12.8.2014 19:00

Þriðjudagur 12. 08. 14

Breska ríkisstjórnin hefur tapað máli fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu í Strassborg. Við það verða þær raddir háværari í Bretlandi að Bretar segi sig undan lögsögu dómstólsins. Málið snerist um rétt fanga til að taka þátt í kosningum til ESB-þingsins á árinu 2009. Í dag sögðu fimm dómarar af sjö að brotin hefðu verið mannréttindi á föngunum með því að banna þeim að greiða atkvæði í kosningunum.  Tíu fangar stóðu að málshöfðuninni, dómararnir neituðu þeim um bætur vegna mannréttindabrotanna og einnig um greiðslu málskostnaðar.

David Cameron forsætisráðherra sagði árið 2010 að hann yrði „líkamlega veikur“ við það eitt að leiða hugann að því að heimila yrði þeim sem situr í fangelsi að ganga að kjörborðinu.

Bretar hafa áður tapað slíkum málum í Strassborg, árið 2005 og árið 2010. Breskir þingmenn hafa staðfastlega neitað að breyta lögum til þess eins að fara að niðurstöðum dómaranna. Eftir að dómurinn var birtur í dag áréttaði talsmaður breska dómsmálaráðuneytisins þá skoðun að breska þingið en ekki dómstóll í Strassborg setti lög í Bretlandi. Málið væri til skoðunar hjá þingnefnd og yrði metið að athugun hennar lokinni.

Theresa May, innanríkisráðherra Breta, hefur viðrað þá skoðun að Íhaldsflokkurinn setji á stefnuskrá sína fyrir kosningar 2015 að Bretar segi sig frá mannréttindasáttmála Evrópu en dómstóllinn í Strassborg dæmir á grundvelli hans.

Mannréttindasáttmálinn var lögfestur hér á landi fyrir tveimur áratugum. Dómarar í Strassborg hafa verið gagnrýndir fyrir að túlka mannréttindasáttmálann of rúmt og sækjast eftir lagasetningarvaldi með niðurstöðum sínum. Þegar ég tók undir þá gagnrýni í ræðu varð dálítið fjaðrafok í fjölmiðlum hér og meðal lögfræðinga. Hér má lesa ræðuna.