði rannsóknin sýnt að bandarísk stjórnvöld öðluðust sífellt meiri hæfni til að rekja upphaf njósna og undirróðurs. Hann sagði að Rússar ættu að hugsa sinn gang því að þeir hefðu ekki erindi sem erfiði.

Donald Trump var í Flórída þessa helgi. Hann minntist fórnarlamba skotárásar í nágrenni við sig og fór ekki á golfvöllinn en lét því meira að sér kveða á Twitter.

Forsetinn brást reiður við ákærunni laugardaginn 17. febrúar og sunnudaginn 18. febrúar. „Þeir hlæja sig máttlausa í Moskvu,“ sagði hann. Forsetinn mótmælti ekki framgöngu Rússa. Hann gagnrýndi hins vegar ræðu öryggisráðgjafa síns í München, McMaster hershöfðingi hefði gleymt að taka fram að Rússar hefðu ekki haft áhrif á úrslitin í kosningunum 2016, „eina leynimakkið var milli Rússa og óheiðarlegu H,“ sagði forsetinn. Þarna stendur H fyrir Hillary.

Sérstaki saksóknarinn Robert Mueller og menn hans hafa lokið einum áfanga Rússarannsóknarinar. Ákæruskjalið snýst um skipulega pólitíska netherferð Rússa í bandarískri kosningabaráttu. Að Bandaríkjaforseti hvetji ekki til varðstöðu gegn erlendri íhlutun af þessu tagi er stórundarlegt.