15.8.2019 9:05

Merkel og Pence til Íslands

Viðskipti okkar eru mest á sameiginlega markaðnum innan EES en erlendar fjárfestingar hér á landi eru mestar frá Norður-Ameríku.

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, kemur í opinbera heimsókn til Íslands þriðja september. Frá þessu er greint á vef Hvíta hússins að kvöldi 14. ágúst. Varaforsetinn ætlar að heimsækja Ísland, Bretland og Írland. Tilgangur ferðar hans er greinilega að árétta Norður-Atlantshafstengsl Bandaríkjanna. Sama dag og varaforsetinn verður hér á ferð lýkur Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, heimsókn sinni til Póllands og Danmerkur. Í Danmörku ræðir forsetinn við forystumenn Danmerkur, Færeyja og Grænlands um norðurslóðamál.

Á vef Hvíta hússins í Washington sagði 14. ágúst:

„On September 3, the Vice President will travel to Iceland, where he will highlight Iceland's strategic importance in the Arctic, NATO's efforts to counter Russian aggression in the region, and opportunities to expand mutual trade and investment.“

Þarna segir að varaforsetinn ætli með heimsókn sinni til Íslands að undirstrika strategískt mikilvægi Íslands á norðurslóðum og viðleitni NATO til að mæta sókn Rússa á svæðinu, einnig beinist athyglin að tækifærum til að auka gagnkvæm viðskipti og fjárfestingar.

MerkelAngela Merkel og Mike Pence

Allt staðfestir þetta breytta afstöðu í Washington og innan NATO til þróunar mála á Norður-Atlantshafi en fyrir ári var hér og fyrir norðan Ísland efnt til viðamestu heræfingar NATO á þessum slóðum í meira en 30 ár. Nú er þessu fylgt eftir með því að árétta pólistíska afstöðu.

Föstudaginn 9. ágúst birti ég í Morgunblaðinu grein um fund Trumps í Kaupmannahöfn og taldi hann til marks um að áhrif Íslands á alþjóðavettvangi væru önnur núna en fyrir tveimur áratugum þegar hvorki Bandaríkjastjórn, NATO né Rússar höfðu áhuga á hernaðarlegum þáttum á Norður-Atlantshafi. Nú hefur það ekki aðeins breyst heldur leiða loftslagsbreytingar til allt annarrar afstöðu til þess sem gerist fyrir norðan Ísland.

Í ljósi þessara heimssögulegu breytinga er enn fráleitara en ella að setja á stórdeilur hér á landi um EES-aðildina, samstarfstarfsramma okkar við ríki Evrópusambandins. Mikilvægi þess samstarfs verður einnig staðfest í næstu viku þegar Angela Merkel Þýskalandskanslari kemur hingað í sína fyrstu heimsókn.

Viðskipti okkar eru mest á sameiginlega markaðnum innan EES en erlendar fjárfestingar hér á landi eru mestar frá Norður-Ameríku. Þetta sýnir betur en flest annað hve vel okkur hefur tekist að nýta stjórnmálatengsl og legu landsins þjóðinni til framdráttar.

Öryggið tryggjum við með NATO-aðildinni og varnarsamningnum við Bandaríkin.

Fram hjá þessum staðreyndum verður ekki gengið hvað svo sem menn rífast á heimavelli um framkvæmd þessa mikilvæga samstarfs. Það hefur reynst þjóðinni vel og ekki hefur verið bent á neina betri kosti.

Stefna ríkisstjórnar er að halda þessu striki og ber að styðja hana í því.