Sósíalistar hrópaðir út úr Eflingu
Morgunblaðið, laugardagur 6. nóvember 2021.
Guðmundur Baldursson, stjórnarmaður í Eflingu – stéttarfélagi, gekk á eftir upplýsingum um efni kvartana starfsmanna félagsins til formanns, varaformanns og skrifstofustjóra þess. Sólveig Anna Jónsdóttir formaður krafðist þess á fundi með starfsfólkinu föstudaginn 29. október að það styddi hana eða hún hætti sem formaður. Það gerði hún að kvöldi sunnudags 31. október og mánudaginn 1. nóvember hætti Viðar Þorsteinsson skrifstofustjóri. Starfsmenn félagsins hefðu svipt formanninn ærunni opinberlega, sér væri ekki lengur sætt.
Spurning er hvort þetta séu fjörbrot Sósíalistaflokks Íslands í verkalýðshreyfingunni. Ofríki og þörf fyrir að hafa aðeins jámenn í kringum sig einkennir valdakerfi kommúnista. Leynimakk, sellufundir og hreinsanir eru hluti stjórnarhátta þeirra.
Efling – stéttarfélag var stofnað í desember 1998. Efnt var til fyrstu listakosningar í sögu þess í mars 2018. Þar vann nýtt framboð undir forystu Sólveigar Önnu afgerandi sigur. Hlaut listinn 2.099 atkvæði eða um 80% greiddra atkvæða. Listi studdur fráfarandi stjórn hlaut aðeins 519 atkvæði. Af 16.578 félagsmönnum á kjörskrá nýttu einungis 2.618 atkvæðisrétt sinn. Á vefsíðu félagsins voru félagsmenn sagðir um 27.000 árið 2018. Í raun naut Sólveig Anna stuðnings um 8% félagsmanna. Hún var síðan sjálfkjörin vorið 2020.
Áður en Sólveig Anna bauð sig fram í Eflingu átti hún hlut að því með Gunnari Smára Egilssyni og Viðari Þorsteinssyni að stofna Sósíalistaflokk Íslands. Samdi Viðar lög flokksins.
Eftir valdatökuna í Eflingu hófu þau strax brottrekstur starfsmanna, klassískar hreinsanir. Þráinn Hallgrímsson, skrifstofustjóri og starfsmaður félagsins frá upphafi, mætti „svívirðilegri framkomu“ Sólveigar Önnu á starfsmannafundi og var rekinn í maí 2018. Annað starfsfólk þurfti að leita læknis- og sálfræðiaðstoðar vegna niðurlægjandi brottvísana og uppsagna.
Hagfræðingur félagsins vék fyrir Stefáni Ólafssyni, prófessor við Háskóla Íslands. Til að standa fyrir nýju félagssviði Eflingar var í október 2018 kallað á Maxim Baru, verkalýðs-aðgerðasinna í Kanada. Hann var svo rekinn í lok mars 2019. Segir hann útlendingahatur hafa ráðið hjá Sólveigu Önnu gegn sér og öðrum starfsmönnum af erlendum uppruna. Mótlæti og karlremba hafi ýtt undir sjálfseyðandi vænisýki (e. self-destructive paranoia) og hún sjái óvini í hverju horni.
Haustið 2018 beindist fjölmiðlaathygli töluvert að Sólveigu Önnu, meðal annars vegna þessara orða hennar: „... kallið mig byltingarkonu, í guðanna bænum! Megi þá helvítis byltingin lifa.“
Það verður rannsóknarefni höfunda sögu Eflingar og Alþýðusambandsins að greina raunveruleg áhrif félaganna í Sósíalistaflokki Íslands innan verkalýðshreyfingarinnar. Þeir ætluðu sér stóra hluti.
Þar má sérstaklega líta til kjaramála í febrúar 2019 þegar forystumenn Eflingar, Verslunarmannafélags Reykjavíkur, Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Grindavíkur tóku höndum saman. Baráttan sjálf var sett í fyrirrúm. Skemmdarverkföllum var beitt gegn hótelum og fólksflutningafyrirtækjum. Þeir sem hreyfðu andmælum voru sakaðir um óvild í garð láglaunafólks.
„Þetta eru mjög umfangsmiklar aðgerðir, hannaðar með það fyrir augum að valda hámarkstjóni með sem minnstum tilkostnaði þeirra sem að þeim standa,“ sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Aðgerðirnar runnu út í sandinn, hefðbundnir og ábatamiklir kjarasamningar, lífskjarasamningarnir, voru undirritaðir 3. apríl 2019. Sólveig Anna reiddist og rak Maxim Baku verkfallsstjóra með bréfi dags. 29. mars 2019 og síðan fleiri útlendinga úr starfsliði Eflingar.
Sólveig Anna sætti sig ekki við lífskjarasamningana, kallaði þá vopnahlé. Í ársbyrjun 2020 rauf Efling friðinn með því að taka leikskóla Reykjavíkurborgar í gíslingu. Þegar þungi farsóttarinnar jókst í byrjun mars 2020 náðust samningar. Skærur gegn lískjarasamningunum þóttu ekki við hæfi. Það var þó gripið til þeirra að nýju þegar sóttvarnir milduðust vorið 2020.
Flugfreyjudeilan við Icelandair vorið og sumarið 2020 sameinaði Sólveigu Önnu, Drífu Snædal, forseta ASÍ, og Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, í hatrammri atlögu að flugfélaginu. Öllum ráðum skyldi beitt til að knésetja það.
Þegar stjórnendur Icelandair sögðu flugfreyjum upp störfum um miðjan júlí 2020 og Lára V. Júlíusdóttir vinnuréttarsérfræðingur sagði ákvarðanir Icelandair í samræmi við lög lét Sólveig Anna þessi orð falla á Facebook:
„Einn truflaðasti meðlimur reykvískrar borgarastéttar talar úr hliðarveruleika hinna auðugu. Ömurlegt þvaður í ruglaðri manneskju.“
Stjórnarandstaðan spilaði með og Drífa Snædal krafðist þess að lífeyrissjóðir starfsfólks á Íslandi yrðu ekki notaðir til að fjármagna Icelandair. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, vildi ekki una því að lífeyrissjóðir veittu stjórnendum skjól til að „starfa óáreittir“.
Hlutafjárútboð Icelandair fór fram um miðjan september 2020. Umframspurn eftir hlutum í félaginu nam um það bil 85% og að útboðinu loknu voru um ellefu þúsund manns hluthafar í Icelandair og áttu almennir hluthafar um helming hluta. Tilraunin til að spilla áhuga á að fjárfesta í félaginu misheppnaðist gjörsamlega.
Ferill félaganna í Sósíalistaflokknum í Eflingu og við hlið Drífu Snædal innan ASÍ er óglæsilegur. Eina sem heppnaðist var valdatakan í upphafi. Þau héldu illa á henni og voru að lokum úthrópuð vegna mannvonsku.