5.12.2019 10:59

Jólatré og NATO í London

Nú bregður svo við að tréð á Trafalgartorgi þykir of ræfilslegt til að vera borgarprýði. Tréð er sagt 90 ára gamalt og var hoggið við Trollvann skammt frá Osló.

Áralöng hefð er fyrir því að Reykvíkingar fái jólatré vað gjöf frá Oslóarbúum og var fjölmenni á Austurvelli síðdegis sunnudaginn 1. desember þegar kveikt var á trénu í 68. skipti.

Frá árinu 2015 hefur Oslóartréð verið hoggið í Heiðmörk með vísan til sameiginlegrar ákvörðunar borgaryfirvalda í Osló og Reykjavík „enda samræmist sendinga jólatrjáa á milli landa ekki umhverfissjónarmiðum,“ eins og sagði í fréttum í desember 2015.

Þá var tré flutt frá Osló í síðasta sinn og kveikt á því 29. nóvember 2015. Tréð var hins vegar úrskurðað ónýtt 9. desember eftir að snörp lægð hafði leikið það illa. Var þá brugðið skjótt við og hoggið tré í Heiðmörk og flutt á Austurvöll.

Þetta er rifjað upp hér vegna vonbrigða manna í London yfir Oslóartrénu sem er nú á Trafalgartorgi í hjarta borgarinnar eins og verið hefur fyrir jólin frá árinu 1947. Þá ákváðu Norðmenn að sýna í verki þakklæti sitt til Breta fyrir framgöngu þeirra í síðari heimsstyrjöldinni og frelsun Noregs úr höndum nazista.

Nú bregður svo við að tréð á Trafalgartorgi þykir of ræfilslegt til að vera borgarprýði. Tréð er sagt 90 ára gamalt og var hoggið við Trollvann skammt frá Osló.

Hér er mynd af trénu sem birtist með frétt í The Daily Telegraph þar sem skýrt er frá vonbrigðum sem borgarbúar hafa látið í ljós á samfélagsmiðlum.

1Picture-1Oslóartréð 2019 á Trafalgartorgi.

Hér fyrir neðan er mynd af síðasta norska Oslóartrénu sem stóð á Austurvelli í nokkra daga 2015 en þoldi ekki snörpu lægðina. Eins og sjá má var það ekki síður ræfilslegt en tréð á Trafalgartorgi.

3603BC8926D2CF2FC285314BC621C7913737FE9007DBD2147677B7A5607AE994_713x0Oslóartréð 2015 á Austurvelli - síðasta tréð frá Noregi.

NATO í London

Sjötíu ára afmælisfundur leiðtoga NATO-ríkjanna var haldinn í London miðvikudaginn 4. desember. Eins og svo oft áður í sögu bandalagsins gerðu fjölmiðlamenn meira úr ágreiningi innan þess fyrir fundinn en eftir hann. Bandalagið er lýðræðislegur vettvangur frjálsra þjóða með ólíkar skoðanir á mörgum málum en þegar kemur að kjarna málsins sjá allir sem bera ábyrgð á velferð þjóðanna að öryggi þeirra er best tryggt með aðild að NATO. Sannaðist það enn á fundinum í London.

Fyrir fundinn sagði ég í grein í Morgunblaðinu :

„Það má ráða af yfirlýsingunni sem gefin verður eftir fundinn í London hvort sjónarmið Þjóðverja eða Frakka fær náð fyrir augum leiðtoganna. Víst er að áhersla verður lögð á að sýna gott lífsmark með NATO, þegar áttundi áratugurinn í sögu bandalagsins hefst.“

Allt gekk þetta eftir. Ágreiningur Þjóðverja og Frakka sem þarna er nefndur snerist um hvort framkvæmdastjóri NATO ætti að stjórna úttekt á framtíðarverkefnum bandalagsins eða ekki. Þjóðverjar vildu fyrri kostinn en ekki Frakkar.

Undir lok yfirlýsingar leiðtoganna í London segir:

„Með vísan til breytilegs strategísks umhverfis mælumst við til þess að framkvæmdastjórinn kynni utanríkisráðherrunum tillögu sem samþykkt hefur verið í ráðinu [af fastafulltrúum aðildarríkjanna] um hvernig staðið skuli að framtíðarathugun undir hans handarjaðri með aðkomu viðeigandi sérfræðinga til að styrkja enn frekar stjórnmálalega vídd NATO þar á meðal samráð.“

Áhugamenn um diplómatískt orðalag geta vísað til þessarar klausu vilji þeir benda á dæmi um að notaður sé glanspappír og silkiband til hafna tillögu Frakka um að framkvæmdastjóri NATO fari ekki með yfirstjórn úttektarinnar.