Varðstaða gegn útþenslu einræðis
Morgunblaðið, föstudagur, 29. nóvember 2019
Í ritstjórnargreinum Morgunblaðsins á árum áður var orðið smánarmúr oft notað þegar rætt var um Berlínarmúrinn. Hann táknaði smán kommúnista sem urðu að reisa múr þvert í gegnum Berlín til að halda fólki nauðugu undir einræðis- og fátæktarstjórn sinni.
Fyrir tæpri viku birtist hér í blaðinu grein um stöðu mála í Þýskalandi þegar 30 ár eru liðin frá því að Berlínarmúrinn féll. Í henni kemur hvorki fyrir orðið sósíalismi né orðið kommúnismi. Væri skrifað um stöðu mála í Þýskalandi og síðari heimsstyrjöldina án þess að minnast á nazista þætti það sögufölsun. Dettur einhverjum í hug að skrifa sögu kalda stríðsins án þess að tala um kommúnisma og stjórnkerfi hans?
Í Krakkafréttum ríkisútvarpsins 11. nóvember 2019 sagði: „Höfuðborginni í Berlín var líka skipt í tvennt og árið 1961 var reistur múr til að aðgreina borgarhlutana. Það var líka gert til að koma í veg fyrir að fólk flyttist á milli, aðallega frá austri til vesturs.“ Þarna er látið eins og um skipulagsákvörðun hafi verið að ræða. Þetta voru átök milli tveggja stjórnkerfa, keppni tveggja hugmyndakerfa um hvernig fólk fengið best notið sín.
Dæmin tvö sýna ásetning um að færa söguna í nýjan búning. Grafið er undan vitundinni um að í Evrópu eru enn þann dag í dag tvö ólík stjórnkerfi. Frjálslynd lýðræðisríki þar sem réttur einstaklingsins til orðs og æðis er viðurkenndur. Forræðisríki þar sem valdhafar ganga á rétt borgaranna og beita gagnrýnendur valdi. Þar er nærtækast að benda á Rússland og Hvíta-Rússland.
Sunnudaginn 17. nóvember var kosið til þings Hvíta-Rússlands. Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var þar við kosningaeftirlit og sagði meðal annars á FB-síðu sinni mánudaginn 18. nóvember:
„Þrátt fyrir að tveir bunkar mismunandi frambjóðanda hafi sýnst mjög sambærilegir fyrir okkur í eftirlitinu (sem auðvitað máttum bara standa í hæfilegri fjarlægð) þá hafði sigurvegarinn samkvæmt opinberu tölunum næstum því þrisvar sinnum fleiri atkvæði. Á þessum tímapunkti varð mér einfaldlega flökurt og þegar ég sagði það við túlkinn minn þá sagði hún bara, ímyndaðu þér hvernig mér líður.“
Aðeins stuðningsmenn einræðisherrans Alexanders Lukasjenkos forseta náðu kjöri á þingið í Hvíta Rússlandi. Í Austur-Þýskalandi hurfu þessir kommúnísku stjórnarhættir um leið og Berlínarmúrinn. Aðild að eftirliti með kosningum í einræðisríkjum skapar íbúum þar þá sorglegu tilfinningu að eftirlitsþjóðirnar leggi blessun sína yfir skrípaleikinn. Hér á landi er auk þess minna fjallað um ofstjórn og kúgun í Hvíta-Rússlandi en skoðanir þeirra sem hlutu nýlega meirihluta í lýðræðislegri kosningu í Póllandi.
Þjóðverjar brenndu sig svo illa á afleiðingum einræðisstjórna að hjá þeim eru fjölmargar hindranir gegn því að slíkar hörmungar endurtaki sig. Varnarvirkin gegn pólitískum ofríkismönnum eru því miður ekki alls staðar jafnöflug og í Þýskalandi. Einmitt þess vegna er brýnt að sagan gleymist ekki og lýðræðisþjóðir í vestri styrki lýðræðislega grunnþætti í mið- og austurhluta Evrópu. EES/EFTA-ríkin Ísland, Liechtenstein og Noregur gera þetta meðal annars sérstaklega í gegnum Uppbyggingarsjóð EES sem leggur sig fram um stuðning við frjáls félagasamtök.
