Sýning á verkum Ólafs Túbals í tilefni af 120 ára afmæli hans
Sögusetrinu Hvolsvelli, laugardaginn 8. júlí 2017
Með sýningunni sem í dag er opnuð á verkum Ólafs Túbals er þess minnst að 13. júlí 2017 eru 120 ár liðin frá fæðingu listamannsins.
Hér hefur Katrín Óskarsdóttir sett upp um 40 myndir Ólafs úr eigu Sigríðar Hjartar og Stefáns Guðbergssonar í Múlakoti, myndir frá Skógasafni og frá einstaklingum sem lánað hafa verk í sinni eigu.
Ber að þakka þetta góða framtak og fagna því hér í Sögusetrinu. Verðugt er að halda minningu Fljótshlíðingsins Ólafs Túbals á loft.
Fjölmenni var við upphaf sýningarinnar í Sögusetrinu á Hvolsvell.
Hann lét eftir sig hundruð verka og naut almennra vinsælda þótt stundum væri að honum vegið. Hann átti ríkan þátt í að gera málverk og vatnslitamyndir að almenningseign. Jafnframt dró hann fram birtu og fegurð íslenskrar náttúru og færði hana inn á heimili fólks bæði hér á landi og víða um heim.
Ólafur fæddist árið 1897, lifði og bjó í Múlakoti í Fljótshlíð. Hann tók við búi af föður sínum Túbal K. M. Magnússyni árið 1934 og rak það á föðurarfleifðinni í sambýli við móður sína Guðbjörgu A. Þorleifsdóttur á meðan hún lifði til ársins 1958.
Guðbjörg hóf árið 1897, sama ár og Ólafur fæddist, að gera garðinn í Múlakoti frægan í orðsins fyllstu merkingu.
Ólafur kvæntist Láru Eyjólfsdóttur úr Reykjavík sem kom kaupakona á bæinn Árkvörn í Fljótshlíð árið 1923. Lifði hún mann sinn til ársins 1984 og segir samferðarfólk að hún hafi alltaf verið á sínum stað og annast heimilisstjórnina á hógværan hátt. Án hennar hefði Múlakot ekki haldið reisn sinni.
Ólafi og Láru var þriggja barna auðið og tók Reynir sonur þeirra við búinu í Múlakoti en hann andaðist árið 2000. Gamli bærinn og garðurinn í Múlakoti hafa verið friðuð og er unnið að endurreisn þeirra á vegum sjálfseignarstofnunar.
*
Gunnlaugur Scheving listmálari skrifaði minningargrein um Ólaf í Morgunblaðið á útfarardegi hans frá Hlíðarendakirkju 4. apríl 1964. Gunnlaugur var eins og aðrir helstu listmálarar sinnar tíðar oft í Múlakoti og naut samvista við Ólaf og sagði hann hafa verið vinsælan mann svo af bar. Ólafur hefði viljað hvers manns vanda leysa og átt létta lund „þrátt fyrir mikla og margs konar erfiðleika“ eins og Gunnlaugur orðar það
Segist Gunnlaugur hafa átt einhverjar sínar bestu og skemmtilegustu stundir á heimili Ólafs í Múlakoti og á ferðalögum með honum. Sér hafi alltaf verið tekið opnum örmum, gaman hafi verið að skoða myndir Ólafs og ræða við hann um málverkið og vandamál listarinnar. Ólafur hafi verið skemmtilegur og ráðið yfir frábærri frásagnargáfu.
Ólafur Túbals var gjarnan kynntur til sögunnar í blöðum sem bóndinn, gestgjafinn og málarinn. Allt frá barnsaldri hneigðist hugur hans til lista. Í lífi hans togaðist á löngunin til að helga sig listinni, búskapurinn og rekstur gistihússins í Múlakoti. Hann gerði ungur þá málamiðlun við föður sinn að læra húsamálun í stað listmálunnar en þörfina fyrir hana nærði hann með kynnum af listamönnunum sem nutu þess að dveljast í Múlakoti.
Ólafur var virkur innan héraðssambandsins Skarphéðins og ræddi þar meðal annars um tré og blómarækt heima við bæi. Þá stjórnaði hann kirkjukórum í Hlíðarenda og á Breiðabólstað og fékk þá umsögn í Kirkjuritinu árið 1943 að á meðan kórarnir í Fljótshlíðinni nytu krafta Ólafs og Þórhildar Þorsteinsdóttur organleikara þyrftu „þeir engu að kvíða í framtíðinni“.
