24.12.2022

Sérstaða vegna kóngsbænadags

Morgunblaðið, aðfangadagur 24. desember 2022

Ann­ar jóla­dag­ur er eini lög­boðni frí­dag­ur launþega um hátíðirn­ar að þessu sinni. Fyr­ir utan sunnu­daga er eng­inn ann­ar rauður dag­ur í almanak­inu nú um þessi jól og ára­mót.

Þriðji í pásk­um, jól­um og hvíta­sunna voru al­menn­ir frí­dag­ar hér þar til breyt­ing var gerð á dönsku helgi­daga­lög­gjöf­inni 1771 í tíð Kristjáns 7. Voru þess­ir dag­ar og þrett­ándi dag­ur jóla af­helgaðir að til­lögu nefnd­ar sem kom til sög­unn­ar áður en Johann Friedrich Stru­en­see (1737-1772), þýsk­ur líflækn­ir kon­ungs, varð raun­veru­leg­ur stjórn­andi rík­is­ins.

Al­menni bænadag­ur­inn (d. store bededag) var heima­smíðaður í Dan­mörku. Kristján 5. fyr­ir­skipaði árið 1686 að hann skyldi hald­inn hátíðleg­ur í kirkj­um fjórða föstu­dag eft­ir páska. Upp­haf­leg­ur til­gang­ur dags­ins var að tryggja að fólk kæmi ódrukkið til kirkju og bæðist fyr­ir, fasta hófst klukk­an 18.00 dag­inn áður. Dag­ur­inn fest­ist í sessi í Dan­mörku, Fær­eyj­um (dýri biðidag­ur) og Græn­landi (tussiarf­issu­aq).

Boen-scaledHér mælt­ist dag­ur­inn illa fyr­ir og var kallaður kóngs­bænadag­ur­inn. Í heit­inu birt­ist sá mis­skiln­ing­ur að dag­ur­inn væri helgaður bæn­um fyr­ir kon­ungi þótt fyr­ir hon­um væri beðið í hverri messu. Mörg­um þótti líka óbæri­legt að neyðast til að svelta. Til varð þessi vísa:

Inn­an sleiki ég askinn minn

ekki er full­ur mag­inn.

Kann­ast ég við kreist­ing­inn

kóngs- á bænadag­inn.

Séra Bjarni Sig­urðsson frá Mos­felli skrifaði um af­helg­un kóngs­bænadags­ins hér í blaðið 4. maí 1986, þrjú hundruð árum eft­ir að dag­ur­inn var helgaður. Sr. Bjarni rifjar upp að tveir þing­menn lögðu árið 1893 fram frum­varp um af­nám fimm helgi­daga. Þeir voru ann­ar í pásk­um og hvíta­sunnu, skír­dag­ur, upp­stign­ing­ar­dag­ur og kóngs­bænadag­ur.

Máli sínu til stuðnings töldu flutn­ings­menn að líta bæri til for­dæma frá öðrum þjóðum þar sem þess­ir dag­ar væru ekki helgi­dag­ar, voru Skot­ar nefnd­ir sér­stak­lega til sög­unn­ar. Þá bæri þessa helgi­daga einnig upp á þeim tíma árs þegar þjóðin mætti alls ekki verða af þeirri vinnu og afurðarýrn­un sem fylgdi helgi­hald­inu.

Gagn­rök voru meðal ann­ars þau að helgi­daga mætti nota til margra þarf­legra hluta, til dæm­is til að kynna sér bók­mennt­ir. Fækk­un helgi­daga mundi jafn­framt fækka mess­um víða um land og særa trú­ar­vit­und fólks. Þá bæri að líta til þess að ann­ars staðar væru þjóðir að fjölga hvíld­ar­dög­um og hvíld­ar­stund­um.

Þing­nefnd klofnaði í mál­inu. All­ir vildu af­nema kóngs­bænadag­inn og standa vörð um skír­dag og upp­stign­ing­ar­dag. Meiri hluti nefnd­ar­inn­ar vildi á hinn bóg­inn af­helga bæði ann­an í jól­um og ann­an í hvíta­sunnu.

