7.11.2021 10:43

Ógnarstjórnin í Eflingu

Að þetta sé lýsing á andrúmslofti í skrifstofu eins fjölmennasta verkalýðsfélags landsins er ótrúlegt.

Þegar ég skrifaði grein um atburðina sérkennilegu í Eflingu-stéttarfélagi sem birtist í Morgunblaðinu í gær (6. nóv.) og lesa má hér hafði bréf trúnaðarmanna starfsmanna Eflingar frá 9. júní 2021 ekki birst opinberlega. Bréfið og höfnun Sólveigar Önnu Jónsdóttur formanns og Viðars Þorsteinssonar framkvæmdastjóra Eflingar á að birta það leiddi að lokum til þess að þau voru úthrópuð af starfsmönnum félagsins.

Hólmfríður Gísladóttir fréttamaður birti bréfið á vefsíðunni visir.is laugardaginn 6. nóvember ásamt langri frásögn af gangi málsins . Þar kemur meðal annars fram að Guðmundur Baldursson, stjórnarmaður í Eflingu, leitaði í lok ágúst 2021 til Alþýðusambands Íslands (ASÍ). Vildi hann að miðstjórn ASÍ hlutaðist til um að formaður Eflingar sendi honum og öðrum stjórnarmönnum í Eflingu bréfið.

Lögfræðingur ASÍ taldi stjórn sambandsins ekki hafa heimildir til afskipta af innri málefnum Eflingar. Hann benti hins vegar á niðurstöðu undirréttar og Hæstaréttar í máli Vilhjálms Birgissonar, þáverandi stjórnarmanns Verkalýðsfélags Akraness, þar sem stjórnarmenn voru sagðir eiga rétt að fá afhent þau gögn sem þeir þyrftu að fá til að geta sinnt eftirlitshlutverki sínu.

Þeir sem lesa þetta álit sjá að Sólveig Anna og Viðar fara á svig við lög með því að neita að afhenda Guðmundi bréfið.

1FF6638AC9A37F42499F9AC433CB556912AD7F3240C6A396F4572C77B6370F45_713x0Þegar bréf trúnaðarmannanna er lesið er ekki unnt að álykta á annan veg en þann að Sólveig Anna og Viðar hafi vitað upp á sig svo mikla skömm í mannahaldi sínu að þau áttuðu sig á að birting bréfsins yrði þeim endanlega að falli – eins og raun reyndist.

Í upphafi bréfsins segir:

„Margir starfsmenn Eflingar hafa leitað til okkar á síðustu dögum og lýst yfir áhyggjum, óöryggi og ótta. Þeir upplifa starfsöryggi sitt brostið og eru með sífelldar áhyggjur af því að fyrirvaralausar uppsagnir séu yfirvofandi eða séu jafnvel orðnar. Dæmi um áhyggjur starfsmanna: vita ekki hver er næstur að hætta, ef slökkt er inni hjá einhverjum er þá búið að reka hann, fólk þori ekki að tjá sig vegna ótta við að lenda í óvinahópum eða aftökulistanum, þeim er misboðið hvernig farið er með aðra starfsmenn, margir vita ekki hvað er í gangi eða hvað hefur gengið á í aðdraganda samstarfsfélaga og starfsmannafundir valda stressi vegna ótta við óvænta atburði.“

Að þetta sé lýsing á andrúmslofti í skrifstofu eins fjölmennasta verkalýðsfélags landsins er ótrúlegt.

Upphafsorð bréfs trúnaðarmannanna minna aðeins á lýsingar á andrúmslofti í samfélagi sósíalista í Austur-Þýskalandi þar til Berlínarmúrinn hrundi 9. nóvember 1989. Þar drógu menn ályktanir af örlögum samstarfsfólks eftir því hvort ljós logaði á skrifborði þess eða ekki. Þar þorði fólk ekki að segja skoðun sína af ótta við að lenda upp á kant við flokkinn og lenda á eineltis- eða aftökulista. Það gerist aldrei hér, segjum við gjarnan. Í Eflingu tók aðeins 3 ár að koma á ógnarstjórn.