22.7.2021 10:14

Nord Stream 2 á lokametrunum

Á lokametrum valdaferils síns tekst Angelu Merkel kanslara að þvinga Nord Stream 2 gasleiðsluna í land

Frá því var greint miðvikudaginn 21. júlí að samkomulag hefði tekist milli ríkisstjórna Bandaríkjanna og Þýskalands um lausn á ágreiningi þeirra vegna Nord Stream 2 gasleiðslunnar frá Rússlandi til Þýskalands. Bandaríkjastjórn segir að þar með sé tryggt að Rússar geti ekki beitt gasvopni til að ná fram vilja sínum gagnvart ESB.

Ambrose Evans-Pritchard, viðskiptaritstjóra The Telegraph í London, finnst lítið til þessa samkomulags koma og segir í blaðinu í dag (22. júlí) að Vladimir Pútin Rússlandsforseti búi sig nú þegar undir að beita gasvopninu gagnvart ESB-ríkjunum til að brjóta alla andstöðu innan þeirra gegn Nord Stream 2 á bak aftur og tryggja rússneska einokun á þessu sviði orkumála.

Ambrose Evans-Pritchard vitnar í rússneska viðskiptadagblaðið Kommersant sem segi að rússnesk yfirvöld skammti gas til Evrópu til að knýja á um að ESB samþykki Nord Stream 2 og til að tryggja að rússneski orkurisinn Gazprom eigi síðasta orðið um gasflæði hverju sinni.

Í greininni vitnar Ambrose Evans-Pritchard til pólska varnarmálaráðherrans sem kalli Nord Stream 2 Molotov-Ribbentrop-leiðsluna með skírskotun til griðasáttmála Stalíns og Hitlers á sínum tíma. Með leiðslunni aukist ekki gasflæðið til Evrópu þvert á það sem sagt sé í Kreml Berlín og Brussel. Leiðslan sé nýtt verkfæri Rússa á sviði utanríkismála.

Stefnubreyting Joes Bidens Bandaríkjaforseta gagnvart Nord Stream 2 er skýrð með því að hann vilji ekki stofna til stórpólitískra vandræða við lykilbandamenn í Berlín auk þess sem sporna eigi við að Pútin verði enn háðari Kínverjum.

1626869381289Rússnesku gasleiðslurnar Nord Stream 1 og 2 frá Rússlandi til Þýskalands.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hitti Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, í fyrsta sinn á fundi í Hörpu 19. maí 2021 og boðaði þá kúvendingu í afstöðu Bidens til Nord Stream 2. Biden og Pútin hittust síðan í Genf 16. júní 2021 og nú tveimur mánuðum eftir fundinn í Hörpu liggur fyrir samkomulag Þjóðverja og Bandaríkjamanna um endanlega lausn málsins.

Í grein í Morgunblaðinu u ndir lok maí sagði ég Blinken hafa gefið Lavrov gullmola í Hörpu. Bandaríska þingið kann að setja skilyrði vegna afhendingar molans. Á lokametrum valdaferils síns tekst Angelu Merkel kanslara að þvinga leiðsluna í land með dyggum stuðningi þýskra jafnaðarmanna og þrátt fyrir þunga andstöðu innan eigin flokks.

Ambrose Evans-Pritchard segir framkvæmdastjórn ESB ekki lengur geta leikið tveimur skjöldum í þessu máli. Pólverjar hafi nýlega unnið lykilmál fyrir ESB-dómstólnum gegn Þýskalandi. Málið snerti Nord Stream1 og svonefnda Opal-gasleiðslu. Dómararnir sögðu að aðilum væri að lögum skylt að hlíta ákvæðum 194 gr. Lissabonsáttmálans um orkusamstöðu. Framkvæmdastjórnin verður núna að taka tillit til áhættu allra aðildarríkja þegar litið er orkubirgða.

Ambrose Evans-Pritchard segir þetta gjörbreyta myndinni. Gasskömmtun Pútins stangist á við dóminn og von hans sé að geta þvingað ESB til að hafa niðurstöu eigin dómstóls að engu. Í því felist í raun tilvistarógn við ESB.