9.6.2001

Skólaslit – aðild að Alþjóðahvalveiðiráðinu – úrslitin í Bretlandi.

Undir lok síðustu viku var ég við tvenn skólaslit og útskriftir, það er í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti (FB), sem á liðnum vetri hélt upp á 25 ára afmæli sitt, og í Kennaraháskóla Íslands, þar sem þess var meðal annars minnst, að 30 áru eru liðin, frá því að kennaramenntun var færð á háskólastig. Er alltaf ánægjulegt að taka þátt í hátíðum sem þessum, þegar nemendur og kennarar fagna því, að miklu starfi er lokið og merkum áfanga náð hjá þeim, sem segja skilið við skólann sinn.

60 daga verkfall setti strik í námið hjá framhaldsskólanemum á liðnum vetri og þess vegna eru útskriftir þeirra síðar á þessu vori en venjulega. Almennt verður að telja, að mjög vel hafi tekist hjá skólameisturum að halda utan um skólastarfið við þessar erfiðu aðstæður og nemendur hafa að langstærstum hluta haldið sínu striki, þrátt fyrir þetta langa rof á kennslu. Setti minningin um erfiða tíma vegna verkfallsins eðlilega svip sinn á ræður þeirra nemenda, sem tóku til máls á hátíðinni í FB.

Innan Kennaraháskóla Íslands hefur verið unnið mikið skipulags- og mótunarstarf frá því að hann stækkaði með sameiningu fjögurra skóla í árbyrjun 2001 og nú voru fyrstu íþróttafræðingarnir útskrifaðir með BS-prófi, en nám íþróttakennara var fært á háskólastig, þegar Íþróttakennaraskóli Íslands á Laugarvatni varð hluti kennaraháskólans. Í ræðu, sem ég flutti við skólaslitin skýrði ég frá því, að mér hefðu nýlega borist tillögur um Íþrótta- og ólympíumiðstöð Íslands á Laugarvatni, sem yrði til þess fallin að sameina krafta þeirra, sem hafa forystu í íþróttamálum þjóðarinnar og kennslu og rannsóknum á þessu sviði við kjöraðstæður til íþróttaiðkunar auk þess sem mörkuð væri skýr stefna um nýtingu húsakosts ríkisins á Laugarvatni, en þar hefur gamla héraðsskólahúsið til dæmis verið að drabbast niður undanfarin ár.

Aðsókn að námi leikskólakennara og þroskaþjálfa í Kennaraháskóla Íslands er minni en skólinn getur annað, hins vegar sækja fleiri um inngöngu á íþróttaskor en skólinn getur tekið á móti og sömu sögu er að segja um grunnskólaskor. Kennaraháskólinn hefur verið virkastur háskóla til þessa í fjarkennslu og af um 1700 nemendum hans næsta haust verður um helmingur í fjarnámi. Með því nær skólinn til dæmis til þeirra, sem þegar starfa í grunnskólum og leikskólum en vilja nýta tímann til að menntast meira, án þess að hafa þó tök á því að setjast á skólabekk. Með fjarnámi er unnt að ná mjög góðum árangri eins og frétt frá Verkmenntaskólanum á Akureyri (VMA) sýnir, þar var dúxinn á stúdentsprófi á þessu vori fjarnemi, Sigurður Bjarni Sigurðsson frá Brautarholti í Svarfaðardal, sem stundar búskap með foreldrum sínum, en fékk 9,7 á stúdentsprófi frá VMA, án þess að hafa nokkru sinni sest þar á skólabekk.

Á þessu vori verður í fyrsta sinn ritað inn í framhaldsskóla á nýjum forsendum, því að allt landið er skilgreint sem eitt framhaldsskólasvæði og hin gamla hverfaskipting vegna skólainnritunar hverfur úr sögunni. Sjást merki um þessa breytingu meðal annars á auglýsingum skólanna, þar sem þeir höfða til nemenda á nýjan hátt og leggja áherslur á að kynna, hvaða nám er í boði. Þessar breyttu reglur eru í samræmi við það nýmæli, að nú er ekki lengur skylda að taka samræmt próf úr grunnskóla, en nemendur, sem taka prófin, eiga fleiri kosta völ við inngöngu í framhaldsskólana en hinir, sem sleppa prófunum. Vafalaust vakna ýmsar spurningar og álitaefni við þessa nýju framkvæmd eins og ávallt, þegar nýmælum er hrundið í framkvæmd.

Aðild að Alþjóðahvalveiðiráðinu.

Skýrt var frá því föstudaginn 8. júní, að Ísland væri að nýju aðili að Alþjóðahvalveiðiráðinu, en aðild væri forsenda þess, að unnt yrði að hefja hvalveiðar að nýju. Hefði verið gengið í ráðið með fyrirvara, en með honum skýtur Ísland sér undan samþykkt alþingis frá 1983 um að virða veiðibann Alþjóðahvalveiðiráðsins.