Við loka­af­greiðslu máls­ins á þingi var samþykkt að af­helga einn dag, kóngs­bænadag­inn. Minn­ing­in um dag­inn lif­ir þó enn inn­an ís­lensku þjóðkirkj­unn­ar. Bisk­up henn­ar ákvað um miðja síðustu öld að inn­leiða al­menn­an bænadag og er hann fimmti sunnu­dag­ur eft­ir páska, á svipuðum tíma og kóngs­bænadag­ur­inn forðum. Í Almanaki Þjóðvina­fé­lags­ins er kóngs­bænadags­ins jafn­an getið.

Í lög­um um frið vegna helgi­halds frá 2019 seg­ir að helgi­dag­ar þjóðkirkj­unn­ar séu sunnu­dag­ar, ný­árs­dag­ur, skír­dag­ur, föstu­dag­ur­inn langi, páska­dag­ur, ann­ar dag­ur páska, upp­stign­ing­ar­dag­ur, hvíta­sunnu­dag­ur, ann­ar dag­ur hvíta­sunnu, aðfanga­dag­ur jóla frá kl. 18, jóla­dag­ur og ann­ar dag­ur jóla. Helgi­dag­arn­ir hafa með öðrum orðum ekki breyst hér á landi frá því að kóngs­bænadag­ur­inn var af­helgaður 1893.

Til­gang­ur helgi­dagalag­anna hef­ur hins veg­ar breyst. Nú er ekki leng­ur mark­mið þeirra að tryggja fólki frið, ró, næði og til­tekna afþrey­ingu á helgi­dög­um þjóðkirkj­unn­ar held­ur að veita sem mest svig­rúm til ver­ald­legra at­hafna án þess að trufla guðsþjón­ustu, kirkju­leg­ar at­hafn­ir eða annað helgi­hald með hávaða eða öðru því sem and­stætt er helgi viðkom­andi at­hafn­ar. Frí­töku­rétt og hvíld­ar­tíma launa­fólks á að tryggja í samn­ing­um stétt­ar­fé­laga við vinnu­veit­end­ur.

Við mynd­un rík­is­stjórn­ar í Dan­mörku fyr­ir rúmri viku var gerð at­laga að ein­um helgi­degi og er al­mennt talið að hann sé stór­beðudag­ur­inn, kóngs­bænadag­ur­inn. Í 60 bls. stjórn­arsátt­mál­an­um er að finna ákvæði um að rík­is­stjórn­in ætli að leggja fram frum­varp um að fækka helgi­dög­um um einn frá og með ár­inu 2024 án þess að laun hækki, tekj­ur af vinnu dags­ins renni til danska hers­ins enda þurfi að efla varn­ir þjóðar­inn­ar vegna stríðsins í Úkraínu.

Var gagn­rýnt að nota sem rök fyr­ir fækk­un helgi­daga að út­gjöld til varn­ar­mála skyldu hækka. Verður næst vegið að skír­degi til að minnka biðlista í heil­brigðis­kerf­inu eða hækka laun hjúkr­un­ar­fræðinga? var spurt. Og einnig hvers vegna rík­is­stjórn­in hefði ekki boðað flutn­ing kóngs­bænadags­ins til föstu­dags­ins eft­ir upp­stign­ing­ar­dag, hann væri þegar orðinn að frí­degi í mörg­um skól­um og bönk­um. Með því hefði rík­is­stjórn­in á mild­ari hátt halað inn dag­laun fyr­ir her­inn.

Upp­námið leiddi til þess að danska stjórn­in dró í land varðandi launa­lausa vinnu­fram­lagið.

Þetta er ekki fyrsta til­raun­in í Dan­mörku til að hrófla við kóngs­bæna­deg­in­um, heima­til­búna danska helgi­deg­in­um. Það hef­ur meðal ann­ars verið reynt ár­ang­urs­laust við gerð kjara­samn­inga. Dag­ur­inn kann að hafa glatað trú­ar­legu gildi sínu eða mark­miðinu um að menn skuli biðjist fyr­ir ódrukkn­ir, hann er hins veg­ar hluti af danska þjóðar­arf­in­um og því er erfitt að hrófla við hon­um, að minnsta kosti bóta­laust.

Hér mistókst árið 1893 að af­helga ann­an jóla­dag og eng­inn stjórn­mála­maður hef­ur reynt það síðan, þess njót­um við nú á mánu­dag­inn. Gleðjumst jafn­framt yfir inn­taki jól­anna, fæðingu frels­ar­ans. Gleðileg jól!