26.2.2023 10:45

Örlög kóngsbænadagsins ráðast

Við stjórnarmyndun í Danmörku í byrjun desember 2022 var ákveðið að afnema einn helgidag sem síðar kom í ljós að væri kóngsbændagurinn.

Á aðfangadag 2022 birti ég grein í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni: Sérstaða vegna kóngsbænadags (d. store bededag) sem hefði verið heimasmíðaður í Danmörku. Kristján 5. fyrirskipaði árið 1686 að hann skyldi haldinn hátíðlegur í kirkjum fjórða föstudag eftir páska. Upphaflegur tilgangur dagsins var að tryggja að fólk kæmi ódrukkið til kirkju og bæðist fyrir, fasta hófst klukkan 18.00 daginn áður. Dagurinn festist í sessi í Danmörku, Færeyjum (dýri biðidagur) og Grænlandi (tussiarfissuaq).

Christian_V_of_DenmarkKristján V. (1646-1699) konungur Danmerkur 1670-1699 innleiddi kóngsbænadaginn 1686.

Hér mæltist dagurinn illa fyrir og var kallaður kóngsbænadagurinn. Í heitinu birtist sá misskilningur að dagurinn væri helgaður bænum fyrir konungi þótt fyrir honum væri beðið í hverri messu. Mörgum þótti líka óbærilegt að neyðast til að svelta. Til varð þessi vísa: Innan sleiki ég askinn minn/ekki er fullur maginn. /Kannast ég við kreistinginn/kóngs- á bænadaginn. Var dagurinn afnuminn sem helgidagur hér með lögum 1893 að frumkvæði tveggja bænda á alþingi. Minningin um daginn lifir þó enn innan íslensku þjóðkirkjunnar. Biskup ákvað um miðja síðustu öld að innleiða almennan bænadag og er hann fimmti sunnudagur eftir páska, á svipuðum tíma og kóngsbænadagurinn forðum.

Við stjórnarmyndun í Danmörku í byrjun desember 2022 var ákveðið að afnema einn helgidag sem síðar kom í ljós að væri kóngsbændagurinn eða stórbeðudagurinn eins og hann var einnig nefndur hér á landi.

Þetta er ekki fyrsta tilraunin í Danmörku til að hrófla við kóngsbænadeginum, heimatilbúna danska helgideginum. Það hefur meðal annars verið reynt árangurslaust við gerð kjarasamninga. Nú er markmið ríkisstjórnarinnar að spara fé með brotthvarfi frí- og helgidagsins til að standa undir auknum útgjöldum til varnarmála vegna innrásar Rússa í Úkraínu.

Á ruv.is í dag, 26. febrúar, má lesa frétt um að deilurnar vegna afnáms kóngsbænadagsins séu svo harðar að danski umhverfisráðherrann Magnus Heunicke hafi ákveðið að fresta fyrirhugaðri ferð sinni til Indlands. Stjórnarandstaðan krefjist þess „að þingheimur allur, þar á meðal ráðherrar, greiði atkvæði um tillögu ríkisstjórnarinnar“.

Þetta með kröfu stjórnarandstöðunnar hefði átt að orða öðru vísi til að gefa rétta mynd af stöðunni á danska þjóðþinginu. Hún er sú að þar gildir almenn sátt milli stjórnar- og stjórnarandstöðu um það sem Danir kalla clearingaftale og þekkist hér eins og á öðrum þingum, að sé einhver stjórnarliði löglega forfallaður við atkvæðagreiðslu fækki stjórnarandstaðan um einn í sínu liði.

Nú um helgina tilkynntu dönsku stjórnarandstöðuflokkarnir: Enhedslisten, SF, Danmarksdemokraterne, Dansk Folkeparti og Nye Borgerlige að allir þingmenn þeirra myndu greiða atkvæði gegn afnámi kóngsbænadagsins. Þingmenn Radikale venstre ætla á hinn bóginn að greiða atkvæði með afnámi dagsins þótt þeir séu í stjórnarandstöðu. Að konservatívir skipi sér með vinstri mönnum í Enhedslisten og SF þykir ósennilegt.

Framtíð kóngsbænadagsins er lýst sem svo mikilvægu grundvallarmáli í dönsku þjóðlífi að öllum þingmönnum beri skylda til að þrýsta á atkvæðahappinn við lokaafgreiðsluna þriðjudaginn 28. febrúar. Það lifir enn gömlum menningar- og trúarglæðum í Danmörku. Brotthvarf þessa helgidags virðist þó ráðið.