Jafnan er þess getið að Ásgrímur Jónsson listmálari hafi mörg sumur dvalist í Múlakoti og leiðbeint Ólafi. Jón Stefánsson listmálari kom þangað einnig og Gunnlaugur Scheving eins og að ofan greinir og eru þá alls ekki allir taldir.
Matthías Johannessen, skáld og ritstjóri, heimsótti Ólaf í Múlakot sumarið 1963 og segist Ólafur hafa verið byrjaður að mála áður en Ásgrímur kom í sveitina, hann hafi verið sér mjög hjálplegur og sagt sér til. Muggur hafi líka verið sér hjálplegur og sent sér fyrsta litakassann sem hann eignaðist, þá hafi hann verið 12 ára.
*
Þegar Ólafur Túbals er 24 ára, birtist frétt í Morgunblaðinu 20. október 1921 um að hann opni þann dag sýningu í Bárunni uppi, þar sem nú stendur ráðhús Reykjavíkur.
Blaðið lýsir honum sem ungum og efnilegum málara frá Múlakoti í Fljótshlíð sem kunnugt sé fyrir trjáreitina sem móðir hans hafi ræktað þar við bæinn. Ásgrímur Jónsson hafi þar oft áður dvalið á sumrin og gert mörg málverk frá Múlakoti og umhverfinu þar, sé Ólafur Túbals lærisveinn hans. Nokkur málverk eftir Ólaf hafi verið á listsýningum í Reykjavík áður, sérstaka sýningu hafi hann ekki áður haft.
Ólafur hélt oft sýningar eftir þetta fram til ársins 1934 þegar hann tók við búsforráðum í Múlakoti. Efndi hann jafnan til sýninga skömmu fyrir jól og árið 1927 seldi hann til dæmis 30 myndir á slíkri sýningu.
Eins og áður sagði átti hann ekki upp á pallborðið hjá öllum og stundum birtust gagnrýnisorð um fljótvirkni eða skort á lærdómi í blöðum. Hann leitaði sér tvisvar menntunar í Danmörku og lærði auk þess mikið sem fylgdarmaður eins þekktasta listamanns Dana, Jóhannesar Larsens, á ferðum hans um landið sumarið 1927 og 1930.
Í bókinni Listamaður á söguslóðum eftir Vibeke Nørgaard Nielsen í þýðingu Sigurlínar Sveinbjarnardóttur sem kom út árið 2015 er Íslandsferðum Larsens og kynnum þeirra Ólafs lýst á eftirminnilegan hátt.
Desember-sýningar Ólafs urðu oft tilefni blaðaskrifa. Ragnar Ásgeirsson ráðunautur sem skrifaði um myndlist í Nýja dagblaðið sagði til dæmis um sýninguna í desember 1933:
„Þýðingarmest fyrir hann hefir verið það tímabil, þegar hann var fylgdarmaður hins ágæta danska listamanns Johannes Larsen um byggðir landsins og naut hans heilbrigðu leiðbeininga, sem voru lausar við alla fordóma. Þau tvö sumur fór Ólafi meira fram en á löngu tímabili áður og er mér kunnugt um að Johannes Larsen hafði mætur á þessum fylgdarmanni sínum —sem málara.“
Í desember 1934 eru um 80 myndir á sýningu Ólafs. Birtist nöturleg grein um hana í Morgunblaðinu 16. desember undir dulnefninu Orri sem segir að „af öllum þessum fjölda [mynda] er ekki neitt viðfangsefnið þannig skilið eða meðfarið, að það hafi átt neitt verulegt erindi á ljereft eða pappír“.
Minna mátti gagn gera og tók Jón Eyþórsson veðurfræðingur upp hanskann fyrir Ólaf í Nýja dagblaðinu 21. desember 1934 og segir: „Nei, Ólafur Túbals málar einmitt af innri þörf og kærleika til verksins, og með elju hins vandláta og lítilláta manns. Ég hygg, að það lægi næst að finna að því, að hann vanti sjálfstraust, vanti ennþá hina djörfu og sjálfvissu meðferð línu og lita.“
Eftir þetta verður 16 ára hlé á sýningum Ólafs hvort sem það var vegna skorts á sjálfstrausti eða þunga bústarfanna og reksturs gistihússins. Hann kemur ekki fram á sýningarvöllinn aftur fyrr en í nóvember 1950 með 53 stórar olíu- og vatnslitamyndir og um 20 smærri vatnslitamyndir í sýningarsal Málarans í Reykjavík.
