26.1.2020 10:08

Kína bar hæst í Davos

Kína er of stórt og sækir of hratt fram til að unnt sé að ganga fram hjá landinu í þágu Bandaríkjanna.

Á bandarísku fréttavefsíðunni Axios sagði laugardaginn 25. janúar frá því helsta sem bar á góma í svissneska fjallabænum Davos þar sem í vikunni var efnt til árlegs fundar á vegum World Economic Forum. Niðurstaðan er skýr, Kína bar hæst í máli manna. Þetta fellur að því sem kom fram í grein minni í Morgunblaðinu föstudaginn 24. janúar, að áhrif Kínverja verða sífellt meiri á öllum sviðum.

Axios segir að í Davos hafi sérfræðingar, stjórnendur fyrirtækja og forystumenn ríkisstjórna verið á einu máli: Bandaríkjastjórn Trumps býr sig undir langvinnan ágreining við Kínverja – menn hneigist æ meira til að líta á þá sem tilvistarógn.

Ea21f0c8-7732-11e9-b0ec-7dff87b9a4a2Kína er of stórt og sækir of hratt fram til að unnt sé að ganga fram hjá landinu í þágu Bandaríkjanna. Þótt Trump vilji sýna Kínverjum viðskiptahörku segi þeir sem stunda viðskipti að ekki sé unnt að hafna tækifærum sem gefast í Kína.

Til dæmis er nefnt að Bretar og Þjóðverjar velti fyrir sér að kaupa 5G-háhraðanet frá Huawei í Kína hvað sem líði andstöðu Bandaríkjastjórnar. Ekki er unnt að framleiða rafknúna bíla án þess að nýta kínverska tækni. Næstum allar tölvur í heiminum og allir snjallsímar eru framleiddir í Kína. Kínverjar verða hins vegar enn að fá hálfleiðara og forrit frá Bandaríkjunum.

Viðskiptastríð Trumps við Kínverja vakti Bandaríkjamenn til vitundar um hve mikið þeir í raun eiga undir í viðskiptum sínum við Kínverja.

Þótt Trump tali um Kínverja á þann veg sem hann gerir – hann gortaði af vináttu sinni við Xi Jinping Kínaforseta í Davos – í von um að vinna atkvæði er viðhorfið annað í bandaríska varnarmálaráðuneytinu. Leiðtogar annarra ríkja eru eins og í línudansi á milli tveggja risa.

Verði ríkisoddvitar settir upp við vegg velji margir þeirra Kína. Þar má nefna forystumenn Afríkuríkja sem treysta á fjárfestingu og mannvirkjagerð Kínverja. Þeir séu ekki undir þrýstingi frá kvartandi mannréttindafrömuðum á Vesturlöndum heldur Kínverjum. Í Kyrrahafslöndum Asíu treysti allir mest á Kínverja í vöruviðskiptum. Ólíklegt sé að þessi ríki rjúfi fjárhagsleg tengsl sín við Kínverja.

Dæmin sem nefnd eru í grein minni í Morgunblaðinu snúa að kínverskum ítökum í Pakistan, Eþíópíu og Srí Lanka. Þau eru mikil og vaxandi. Mun fleiri dæmi hefði mátt nefna.

Kínverjar gáfu íbúum Zimbabwe til dæmis glæsilegt þinghús og áhrif þeirra í Namibíu allt frá því að þjóðin hlaut sjálfstæði eru mjög mikil og vaxandi. Innan ESB segja menn að stundum megi greina kínversk áhrif á afstöðu Grikkja en Kínverjar hafa þar ítök vegna mannvirkja sinna í hafnarborginni Piræus. Á Grænlandi gripu stjórnvöld í Danmörku og Bandaríkjunum til sérstakra ráðstafana til að hindra aðild Kínverja að flugvallargerð.

Allt eru þetta kaldar staðreyndir sem ber að hafa í huga gagnvart Kínverjum. Þótt þeir flytji ekki út hugmyndafræði á sama hátt og Sovétmenn gerðu krefjast stjórnarhættir þeirra þess að þeir sem lúta áhrifum þeirra lúti einnig boðvaldi kommúnistastjórnarinnar þegar hún krefst þess.