1.9.2023 10:24

Kúvendingar vegna hvalveiða

Þessi saga kemur í hugann nú þegar Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur tekið U-beygju í afstöðu til hvalveiða. Að vísu ekki „hægt og í mjög stórum sveig“ heldur hratt og klúðurslega.


Föstudaginn 8. júní 2001varð Ísland að nýju aðili að Alþjóðahvalveiðiráðinu til að unnt yrði að hefja hvalveiðar. Ísland gekk úr ráðinu undir árslok 1992. Ríkisstjórnin ákvað að gera það með vísan til skýrslu um að Alþjóðahvalveiðiráðið væri gagnslaus samtök í höndum verndunarsinna. Forsenda lögmætra hvalveiða var þá, eins og nú, aðild að alþjóðlegum samtökum. Benti ríkisstjórnin á að stofna ætti samtök þjóða við Norður-Atlantshaf (NAMMCO). Aðild að þeim dygði í stað Alþjóðahvalveiðiráðsins sem myndi líklega líða undir lok með úrsögn Norðmanna og Japana.

Við Guðrún Helgadóttir, rithöfundur og þingmaður Alþýðubandalagsins, greiddum atkvæði gegn úrsögn úr Alþjóðahvalveiðiráðinu. Afstaða mín var að Íslendingar gætu aldrei hafið hvalveiðar að nýju nema innan Alþjóðahvalveiðiráðsins, það væri borin von að NAMMCO gæti komið þar í staðinn. Reyndist sú skoðun rétt.

Þegar ákveðið var að ganga í hvalveiðiráðið að nýju árið 2001 var það gert með þeim fyrirvara að Ísland væri ekki lengur bundið af samþykkt alþingis frá 1983 um að virða veiðibann Alþjóðahvalveiðiráðsins. Þetta var yfirklór til að auðvelda kúvendinguna.

Utanríkismálanefnd alþingis fór í fundaferð til Washington snemma árs 1995. Í umræðum við þingmenn og embættismenn bar hvalveiðar hátt því að Bandaríkjastjórn beitti sér þá mjög gegn þeim. Í lok ferðarinnar vissu allir þátttakendur að tómt mál væri að tala um að hefja hvalveiðar hér að nýju án aðildar að Alþjóðahvalveiðiráðinu. Reyndur stjórnarandstöðuþingmaður í nefndinni sagði að kúvendinguna í afstöðu til Alþjóðahvalveiðiráðsins yrði að taka hægt og í mjög stórum sveig. Var það síðan gert með víðtækum þingstuðningi. Sjá nánar hér.

Screenshot-2023-09-01-at-10.22.52

Þessi saga kemur í hugann nú þegar Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur tekið U-beygju í afstöðu til hvalveiða. Að vísu ekki „hægt og í mjög stórum sveig“ heldur hratt og klúðurslega.

Frestun á veiðunum í vor var brot á vandaðri stjórnsýslu. Aðferðin núna þegar beðið er fram á síðasta dag og þá sett íþyngjandi reglugerð um framhald veiðanna er sama marki brennd sé litið til stjórnsýsluhátta.

Þessir „stælar“ ráðherrans við töku ákvarðana í málinu eru illskiljanlegir. Í vor var sköpuð spenna til að slá sér upp meðal andstæðinga hvalveiða en síðsumars til að ganga í augun, með semingi þó, á þeim sem vilja að hvalur sé veiddur.

Þegar alþingi samþykkti að virða veiðibann Alþjóðahvalveiðiráðsins 1983 var það ekki síst gert fyrir þrýsting frá Bandaríkjastjórn. Stjórnmálamenn í Washington bentu síðan á að ekki yrði unnt að hefja hvalveiðar utan Alþjóðahvalveiðiráðsins og þá var gengið í ráðið aftur með fyrirvara gegn banni sem alþingi hafði áður samþykkt.

Kúvendingarnar nutu víðtæks stuðnings á alþingi. Nú vilja Píratar banna hvalveiðar með lögum. Þá kemur enn í ljós að afstaða þingmanna ræðst ekki af flokksböndum. Nú beita bandarískir stjórnmálamenn hins vegar ekki þrýstingi heldur leikarar í Hollywood í von um athygli.