Sunnudagur, 16. 11. 08.
Við litum inn á risamarkað í Rangárhöllinni á Gaddastaðaflötum við Hellu á leiðinni austan úr Fljótshlíð. Þar voru mörg söluborð og margt um manninn.
Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur í dag en afmælis Jónasar Hallgrímssonar var minnst á þennan hátt í fyrsta sinn árið 1996.
Ég ritaði pistil á síðuna mína í dag og velti fyrir mér Fréttablaðinu og eigendahollustu þess.
Tilkynnt var undir kvöld, að samkomulag hefði tekist milli íslenskra stjórnvalda og Evrópusambandsins vega IceSave reikninganna. Um það hefur verið deilt, hvernig háttað er ábyrgðum á innistæðureikningum samkvæmt Evrópugerð, sem snertir bankaviðskipti yfir landamæri. Evrópusambandinu er mikið í mun, að enginn vafi ríki um þessa ábyrgð. Vandi okkar Íslendinga er, að Evrópugerðin er óljós og þar er alls ekki tekið mið af því, að heilt banka- eða fjármálakerfi hrynji eins og hér gerðist.
Sé vafi um ábyrgð á grundvelli þessarar gerðar, vegur hann að trausti á allri bankastarfsemi á evrópska efnahagssvæðinu. Samningsstaða Íslands er því sterk í málinu, þótt þrengt sé að hagsmunum landsins með því að tengja IceSave óskyldum málum. Þeir, sem til slíkra ráða grípa, treysta ekki á eigin málstað.
Þegar samið er, hafa báðir nokkuð til síns máls. Ég hef aldrei hallast að þeirri skoðun, að samningar séu svik, þegar deilur milli ríkja eru leystar. Mér heyrist örla á því sjónarmiði í gagnrýni stjórnarandstöðu á samninginn um IceSave.
Það er siðaðra þjóða háttur að ljúka deilum með samkomulagi - hins vegar má ekki greiða samninga of dýru verði eða afsala sér rétti til að halda lagaskilyrðum til haga og nýta lögfræðilega túlkun til hins ýtrasta.