Ísland gekk úr Alþjóðahvalveiðiráðinu undir árslok 1992. Ríkisstjórnin ákvað að gera það á grundvelli skýrslu, þar sem Alþjóðahvalveiðiráðinu var lýst sem gagnslausum samtökum í höndum verndunarsinna, unnt yrði að fullnægja skilyrðum um aðild að alþjóðlegum samtökum sem forsendu hvalveiða með því að stofna samtök þjóða við Norður-Atlantshaf (NAMMCO) og færi Ísland úr ráðinu myndu Japan og Noregur líklega einnig gera og þar með væri ráðið í raun aðeins svipur hjá sjón.

Ég var formaður utanríkismálanefndar alþingis á þessum tíma og snerist gegn úrsögn úr Alþjóðahvalveiðiráðinu. Minnir mig, að við Guðrún Helgadóttir, þáverandi alþingismaður, höfum verið hin einu á alþingi, sem töldum úrsögn úr Alþjóðahvalveiðiráðinu óráðlega. Afstaða mín byggðist á því, að ég taldi einsýnt, að við gætum aldrei hafið hvalveiðar að nýju nema innan Alþjóðahvalveiðiráðsins, það væri borin von að NAMMCO gæti komið þar í staðinn.

Á þessum árum sat ég einnig á þingi Evrópuráðsins, þar sem eindregnir andstæðingar hvalveiða létu töluvert á sér bera, einkum úr hópi Breta. Beitti ég mér fyrir því, að nokkrum forystumönnum úr breska þingmannahópnum var boðið hingað í kynnisferð til að skýra málstað okkar og nauðsyn þess, að svigrúm væri til hvalveiða fyrir fiskveiðiþjóðir. Á fundum með þeim lýsti ég þeirri skoðun minni, að úrsögn úr Alþjóðahvalveiðiráðinu hefði verið mistök af okkar hálfu. Eftir fundinn sætti ég ámæli eins þeirra lögfræðinga ríkisstjórnarinnar, sem höfðu tröllatrú á NAMMCO og töldu þann vettvang geta komið í stað Alþjóðahvalveiðiráðsins, taldi hann stjórnmálamenn ekki mega tala á þann veg, sem ég gerði á þessum fundi!

Snemma árs 1995 fór utanríkismálanefnd alþingis í kynnisferð til Washington og hitti embættismenn og stjórnmálamenn. Var ásetningur Íslendinga um að hefja að nýju hvalveiðar meðal annars ræddur. Held ég, að enginn, sem tók þátt í þeim viðræðum, hafi dregið í efa, að utan Alþjóðahvalveiðiráðsins væri óskynsamlegt ef ekki ókleift að hefja hvalveiðar. Þegar spurningin um þetta efni var reifuð á fundi nefndarinnar eftir heimkomuna, minnist ég þess, að reyndur stjórnarandstöðuþingmaður sagði, að kúvendinguna í afstöðu til Alþjóðahvalveiðiráðsins yrði að taka hægt og í mjög stórum sveig.

Nú eru liðin meira en sex ár, frá því að Washington-förinni, og enginn hreyfir við því andmælum, þegar skýrt er frá því að Ísland hafi gengið inn í Alþjóðahvalveiðiráðið að nýju. Ekkert af því, sem sagt var, að mundi gerast við úrsögnina árið 1992 hefur gengið eftir. Hefur mér ætíð verið hulin ráðgáta, hvernig menn gátu komist að þeirri niðurstöðu, að Ísland gæti grafið undan Alþjóðahvalveiðiráðinu og eyðilagt það, þótt íslenskum fulltrúum hefði ekki tekist að vinna málstað okkar fylgis á þeim vettvangi. Hið eina jákvæða við úrsögnina er, að við getum við inngöngu í ráðið að nýju sett fyrirvara, sem gengur þvert á afstöðu alþingis vegna banns við hvalveiðum árið 1983 – vegna breyttra aðstæðna á vettvangi Aþjóðahvalveiðiráðsins hefði þó vafalaust verið unnt að komast undan banninu, þrátt fyrir samfellda aðild að ráðinu, því að forsendum bannsins hefur ekki verið fullnægt innan ráðsins.

Þegar rædd er aðild að alþjóðlegu samstarfi er oft gott að skýra gildi þáttöku í alþjóðasamtökum með dæmum. Í mínum huga er öll saga þátttöku Íslendinga í Alþjóðahvalveiðiráðinu, frá því að þar tók að þrengja að hagsmunum hvalveiðiþjóða, dæmi um í hvaða ógöngur þjóðir geta ratað, ef þær láta skammtímahagsmuni eða örvæntingu ráða ferðinni frekar en kalt mat á staðreyndum.