Leiðtogafundur NATO
Öllum var þjóðunum undir einræði kommúnisma mest virði að fá aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO) eftir að þær fengu frelsi. Bandalagið var stofnað fyrir 70 árum til að sporna gegn útþenslu kommúnismans í krafti lýðræðishugsjóna og mannréttinda. Þjóðirnar sem bæst hafa í hópinn undanfarin ár líta bæði á aðildina sem viðurkenningu á leið sinni til lýðræðis og öryggistryggingu.
Þetta verður enn einu sinni staðfest á fundi miðvikudaginn 4. desember í London. Hér í þessum dálki er gjarnan talað um fund ríkisoddvita NATO og er þá vísað til funda sem bandalagið kallar summit á ensku. Fundinn í London kallar bandalagið hins vegar Leaders Meeting, leiðtogafund. Til hans er efnt vegna 70 ára afmælis NATO sem utanríkisráðherrar aðildarríkjanna 29 fögnuðu í Washington 4. apríl 2019.
Kvöldið fyrir fundinn býður Elísabet II. Bretadrottning til athafnar í Buckingham-höll. Að morgni 4. desember hittast leiðtogarnir í Grove Hotel í Hertfordshire og ræða saman fram að hádegi undir forsæti Jens Stoltenbergs, framkvæmdastjóra NATO. Markmiðið er að efla og staðfesta enn einu sinni samheldni bandalagsþjóðanna. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra situr fundinn fyrir Íslands hönd.
Áhersla á framtíðarverkefni
Frá því að Donald Trump Bandaríkjaforseti tók að krefjast aukinnar hlutdeildar Evrópuríkja í sameiginlegum útgjöldum til hermála hefur orðið breyting í þá átt eins og staðfest verður í London. Þar mun einnig skýrast hvaða Evrópuríki tekur forystu í hernaðarlegum öryggismálum ESB-ríkja eftir brexit 31. janúar 2020 fái Boris Johnson, forsætisráðherra Breta og gestgjafi í London, nægilegan stuðning í kosningunum 12. desember til að hrinda loforðum sínum í framkvæmd.
Nýleg ummæli Emmanuels Macrons Frakklandsforseta um „heiladauða“ NATO eru víða talin til marks um að hann vilji árétta forystuhlutverk Frakka, eina kjarnorkuveldisins innan ESB eftir brottför Breta. Angela Merkel Þýskalandskanslari spyrnti strax við fæti.
Utanríkisráðherrar NATO-ríkjanna hittust á fundi í Brussel miðvikudaginn 20. nóvember. Í fréttum af fundinum segir að þar hafi utanríkisráðherrar Frakka og Þjóðverja hvor um sig reynt að skipa sér í forystusess meðal ESB-ríkja.
Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði að á tíma umræðna um traust í garð Donalds Trumps, reiði í garð Tyrkja vegna innrásar þeirra í Sýrland og efasemda um vilja ESB-ríkja til að standa að eigin vörnum væri ekki skynsamlegt að mæla með því að ESB-ríkin héldu sína leið, leggja ætti rækt við NATO-samstarfið.
Þessu til staðfestingar lagði Maas til að Jens Stoltenberg skipaði hóp sérfræðinga til að ræða framtíðarstefnu NATO og leggja skýrslu um hana fyrir NATO-ríkin.
Til sambærilegrar skýrslugerðar var gengið á sjöunda áratugnum þegar Pierre Harmel, utanríkisráðherra Belga, leiddi hóp „vísra manna“ sem lagði árið 1967 fram skýrslu um framtíðarverkefni bandalagsins, þar sem defence, deterrence og détente – varnir, fæling og slökun – voru lykilorðin. Í því fælust ekki andstæður að efla varnir NATO og fælingarmátt um leið og leitað væri eftir vinsamlegum viðræðum við hugsanlegan andstæðing.
Af fréttum að dæma naut tillaga þýska utanríkisráðherrans meiri stuðnings á fundinum en hugmyndin sem Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakka, kynnti um „vísa menn“ um málefni NATO en ekki undir forsjá NATO.
Það má ráða af yfirlýsingunni sem gefin verður eftir fundinn í London hvort sjónarmið Þjóðverja eða Frakka fær náð fyrir augum leiðtoganna. Víst er að áhersla verður lögð á að sýna gott lífsmark með NATO, þegar áttundi áratugurinn í sögu bandalagsins hefst.