12.7.2020 12:33

Norrænt samstarf við Bandaríkin

Í þessu sambandi er nauðsynlegt að greina á milli orða og athafna Trumps og framgöngu Bandaríkjastjórnar. Trump er í raun í stöðugri kosningabaráttu.

Í morgun (12. júlí) var ég í viðtali í þættinumSprengisandi á Bylgjunni þar sem stjórnandinn, Kristján Kristjánsson, ræddi við mig í tilefni norrænu skýrslunnar sem ég afhenti Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra 3. júlí og birt var opinberlega 6. júlí.

Kristján sagði réttilega að í skýrslunni fjallaði ég ekki um stöðu Bandaríkjanna undir forsæti Donalds Trumps og hvort stjórnarhættir hans og stefna hefðu áhrif á samstarf Norðurlandaríkjanna við Bandaríkin. Mátti skilja spurningu Kristjáns á þann veg að framganga Trumps hefði neikvæð áhrif á þessi samskipti.

Í þessu sambandi er nauðsynlegt að greina á milli orða og athafna Trumps og framgöngu Bandaríkjastjórnar. Trump er í raun í stöðugri kosningabaráttu. Allt sem hann segir og gerir verður að skoða með það í huga. Þetta skýrist vel þegar rýnt er í bækur eftir þá sem hafa starfað með Trump í Hvíta húsinu í Washington.

Imatr Í grein í Morgunblaðinu fyrir tveimur vikum sagði ég frá för Trumps á ríkisoddvitafund NATO í Brussel í júlí 2018. Í nýrri bók lýsir John Bolton sem var þjóðaröryggisráðgjafi Trumps á fundinum hve taugatrekktir samferðamenn og ráðgjafar Trumps voru fram að því að forsetinn flutti ræðu sína á fundinum. Þeir vissu ekki hve langt honum dytti í hug að ganga til að ögra bandamönnum sínum í NATO. Þær ögranir eru fyrst og síðast til heimabrúks og í þessu tilviki hefðu stóryrði í Brussel skyggt á jákvæðar heimafréttir fyrir stuðningsmenn Trumps vegna nýskipaðs hæstaréttardómara.

Röksemdir mínar í norrænu skýrslunni endurspegla það sem fram kom á fundum í höfuðborgum Norðurlandanna og í Washington. Þess vegna sagði ég í samtalinu við Kristján Kristjánsson að við mat á þessari stöðu yrðu menn að greina á milli þess sem Trump teldi sér henta að segja til að ná til kjósenda í von um endurkjör og hins sem fyrir lægi í raun í samskiptum Bandaríkjamanna og Norðurlandaþjóða.

Sé litið yfir sögu utanríkis- og öryggismála Norðurlandanna frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar hafa þjóðirnar aldrei verið jafnsamstiga í þessum málaflokki og á líðandi stundu. Á það ekki síst við um afstöðu stjórnvalda í löndunum til samstarfsins við Bandaríkin og Atlantshafstengslin svonefndu.

Í kalda stríðinu var talað um norrænt jafnvægi í utanríkis- og öryggismálum sem reist var á að þrjú ríkjanna voru í NATO, Svíþjóð hlutlaust utan hernaðarbandalaga og Finnland hlutlaust með vináttusamning við Sovétríkin.

Nú eru þrjú ríkjanna í ESB, þrjú í NATO, Svíar og Finnar eru utan hernaðarbandalaga en hafa gert víðtækan samstarfssamning við NATO og tvíhliða samninga við Bandaríkin auk samninga sín á milli um hernaðarleg málefni.

Það er til orðið nýtt norrænt jafnvægi bæði í utanríkismálum og öryggismálum. Þetta jafnvægi er reist á nánum tvíhliða tengslum einstakra Norðurlandaríkja við Bandaríkin og í heild mynda ríkin öflugan samstarfsaðila á grundvelli Atlantshafstengsla. Þetta er staðreynd hvað sem líður flokkadráttum og kosningabaráttu í Bandaríkjunum.