Þegar sagt var frá því sumarið 1959 að hann hefði opnað sýningu í Bogasal Þjóðminjasafnsins var tekið fram að þar væru 40 myndir, 22 olíumyndir og 18 vatnslistamyndir. Verkin væru næstum öll ný eða frá árinu áður en á því ári, 1958, hefði hann einnig efnt til sýningar í Reykjavík með 44 verkum og hefðu þau öll selst, væri það til marks um vinsældir hans sem málara sagði Morgunblaðið.
*
Sumarið 1962 þegar Ólafur var 65 ára hélt hann sýningu í Listamannaskálanum í Reykjavík með 101 mynd. Blaðamaður Vísis hitti hann af því tilefni og sagði:
„Ólafur Túbals er ekki mikill á velli, en bartarnir, yfirvaraskeggið, nefspangargleraugun og alltof síður frakkinn veldur því, að þú tekur eftir honum. Og sveitamaður er hann — því tekurðu líka eftir, enda engin furða.“
Ólafur segist hafa byrjað sjálfur að búa í Múlakoti 34 ára gamall, búskapurinn og rekstur gistihússins hafi verið ærið starf fyrir mann sem hafi alltaf verið með hugann annars staðar, hann hafi helst aldrei viljað sinna öðru en listinni. Hann segir síðan í Vísi 1962:
„Ég hef stundum farið á fætur klukkan fjögur, fimm á morgnana til að geta málað. En það var nú áður fyrr. Síðustu árin hefur kransæðastífla háð mér, og gert mig að mestu óvinnufæran. Annars hefur mér fundist ég vera að stelast undan skyldustörfunum. En svo þegar ég aftur er að vinna, þá finnst mér ég vera stela frá listinni."
Sýningin árið 1962 var sú síðasta á meðan Ólafur lifði, þá var 41 ár liðið frá því að hann sýndi fyrst einn í Bárunni uppi.
Ólafur Túbals andaðist föstudaginn langa 27. mars 1964.
*
Þegar Matthías Johannessen heimsótti Múlakot sumarið 1963 fór hann með Ólafi í málarastofu hans í dálitlum hjalli norðan við bæinn. Túbals, eins og Matthías kallaði hann, fór í slopp vegna myndatöku fyrir Morgunblaðið en á borði hans lágu málverkabækur Kjarvals og Ásgríms sem hann lokaði með helgisvip.
Sagði Ólafur að þeir Kjarval væru góðir kunningjar og hann hefði aldrei heyrt hann leggja nema gott eitt til mynda sinna.
Þessu til staðfestingar hefði Ólafur getað vitnað til greinar sem Kjarval skrifaði undir fyrirsögninni Ólafur Túbals í Vísi 6. desember 1930 þar sem meistarinn sagði meðal annars:
„Herra Ólafur Túbals er einn af þessum þörfu mönnum, sem kemur með nógu mikið af því góða, enda er hann bóndi, sem býr í sveit, þar sem hinn helgi náttúrukraftur jarðar ekki leysist upp af asfalt menningu. — Hann hefir náð mentuninni frá stórborginni, þaðan sem skáldin segja, að öll menning fái sinn vitjunartíma — og flutt inn i landið að bústöðum fornvættanna.
Með harðfengi hins unga sjálfstæðis boðar herra Túbals sína listsól í okkar skammdegi — með elegansa, festu og verkhygni í myndformi, sem hann hefir tileinkað sér og fullkomlega ræður yfir. — Fvrir málara, sem skrifar sig til skilnings á listformi yfirleitt, hefir þessi ágæta sýning ekki minna erindi, en aðrar góðar sýningar, sem hér hafa verið — vegna samanburðar til samþættis efna, að öðru jöfnu eða sama listformi. Herra Ólafur Túbals málar margar myndir, eins og allir íslenskir málarar gera — að nota hinn eldlega neista vel og lengi — láta ekki slökna. Liklegast alveg rétt aðferð.“
Góðir gestir!
Við þessi orð meistara Kjarvals um listsköpun Ólafs Túbals er engu að bæta og lýsi ég þessa sýningu opna!