6.11.2021

Sósíalistar hrópaðir út úr Eflingu

Morgunblaðið, laugardagur 6. nóvember 2021.

Guðmund­ur Bald­urs­son, stjórn­ar­maður í Efl­ingu – stétt­ar­fé­lagi, gekk á eft­ir upp­lýs­ing­um um efni kvart­ana starfs­manna fé­lags­ins til for­manns, vara­for­manns og skrif­stofu­stjóra þess. Sól­veig Anna Jóns­dótt­ir formaður krafðist þess á fundi með starfs­fólk­inu föstu­dag­inn 29. októ­ber að það styddi hana eða hún hætti sem formaður. Það gerði hún að kvöldi sunnu­dags 31. októ­ber og mánu­dag­inn 1. nóv­em­ber hætti Viðar Þor­steins­son skrif­stofu­stjóri. Starfs­menn fé­lags­ins hefðu svipt for­mann­inn ær­unni op­in­ber­lega, sér væri ekki leng­ur sætt.

Spurn­ing er hvort þetta séu fjör­brot Sósí­al­ista­flokks Íslands í verka­lýðshreyf­ing­unni. Of­ríki og þörf fyr­ir að hafa aðeins já­menn í kring­um sig ein­kenn­ir valda­kerfi komm­ún­ista. Leyni­makk, sellufund­ir og hreins­an­ir eru hluti stjórn­ar­hátta þeirra.

Efl­ing – stétt­ar­fé­lag var stofnað í des­em­ber 1998. Efnt var til fyrstu lista­kosn­ing­ar í sögu þess í mars 2018. Þar vann nýtt fram­boð und­ir for­ystu Sól­veig­ar Önnu af­ger­andi sig­ur. Hlaut list­inn 2.099 at­kvæði eða um 80% greiddra at­kvæða. Listi studd­ur frá­far­andi stjórn hlaut aðeins 519 at­kvæði. Af 16.578 fé­lags­mönn­um á kjör­skrá nýttu ein­ung­is 2.618 at­kvæðis­rétt sinn. Á vefsíðu fé­lags­ins voru fé­lags­menn sagðir um 27.000 árið 2018. Í raun naut Sól­veig Anna stuðnings um 8% fé­lags­manna. Hún var síðan sjálf­kjör­in vorið 2020.

Csm_red_solidarity_64b906943eÁður en Sól­veig Anna bauð sig fram í Efl­ingu átti hún hlut að því með Gunn­ari Smára Eg­ils­syni og Viðari Þor­steins­syni að stofna Sósí­al­ista­flokk Íslands. Samdi Viðar lög flokks­ins.

Eft­ir valda­tök­una í Efl­ingu hófu þau strax brottrekst­ur starfs­manna, klass­ísk­ar hreins­an­ir. Þrá­inn Hall­gríms­son, skrif­stofu­stjóri og starfsmaður fé­lags­ins frá upp­hafi, mætti „sví­v­irðilegri fram­komu“ Sól­veig­ar Önnu á starfs­manna­fundi og var rek­inn í maí 2018. Annað starfs­fólk þurfti að leita lækn­is- og sál­fræðiaðstoðar vegna niður­lægj­andi brott­vís­ana og upp­sagna.

Hag­fræðing­ur fé­lags­ins vék fyr­ir Stefáni Ólafs­syni, pró­fess­or við Há­skóla Íslands. Til að standa fyr­ir nýju fé­lags­sviði Efl­ing­ar var í októ­ber 2018 kallað á Max­im Baru, verka­lýðs-aðgerðasinna í Kan­ada. Hann var svo rek­inn í lok mars 2019. Seg­ir hann út­lend­inga­hat­ur hafa ráðið hjá Sól­veigu Önnu gegn sér og öðrum starfs­mönn­um af er­lend­um upp­runa. Mót­læti og karlremba hafi ýtt und­ir sjálfs­eyðandi væn­i­sýki (e. self-destructi­ve paranoia) og hún sjái óvini í hverju horni.

Haustið 2018 beind­ist fjöl­miðlaat­hygli tölu­vert að Sól­veigu Önnu, meðal ann­ars vegna þess­ara orða henn­ar: „... kallið mig bylt­ing­ar­konu, í guðanna bæn­um! Megi þá hel­vít­is bylt­ing­in lifa.“

Það verður rann­sókn­ar­efni höf­unda sögu Efl­ing­ar og Alþýðusam­bands­ins að greina raun­veru­leg áhrif fé­lag­anna í Sósí­al­ista­flokki Íslands inn­an verka­lýðshreyf­ing­ar­inn­ar. Þeir ætluðu sér stóra hluti.