Ég er sannfærður um, að takist að koma hinum vísindalegu rökum að baki ákvörðun um að hefja hvalveiðar að nýju á framfæri með málefnalegum og skipulegum hætti, geti hlutlægir umhverfissinnar ekki lagst gegn því, að veiðar hefjist að nýju. Ég segi hlutlægir umhverfissinar vegna þess að með því höfða ég til þeirra, sem gera kröfu um, að aðrir virði vísindaleg rök þeirra við ákvarðanir í þágu umhverfisins. Hitt er svo annað mál, að endalaust má deila um vísindalegar aðferðir á þessu sviði eins og öðrum og umræður síðustu daga um gildi rannsókna á stærð fiskstofna við landið sýna, að full ástæða er til mikillar varkárni.

Úrslitin í Bretlandi

Kosningaúrslitin í Bretlandi koma ekki neinum á óvart. Skoðanakannanir hafa um margra vikna skeið sýnt hinn mikla mun á milli flokkanna, sem endurspeglast í úrslitum með góðum sigri Verkamannaflokksins undir forystu Tonys Blairs. Því hafði einnig verið spáð, að fáir mundu greiða atkvæði í kosningunum og síðustu dagana fyrir þær var það ekki síst kappsmál fyrir Blair og félaga að hvetja sem flesta til að fara á kjörstað. Um helmingur kjósenda varð við kallinu og í BBC hefur verið vakin athygli á því, að aðeins fjórðungur Breta eða um 25% kjósenda standi að baki meirihluta og stjórn Blairs. Þótt Blair hafi mikinn meirihluta þingmanna á bakvið sig, er það aðeins fjóðungur kjósenda, sem veitti honum umboð sitt, en einmenningskjördæmin í Bretlandi tryggja þar meirihlutastjórn eins flokks.

William Hague hefur nú sagt af sér sem formaður Íhaldsflokksins og hafin er barátta um eftirmann hans. Takast þar á fulltrúar þeirra sjónarmiða, sem vilja, að Íhaldsflokkurinn haldi fast í hugmyndafræðileg ágreiningsefni og líti samrunaþróunina í Evrópu neikvæðum augum, og hinna, sem vilja, að flokkurinn höfði meira en hann gerði í kosningabaráttunni til miðjunnar í breskum stjórnmálum. Fyrir íhaldsmenn ætti skírskotun til miðjunnar ekki að vera mjög erfið, því að hún hefur færst til hægri undanfarin ár. Vikuritið The Economist lýsti til dæmis yfir því í leiðara, að það mundi styðja Blair í kosningunum vegna þess, að hann fylgdi íhaldsstefnu í anda frú Thatcher.

Michael Heseltine, sem var ráðherra í stjórnum Thatcher og Majors, er talsmaður þess, að Íhaldsflokkurinn höfði betur til miðjunnar. Hann vill einnig, að flokkurinn láti af því, sem hann kallar fordóma í garð embættismannvalds Evrópusambandsins í Brussel, það sé af og frá, að þar sitji embættismenn og ráðskist til dæmis með þjóðarhagsmuni Þjóðverja og Frakka, auk þess vill hann, að Bretar taki upp evruna. Hann segir, að flokkurinn verði að gera upp við sig, hvort hann vilji komast í ríkisstjórn eða vera úti á jaðrinum vegna sérsjónarmiða sinna. Um þessi sjónarmið sé tekist í formannskjörinu. Heseltine bendir á, að enginn forystumaður Íhaldsflokksins hafi tekið mikilvægari ákvarðanir um aðild Breta að Evrópusambandinu en Margaret Thatcher, þótt hún hafi verið tilfinningalega andvíg samrunanum í Evrópu, hafi hún tekið sögulegar ákvarðanir um þátttöku í honum, þvi að annað hefði gengið þvert á brýna hagsmuni Bretlands.

Fyrir áhugamenn um stjórnmál verður forvitnilegt að fylgjast með því sem gerist í breskum stjórnmálum næstu vikur, þær verða meira spennandi en kosningabaráttan, því að Íhaldsflokkurinn átti aldrei neina von um að koma Verkamannaflokknum frá völdum.

Fréttir bárust um, að ýmsir frammámenn Samfylkingarinnar hefðu verið í Bretlandi fyrir kosningarnar og tekið þátt í kosningastarfi með Verkamannaflokknum. Fróðlegt verður að sjá, hvað þessir menn gera til að hressa upp á andlit Samfylkingarinnar í ljósi reynslu sinnar. Þeir ættu að hafa séð, að mikið þarf til þess að fella ríkisstjórn, sem gengur samhent og án stóráfalla á ferli sínum til kosninga. Þeir ættu einnig að hafa séð, að það skiptir máli að fylgja ábyrgri stefnu og hafa forystumenn, sem njóta trausts. Samfylkingin þarf að taka sér tak, ætli hún að uppfylla þessi skilyrði.