Ólafur Túbals - Aurasel - Drumbabót
Í gær opnaði ég sýningu á um 40 verkum eftir Ólaf Túbals (1897-1964) frá Múlakoti í Fljótshlíð í Sögusetrinu á Hvolsvelli. Fjölmenni var við upphaf sýningarinnar en ræðu mína má sjá hér.
Ræða flutt á sýningu Ólafs Túbals í Sögusetrinu á Hvolsvelli. Ljósm. Sigríður Hjartar
Ef til vill hef ég séð Ólaf Túbals á mínum yngri. Nafn hans var mér vissulega kunnugt þegar ég tók að lesa mér til um æfi hans í samtímaheimildum, blöðum og tímaritum.
Þegar ég sá hve vinsæll Ólafur var, megi til dæmis marka fréttir af sölu verka hans, og hve hann mátti sæta harðri gagnrýni frá öðrum datt mér í hug að stöðu hans í myndlistarheiminum mætti bera saman við hvernig Guðrúnu frá Lundi var tekið í bókmenntaheiminum. Bækur hennar seldust vel þótt þeir sem töldu sig hafa mest menningarvit efuðust margir um listræna gildið.
Nú gengur Guðrún frá Lundi í endurnýjun lífdagana og slegist er um bækur hennar að nýju eins og dæmin sanna. Ef til vill gerist sama um myndverk Ólafs Túbals. Þau eru björt heimild um liðinn tíma. Á sýningunni má meðal annars sjá málverk sem sýnir torfhúsin á Auraseli, horfinn bæ sem stóð á aurunum fyrir neðan Þverá í Fljótshlíð. Bæjarnafnið minnir á að bærinn stóð mitt í illfærum aurum.
Skammt fyrir vestan Aurasel er Drumbabót sem sagt var frá í Morgunblaðinu fimmtudaginn 6. júlí vegna þess að hópi fræðimanna frá nokkrum löndum hefur tekist að tímasetja með nokkurra mánaða nákvæmni Kötlugos sem varð skömmu fyrir landnám á Íslandi, nánar tiltekið frá hausti 822 og fram á vor 823. Rannsökuðu fræðimennirnir leifar af birkiskógi á Þveráreyrum þar sem finna má best varðveittu fornskógaleifar á landinu.
Á svæðinu stendur fjöldi trjádrumba um 20-60 cm upp úr sandi, drápust trén samtímis, árhringurinn næst berkinum myndaðist sama árið á öllum trjánum. Nú í vetur voru gerðar mjög nákvæmar rannsóknir, s.k. C-14 aldursgreiningar á lurkunum þar sem hver einasti árhringur var aldursgreindur með geislakoli við ETH háskólann í Zürich.
Fræðimenn leiða líkur að því að fornskógurinn hafi eyðst í einu af fjölmörgum jökulhlaupum sem farið hafa til vesturs niður Markarfljótsaura, oftast undan Mýrdalsjökli vegna eldsumbrota í Kötlu.
„Þessi nákvæma aldursgreining byggir á því að árin 774 og 775 e.Kr. urðu mjög miklar breytingar á geislakoli í andrúmslofti og er þessi atburður „skráður“ í árhringjum forntrjánna í Drumbabót,“ segir í pistli Ólafs Eggertssonar, sérfræðings í fornvistfræði, á síðu Skógræktar ríkisins.
Eftir að þetta hefur verið upplýst af svo mikilli nákvæmni væri forvitnilegt að vita af jafnmikilli nákvæmni hvenær örnefnið Drumbabót kom til sögunnar. Kunnáttumenn á því sviði segja mér að það hafi ekki verið skráð á kort fyrr en eftir miðja síðustu öld.
Á ferðamannaöld er nauðsynlegt að standa vörð um þetta náttúruundur eins og svo mörg önnur hér um slóðir. Halda ber vel á skipulagi ferða til að skoða það.