Þar má sér­stak­lega líta til kjara­mála í fe­brú­ar 2019 þegar for­ystu­menn Efl­ing­ar, Versl­un­ar­manna­fé­lags Reykja­vík­ur, Verka­lýðsfé­lags Akra­ness og Verka­lýðsfé­lags Grinda­vík­ur tóku hönd­um sam­an. Bar­átt­an sjálf var sett í fyr­ir­rúm. Skemmd­ar­verk­föll­um var beitt gegn hót­el­um og fólks­flutn­inga­fyr­ir­tækj­um. Þeir sem hreyfðu and­mæl­um voru sakaðir um óvild í garð lág­launa­fólks.

„Þetta eru mjög um­fangs­mikl­ar aðgerðir, hannaðar með það fyr­ir aug­um að valda há­marks­tjóni með sem minnst­um til­kostnaði þeirra sem að þeim standa,“ sagði Hall­dór Benja­mín Þor­bergs­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka at­vinnu­lífs­ins.

Aðgerðirn­ar runnu út í sand­inn, hefðbundn­ir og ábata­mikl­ir kjara­samn­ing­ar, lífs­kjara­samn­ing­arn­ir, voru und­ir­ritaðir 3. apríl 2019. Sól­veig Anna reidd­ist og rak Max­im Baku verk­falls­stjóra með bréfi dags. 29. mars 2019 og síðan fleiri út­lend­inga úr starfsliði Efl­ing­ar.

Sól­veig Anna sætti sig ekki við lífs­kjara­samn­ing­ana, kallaði þá vopna­hlé. Í árs­byrj­un 2020 rauf Efl­ing friðinn með því að taka leik­skóla Reykja­vík­ur­borg­ar í gísl­ingu. Þegar þungi far­sótt­ar­inn­ar jókst í byrj­un mars 2020 náðust samn­ing­ar. Skær­ur gegn lískjara­samn­ing­un­um þóttu ekki við hæfi. Það var þó gripið til þeirra að nýju þegar sótt­varn­ir milduðust vorið 2020.

Flug­freyju­deil­an við Icelanda­ir vorið og sum­arið 2020 sam­einaði Sól­veigu Önnu, Drífu Snæ­dal, for­seta ASÍ, og Ragn­ar Þór Ing­ólfs­son, formann VR, í hat­rammri at­lögu að flug­fé­lag­inu. Öllum ráðum skyldi beitt til að kné­setja það.

Þegar stjórn­end­ur Icelanda­ir sögðu flug­freyj­um upp störf­um um miðjan júlí 2020 og Lára V. Júlí­us­dótt­ir vinnu­rétt­ar­sér­fræðing­ur sagði ákv­arðanir Icelanda­ir í sam­ræmi við lög lét Sól­veig Anna þessi orð falla á Face­book:

„Einn truflaðasti meðlim­ur reyk­vískr­ar borg­ara­stétt­ar tal­ar úr hliðar­veru­leika hinna auðugu. Ömur­legt þvaður í ruglaðri mann­eskju.“

Stjórn­ar­andstaðan spilaði með og Drífa Snæ­dal krafðist þess að líf­eyr­is­sjóðir starfs­fólks á Íslandi yrðu ekki notaðir til að fjár­magna Icelanda­ir. Ragn­ar Þór Ing­ólfs­son, formaður VR, vildi ekki una því að líf­eyr­is­sjóðir veittu stjórn­end­um skjól til að „starfa óáreitt­ir“.

Hluta­fjárút­boð Icelanda­ir fór fram um miðjan sept­em­ber 2020. Um­fram­spurn eft­ir hlut­um í fé­lag­inu nam um það bil 85% og að útboðinu loknu voru um ell­efu þúsund manns hlut­haf­ar í Icelanda­ir og áttu al­menn­ir hlut­haf­ar um helm­ing hluta. Til­raun­in til að spilla áhuga á að fjár­festa í fé­lag­inu mis­heppnaðist gjör­sam­lega.

Fer­ill fé­lag­anna í Sósí­al­ista­flokkn­um í Efl­ingu og við hlið Drífu Snæ­dal inn­an ASÍ er óglæsi­leg­ur. Eina sem heppnaðist var valda­tak­an í upp­hafi. Þau héldu illa á henni og voru að lok­um út­hrópuð vegna mann­vonsku.